Gerast áskrifandi

Index: 0

Aflaverðmæti fyrir 3,5 milljarða króna á tíu mánuðum

18.01.2017

Danska uppsjávarveiðiskipið Ruth kom til Færeyja fyrir helgina með um 2.600 tonn af makríl að verðmæti um 20 milljóna DKK eða jafnvirði tæplega 330 milljóna íslenskra króna. Þetta er afrakstur fyrstu veiðiferðar ársins en frá því að skipið var afhent nýtt í mars í fyrra hefur það aflað um 27.000 tonna af fiski að verðmæti um 205 milljóna DKK. Það samsvarar tæpum 3,4 milljörðum ísl. króna á aðeins tíu mánuðum.


Einn lykillinn að velgengni áhafnarinnar á Ruth eru veiðarfærin sem notuð eru á makríl- og síldveiðunum. Keypt voru tvö flottroll af gerðinni 1216 m Gloria Helix frá Cosmos Trawl, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Danmörku, en þau eru hönnuð af Arne Olesen og Leif Lykke, sölustjórum Cosmos Trawl í Hirsthals og Skagen. Að sögn Arne eru trollin framleidd í stærðunum 768 til 1.400 metra. Þau eru gagngert hönnuð  til veiða á makríl og síld en þau hafa einnig verið notuð við veiðar á brislingi í Norðursjó og Eystrasalti með frábærum árangri.



,,Fyrsta 1216 m Gloriu Helix flottrollið fór um borð í Cattleya, sem þá var nýsmíði, og útgerð þess skips hefur alls keypt af okkur fjögur troll af þeirri gerð. Hvað varðar Ruth þá fór skipið í fyrstu veiðiferðina 17. mars í fyrra og á þeim tíu mánuðum sem liðnir eru hefur verið treyst á þetta troll. Það skilaði sér í 24 þúsund tonna afla að verðmæti 185  milljónum DKK í fyrra og árið 2017 fer mjög vel af stað. Það er athyglisvert, og um leið staðfesting á að hönnunin sé rétt og styrkleikinn til staðar, að á þessum tíu mánuðum hafa aðeins fjórir möskvar í trollinu slitnað,“ segir Arne Olesen.
 


Ruth er stolt danska uppsjávarveiðiflotans. Skipið er 87,80 metra langt og 16,60 metra breitt og var það smíðað hjá Karstensens Shipyard í Skagen í Danmörku. Skipið er hið fyrsta sinnar gerðar í heiminum sem útbúið er með þremur togvindum og getur dregið tvö flottroll samtímis á uppsjávarveiðum.

Svo virðist sem að lítið lát sé á góðum makrílafla hjá áhöfninni á Ruth því fréttir bárust af því í gær að skipið væri þá aftur á leið til hafnar með um 11-12 milljónir DKK að aflaverðmæti eftir mjög stutta viðveru á miðunum. Þar með er aflaverðmætið á þessum tæpu tíu mánuðum komið í um 217 milljónir DKK eða rúma 3,5 milljarða ísl. króna.

Please fill in the below details in order to view the requested content.