Nýtt og glæsilegt uppsjávarskip, Beitir NK 123, bættist í flota Síldarvinnslunnar hf. og Norðfirðinga á Þorláksmessu. Þá sigldi skipið í fyrsta sinn inn Norðfjörðinn til heimahafnar í Neskaupstað. Það var svo til sýnis sunnudaginn 27. desember sl.
Hinn nýi Beitir var smíðaður í skipasmíðastöðinni Western Baltija í Klaipeda í Litháen og kom skipið, sem þá nefndist Gitte Henning, nýtt til Danmerkur árið 2014. Skipið, sem er eitt af stærstu uppsjávarskipum Norðurlanda, það er 86,3 metrar að lengd, 17,6 metrar að breidd og 4.138 brúttótonn. Burðargeta skipsins er 3.200 tonn en til samanburðar má geta þess að það er rúmlega fjórföldun á 750 tonna burðargetu Barkar NK-122 sem kom til landsins árið 1973 og var þá stærsta nótaskip íslenska flotans.
Síldarvinnslan hefur um árabil verið viðskiptavinur Hampiðjunnar og skip fyrirtækisins hafa notað veiðarfæri frá Hampiðjunni um áratuga skeið með góðum árangri. Hampiðjuveiðarfærin verða færð af gamla Beiti yfir í nýja skipið eftir þörfum og þar á meðal eru Gloríu Helix flottroll til loðnu-, síldar-, kolmunna-og makrílveiða . Beitir er nú í fyrstu veiðiferð við Færeyjar á kolmunnaveiðum. Hampiðjan óskar Síldarvinnslunni, áhöfn Beitis og Norðfirðingum til hamingju með hið nýja og glæsilega skip. Ekki er að efa að hinn nýi Beitir á eftir að reynast hið mesta happafley og stuðla að aukinni verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi um ókomin ár.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri ávarpar gesti í brúnni á Beiti NK.
Ljósm. Hákon Ernuson