Árleg ferð Hampiðjunnar og samstarfsaðila í tilraunatankinn í Hirtahals í Danmörku var farin í lok nóvember. Í tankinum, sem sérhannaður er til að prófa veiðarfæri, má t.d. sjá hvernig veiðarfæri haga sér þegar þau eru dregin í sjó og hvaða áhrif mismunandi toghraði hefur á þau. Tilraunatankurinn er vinsæll meðal veiðarfæraframleiðanda til að sýna vörur sínar og gagnast hann sjómönnum og öðrum sem koma að útgerð vel við val á veiðarfærum.
Hópurinn sem mætti til Hirtshals í ár var góð blanda af uppsjávar- og botntrollsskipstjórum, stýrimönnum, veiðarfæratæknum og tæknimönnum. Eins og oft áður var þátttaka góð en um 70 manns, víða að úr heiminum, tóku þátt.
Í ferðinni voru skoðuð bæði botn- og flottroll. Í botntrollum kynnti Hampiðjan nýjustu útgáfur af vinsælum trollum, svo sem Jagger 96 m með stærri vængmöskva og H-Top 127 m með styttri belg og Magnet Compact efni í stað Advant.
Þegar kom að flottrollum vöktu Gloria 2560 og Gloria 2720 mikla athygli en þau eru ætluð í kolmunnaveiðar og fara í prufur eftir áramót. Þessi kolmunnatroll eru nú framleidd með Helix-Robus leggjum sem eru grennri og léttari en Helix kaðallinn sem notaður hefur verið hingað til en með Helix-Robus verða veiðarfærin auðveldari í drætti vegna minni togmótstöðu án þess að missa styrk. Helix-Robus efnið reyndist vel á síðustu makrílvertíð og Hampiðjan heldur áfram þróun veiðarfæra með því tógi. Í makríltrollum var Gloria 1936 XW skoðað, en það er stærri útgáfa af hinu þekkta Gloria 1760 XW. Bæði þessi troll voru kynnt í Helix-Robus útfærslum sem hafa allt að 25% minna flatarmál í toppi veiðarfærisins sem gerir trollið léttara í togi.
Síldartrollin fengu einnig sinn sess. Gloria 2048 er netmikið veiðarfæri með þremur gröndurum sem loka hliðarbyrði trollsins og auka þannig smalagetu þess. Einnig voru sýnd Gloria 1792 Rockall og Gloria 2048 Rockall troll sem eru sérstaklega sterk og henta vel fyrir erfiðar aðstæður í kolmunnaveiði á Rockall svæðinu. Þátttakendum í ferðinni gafst kostur á að óska eftir breytingum á stillingum á tankinum til að sjá áhrif þeirra á veiðarfærin og nýttu þeir sér það vel.
Í tankinum fengu þátttakendur líka að kynnast nýrri tegund af hopparalengju, Injector Flow Gear, sem er hönnuð og þróuð af dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, Mørenot Fishery, og er nú í einkaleyfisferli. Injectoe Flow Gear er byggt er upp af hálfhringjum úr plasti í stað stórra gúmmíhringja. Straumlínulagað form hálfhringslengjunnar dregur úr mótstöðu í vatni og á sjávarbotni, sem minnkar álag og dregur úr orkunotkun. Að auki bætir nýja hopparalengjan bæði opnun og stöðugleika trollsins í drætti. Prófanir hafa einnig sýnt að þegar vatn flæðir yfir hálfhringlaga formið eykst vatnshraðinn í átt að miðju trollsins, sem leiðir fiskinn betur inn í trollið og gefur meiri veiði.
Einnig var sýndur munurinn á DynIce Data höfuðlínukapli og stálkapli í togi en þar er munurinn mikill því DynIce Data er léttur og leitar upp í drætti meðan stálkapallinn sekkur niður. Þannig lyftir DynIce Data höfuðlínunni upp en stálkapall dregur hana niður og í sumum tilfellum getur stálkapallinn fælt fisk frá trollopinu ef hann liggur of neðarlega. DynIce Data hefur einnig þann kost að kapallinn stendur mun hærra í sjónum þegar beygt er og flýgur yfir hlerana ef slaki myndast. Mismunurinn á þessum tveim köplum verður öllum ljós í tankinum og þar er sjón sögu ríkari.
Samstarfsaðilar Hampiðjunnar kynntu einnig nýjungar og frá hleraframleiðandanum Thyborøn var lögð áhersla á nýja gerð af botnhlerum sem ganga undir heitinu Týpa 28 en prófanir sem gerðar hafa verið á þeim hafa komið vel út. Einnig var Thyborøn með til sýnis fjarstýrða flottrollshlera sem reynst hafa afar vel en í dag eru um 30 pör í notkun víðsvegar um heiminn, þar með talið á Íslandi. Hönnunin á Thyborøn toghlerunum er einkaleyfisvarin og hlerarnir eru mun sterkbyggðari en aðrir stýranlegir hlerar sem eru í boði.
Simberg kynnti fiskileitartæki og trollnemakerfi frá Simrad fyrir bæði uppsjávar- og botntrollsveiðar. Helstu nýjungarnar eru Simrad TP 60 trollnemar sem gefa raun staðsetningu á trollinu inn á sónara og plottera um borð og Simrad SN 50, sambyggðan 160° sónar og fjölgeisla dýptarmæli á 50 kHz, sem er öflugt fiskileitartæki fyrir botnfisktogara. Einnig sýndu þeir Simrad FS 80, nýjan trollsónar sem kemur á markað í febrúar og mun leysa af hólmi FS 70 sónarinn sem er búinn að vera í notkun síðustu 20 árin og Simrad ST 93 MK2, lágtíðni sónar sem er á 14 til 22 kHz, með öflugri sendi og næmari móttakara. Að lokum var farið yfir nýjasta hugbúnaðinn fyrir Simrad ES 80 dýptarmælana, en í hann er að koma gervigreind til að tegundagreina lóðningarnar.
Heimsóknir til fyrirtækja er tengjast sjávarútvegi eru fastir liðir í tankferðum Hampiðjunnar. Að þessu sinni var farið til Skagen þar sem farið var um borð í Havfisk sem er uppsjávarskip sem er í smíðum í Karstensen skipasmíðastöðinni. Einnig var nýtt og glæsilegt netaverkstæði dótturfyrirtækis Hampiðjunnar, Cosmos í Skagen, skoðaðen það var tekið formlega í notkun og vígt í september síðastliðnum.
Hópurinn varði þremur dögum í Hirtshals. Þrátt fyrir að dagskráin væri þétt gafst góður tími til samveru í dagslok í sameiginlegum kvöldverðum. Tankferðirnar eru gott tækifæri til að hitta kollega úr sjávarútvegsgeiranum, treysta gömul kynni og stofna til nýrra. Að dvölinni í Hirtshals lokinni var haldið til Kaupmannahafnar á föstudeginum þar sem Hampiðjan bauð til kvöldverðar og nýttu margir það tækifæri að fá til sín maka og lengja dvölina í borginni sem á aðventunni skartar sínu fegursta.
Tankferðir Hampiðjunnar eru árlegur viðburður og verður næsta ferð farin á svipuðum tíma að ári.