Pófanir í tanki
Áframhaldandi samstarf Hafrannsóknastofnunarinnar, HB-Granda og Hampiðjunnar við rannsóknir á virkni þvernetspoka með DynIce QuickLine kerfinu héldu áfram sl. vor. Poki í rækjuriðli var mældur í tilraunatanki í Canada í samvinnu með þarlenda háskólastofnun (Fisheries and Marine Institute of Memorial University of Newfoundland).
Að sögn Haraldar Arnar Einarssonar, fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun, var í mælingunum borin saman virkni síðupoka og þvernetspoka. Töluverður munur reyndist á opnun pokanna þar sem þvernetspokinn var mun opnari og með meira flæði aftur. Einnig var skoðaður munur á stuttum og löngum belg fyrir framan þessa poka, en það var ekki mikinn mun að sjá á þvernetspoka eftir belggerð, en síðupokinn sýndi minna flæði þegar belgur var langur.
Þvernets-karfapoki með 110mm möskva
,,Við fórum í veiðiferð í maí sl. á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK-16 með Heimi Guðbjörnssyni skipstjóra og áhöfn hans til mælinga á virkni á þvernetspoka í fjórum byrðum með DynIce Quickline kerfi. Leiðangurinn var einnig í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, HB-Granda og Háskólann á Nýfundnalandi. Hampiðjan setti saman fjögurra byrða þvernets-karfapoka í 110 mm möskva í tvöföldu 6 mm PE pokaneti. Notaður var yfirpoki (50 mm möskvi) til að safna þeim fiskum sem smugu pokann á togdýpi,“ segir Haraldur Arnar en hann segir niðurstöður mælinganna þær að þvernetspoki með 110 mm möskva skilji út meira út en tveggja byrða síðupoki með 135 mm möskva.
Tekin voru nægilega mörg hol til að marktæk mæling á kjörhæfni fengist.
,,Það kom þá í ljós að þessi poki var með 7,3 cm hærri kjörhæfni í lengdarmælingu í gullkarfa (Sebastes marinus) en poki sem fyrr var mældur við sömu aðstæður en það var hefðbundinn karfapoki eða síðupoki í 135 mm. En þrátt fyrir að meira sleppi út af smáum karfa frá þvernetspokann þá heldur hann engu að síður betur inni karfa sem er yfir viðmiðunarmörkum (33 cm). Ástæðan er að kjörlínan fer mun skarpar upp á þvernetspokanum í samanburði við síðupokann. Þá kom það einnig í ljós að breytileiki á milli toga var minni við notkun nýja pokans í samanburði við hefðbundinn karfapoki en sýndi þó nokkurn breytileika, sérstaklega í minnsta karfanum. Þetta sést glögglega á línuritinu þar sem óvissumörkin eru litaða svæðið.“
Línuritið sýnir kjörhæfnikúrfu fyrir þvernetspokann með 110mm möskva (rauður) og hefðbundinn karfapoka í síðuneti með 135mm möskva (svartur). Punktalína sýnir 33cm lengd karfa sem er viðmiðunarmörk í eftirliti. Þvernetspokinn skilur betur út smákarfa en gamli karfapokinn og hann heldur aðeins betur inni karfa stærri en 33cm. Nokkur munur er á breytileika mælinga sem er meiri frá mælingum á hefðbundnum karfapoka. Kjörlengd þvernetspokans til karfa (þar sem línan sker 50% hlutfall) er 30cm en 22,7cm langur karfi í karfapokanum. Töluverður munur er á breytileika mælinga frá pokum (litaðað svæðið).
Er þetta hentugri poki til karfaveiða?
,,Það bendir allt til að þessi poki skilji betur út smákarfa og annan smáfisk en eldri poki þrátt fyrir að vera með minni möskva. Það er ekki fullsannað en virðist þó vera að megnið af fiskinum (karfa) sem smjúgi fari út á togdýpi. Þetta er að stórum hluta litli karfi ( Sebastes viviparus) sem er ekki markaðsvara og endar því oftast aftur í hafinu og þá dauður. Það eru því augljós rök fyrir því að þessi poki sé betri þegar litið er á umgengni við fiskistofna. Hins vegar þá ánetjast karfi í þessum poka líkt og í þeim eldri. Karfi sem ánetjast er oft skemmdur jafnvel ónýtur sem söluvara. Það er þó vísbending að megnið af karfanum sem ánetjast í 110 mm þvernetspoka gæti verið af annarri stærð en úr 135 mm síðupoka. Þetta þarf að skoða og er fremur auðvelt að mæla. En það eru einnig til önnur ráð í pokahorninu sem má reyna til að minnka ánetjun,“ segir Haraldur Arnar Einarsson.
Helga María og Sturlaugur H. Böðvarsson prófa pokann frekar
HB-Grandi hefur fengið undanþágu til að prófa þennan eina poka sem til er í þessari uppsetningu og safna frekari gögnum. Bæði hvað varðar myndatöku og mælingu á ánetjun. Einnig á því hvernig pokinn reynist almennt við veiðar á karfa. Það má því vænta þess að frekari upplýsingar um notagildi pokans verði ljós eftir fáa mánuði og hægt verði að taka ákvörðun um notkun hans
Rannsóknarteymið, frá vinstri:
Zhaohai Cheng : Fisheries and Marine Institute of Memorial University of Newfoundland
Harold Delouche : Fisheries and Marine Institute of Memorial University of Newfoundland
Georg Haney : Hafrannsóknastofnun
Stefanie Haase : nemandi í starfsnámi hjá Hafrannsóknastofnun
Haraldur Arnar Einarsson : Leiðangurstjóri