Skip to main content

25 ára ,,byltingarafmæli“ í apríl nk.

Í apríl nk. verða liðin 25 ár frá því að fyrst var farið að nota Gloríuflottrollin frá Hampiðjunni á úthafskarfaveiðunum á Reykjaneshryggnum. Skip Sjólastöðvarinnar í Hafnarfirði voru fyrst til að fá þetta nýja ofurtroll en nafnið varð til í veiðiferð um borð í Haraldi Kristjánssyni HF sem nú heitir Helga María AK. Starfsmenn Hampiðjunnar þróuðu Gloríuna í náinni samvinnu við skipstjóra frystitogaranna og einn af þeim sem átti þar stóran hlut að máli var Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Venusi HF.
Guðmundur, sem var skipstjóri á Venusi þar til að skipinu var lagt um mitt síðasta ár, er lærður netagerðarmeistari og hann áttaði sig fljótlega á því að Gloríuflottrollin voru bylting í gerð togveiðarfæra.
,,Þetta er sennilega mesta bylting sem orðið hefur í togveiðarfæragerð, a.m.k. á síðustu áratugum. 1152 metra Gloríuflottrollin fóru fyrst í sjó vorið 1989 envið á Venusi fengum fyrstu 2048 metra Gloríuna um borð í mai 1991.
Metratalan vísar til ummáls trollopsins í metrum talið. Trollgirnið var þá úr réttsnúnu polyethylene efni og trollið var engin smásmíði miðað við þau troll sem þá voru almennt í notkun. Flestir voru með þýsk Engel troll en til mark um muninn á þeim og nýju Gloríutrollunum má nefna að trollopið á Engel trollunum var svipað að stærð og vítateigurinn á knattspyrnuvelli á meðan opið á Gloríu 2048 var á stærð við þrjá knattspyrnuvelli. Stærstu möskvarnir í Gloríunni voru 64 metrar að lengd í vængendunum og fremst í trollinu, langleiðina aftur að miðju.“

Fengum mokafla en gátum bara notað trollið einu sinni í senn
Að sögn Guðmundar gekk þó ekki vandræðalaust að fá þessi risastóru veiðarfæri til að virka til að byrja með. Togkraftur Venusar var um 31 tonn á meðan stærri og nýrri frystitogararnir voru flestir með togkraft í kringum 45 tonn eða meira. Það var því nauðsynlegt að veiðarfærið væri ekki of stórt og þungt miðað við toggetu.
,,Við byrjuðum að nota Gloríuna á heimamiðum og fengum fantaafla. Vandinn var sá að þegar við tókum trollið um borð þá snerist það upp í einn vöndul á dekkinu og það reyndist ómögulegt að greiða úr því þannig að hægt væri að nota það aftur án þess hreinlega að skera það í sundur. Við urðum því að fara í land og láta greiða úr trollinu á loftinu hjá Hampiðjunni og þegar það var gert þá var farið út að nýju,“ segir Guðmundur en til að gera langa sögu stutta þá þurftu Guðmundur og áhöfn hans að fara með trollið fjórum sinnum í land á skömmum tíma eftir aðeins eitt hol.
,,Það var aðeins skilningur Kristjáns Loftssonar útgerðarmanns sem kom í veg fyrir að þessari tilraun okkar væri hætt. Kristján sýndi okkur ótrúlega þolinmæði og sagði bara, ,,Farið í land og komið trollinu í stand.“ Og það gerðum við. Í samstarfi við Hampiðjuna tókst að finna lausnina á vandamálinu. Hún fólst í því að nota rangsnúið tóg í trollhliðarnar en réttsnúið í topp- og botnstykkið. Eftir þessa breytingu virkaði trollið eins og best varð á kosið,“ segir Guðmundur en að hans sögn báru ferðir í tilraunatankinn í Hirtshals, þar sem smækkuð mynd af trollinu var notuð til að líkja eftir aðstæðum, einnig mikinn árangur.
,,Menn verða að átta sig á því að fyrir aldarfjórðungi höfðum við afskaplega takmarkaða möguleika á því að sjá hvernig trollið hagaði sér í sjó. Þeir mælar, sem til eru í dag, voru ekki komnir fram á sjónarsviðið og við höfðum ekki einu sinni fjarlægðarnema til að sýna lengdina á milli toghleranna. Við vorum með einn höfuðlínunema og það var allt og sumt,“ segir Guðmundur Jónsson.

 

Gloria-B-cropWeb

 

Besta trollið fyrir karfaveiðar
Eiríkur Ragnarsson var fyrsti stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Haraldi Kristjánssyni er farið var að reyna fyrsta Gloríuflottrollið og hann segist hafa orðið vitni af samtali Páls skipstjóra og Guðmundar Gunnarssonar hjá Hampiðjunni þegar nafnið á þessu veiðarfæri varð til. ,,Við erum búnir að gera alls konar gloríur með þetta troll,“ sagði Páll og Guðmundur svaraði að bragði. ,,Gloría skal það heita.“
Eiríkur, sem nú er skipstjóri á sama skipi sem heitir Helga María í dag, segist vera sammála Guðmundi á Venusi um að tilkoma Gloríuflottrollanna hafi verið bylting og það ekki bara í togveiðum íslenskra skipa.
,,Rússarnir höfðu reyndar notað stórmöskva flottroll á úthafskarfaveiðunum þannig að því leyti var ekki verið að finna upp hjólið. Munurinn er hins vegar sá að þeir voru að nota sín troll við veiðar á 100 til 150 faðma dýpi en við fórum fljótlega með Gloríutrollin niður á 300 til 400 faðma dýpi þar sem við vorum að fá djúpkarfa sem var mun verðmætari en úthafskarfinn þar fyrir ofan. Við byrjuðum með 1152 metra Gloríu  og þetta var að sjálfsögðu ákveðið basl til að byrja með. Við náðum þó góðum tökum á þessum veiðarfærum og fljótlega komu fram stærri troll, allt upp í troll með rúmlega 3.000 metra opnun. Í dag held ég að hægt sé að fullyrða að Gloría 2048 sé besta troll sem hægt er að nota á karfaveiðum í dag. Litlar breytingar hafa orðið á þessum trollum hvað varðar veiðar á botnfiski en þróunin hefur verið mun meiri hvað varðar veiðar á uppsjávartegundum. Þantógið í þeim veiðarfærum hefur skipt sköpum hvað varðar veiðihæfnina,“ segir Eiríkur Ragnarsson.