Skip to main content

Kraftinnkoma í Gloríuna á Glettinganesflaki

Það hljóp á snærið í orðsins fyllstu merkingu hjá áhöfninni á Berki NK í síðustu veiðiferðinni áður en hlé var gert á veiðum vegna Íslensku sjávarútvegssýningarinnar. Börkur var þá að síldveiðum á Glettinganesflaki og á aðeins einum tíma nam innkoman í Gloríu Helix 1600 m síldar- og makríltrollið heilum 500 tonnum.

Hjörvar Hjálmarsson var skipstjóri í veiðiferðinni og hann segir að innkoman í trollið í þessu stutta holi sé sú mesta sem hann muni eftir.

,,Það voru fínar torfur þarna og síldin laus frá  botni. Við sökktum því trollinu niður á 60 faðma  þar sem er 90 faðma botndýpi. Svo hafði maður fullt í fangi með að fylgjast með aflanemunum því innkoman í trollið var svo skörp. Þegar síðasti aflaneminn gaf merki þá var ekki um annað að ræða en hífa. Við vissum ekkert hvað hafði bæst við framar í trollinu á meðan við hífðum en þetta blessaðist allt og aflinn í holinu var um 500 tonn,“ segir Hjörvar en þess má geta að alls eru fjórir aflanemar á trollinu.

Að sögn Hjörvars var síldin var úrvalsgæðum og ekki síðri en nótaveiddur fiskur. Skörp innkoma og stutt hol skýra gæðin.

Áhöfnin á Berki hefur notað Gloríu 1600 flottrollið undanfarin tvö ár og segir Hjörvar að menn séu mjög ánægðir með það, jafnt á síldinni sem og á makrílnum.

,,Við sluppum alveg við áföll í sumar og netavinna við trollið var sama og engin. Það á örugglega a.m.k. eina vertíð eftir,“ segir Hjörvar en er rætt var við hann var hann í landi en Sturla Þóðarson skipstjóri var þá með skipið að síldveiðum undan SA-landi.

,,Kvótastaðan hjá okkur á norsk-íslensku síldinni er ágæt og því er mögulegt að leita að íslensku sumargotssíldinni hér fyrir austan þótt einhver norsk-íslensk síld fáist með. Þá er enn eitthvað af makríl hér eystra. Þetta er stór makríll sem er mjög dreifður. Mér segir svo hugur að þessi makríll verði hér við landið og hrygni því nokkuð er um liðið síðan meginstofninn fór til Noregs þar sem helstu hrygningarstöðvarnar eru,“ sagði Hjörvar Hjálmarsson.

HS-Front-view

HS-Top-view

HS-Side-view