Skip to main content

Hampiðjan gegndi lykilhlutverki þegar verðlaun Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, IceFish 2022, voru afhent í Gerðarsafni í liðinni viku. Verðlaunin eru mikilsverður hluti sjávarútvegssýningarinnar og voru þau nú afhent í áttunda skipti.

Hampiðjan fékk verðlaun fyrir bestu nýjungina á sýningunni, DynIce Optical Data ljósleiðarakapalinn. Þá hlaut Guðmundur Gunnarsson, sem fór nýlega á eftirlaun eftir hálfrar aldar starf hjá Hampiðjunni, æviverðlaun fyrir framúrskarandi árangur í sjávarútvegi, og færeyska fyrirtækið Vónin, sem framleiðir búnað fyrir fiskveiðar og fiskeldi og er hluti af Hampiðjusamstæðunni, fékk verðlaun fyrir að vera besti alhliða birgirinn.


Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, hefur um langt árabil verið hugmyndasmiður ljósleiðarakapalsins, en kapallinn hefur í för með sér gríðarlega framþróun í sjávarútvegi. Hjörtur á að baki langan tækniferil og ótalmargar einkaleyfisvarðar uppfinningar og ljósleiðarakapallinn er verkefni sem hann átti frumkvæði að fyrir rúmlega aldarfjórðungi.

„Mikill tími liggur að baki þessu þróunarstarfi því það er ekki einfalt mál að hanna ljósleiðarakapal sem getur staðist ákaflega krefjandi aðstæður á sjó þar sem kapallinn er undir miklu og breytilegu álagi.  Ljósleiðarakapallinn hefur verið prófaður með góðum árangri en í ljós hefur komið að hefðbundnar höfuðlínukapalsvindur henta ekki fyrir ljósleiðarakapalinn.  Við höfum því hannað nýja gerð af kapalvindum og erum í samstarfi við Naust Marine sem ætlar að fullhanna með okkur og smíða fyrstu vinduna til prófunar á komandi vetri,” sagði Hjörtur þegar hann veitti viðtöku verðlaununum fyrir bestu nýjungina á Íslensku sjávarútvegssýningunni.

Hann bætti við að kapallinn opni ótalmarga nýja möguleika til nýtingar á rafeindatækni neðansjávar; „Búnaðurinn skapar tækifæri til flutnings nær ótakmarkaðs gagnamagns frá myndavélum og öðrum rafeindabúnaði á hraða sem menn hafa ekki þekkt til þessa í sjávarútvegi. Það má líkja þessu við breytinguna frá nettengingu með upphringisambandi til eldingarhraða breiðbandsins þegar gögnin eru send frá sónartækjum og öðrum búnaði í tölvuskjá skipstjórans. Í framtíðinni stefnum við á að hanna búnað sem getur flokkað þann fisk sem kemur inn í trollið og valið bæði ákjósanlega stærð og tegund.  Verkefnið er komið áleiðis og við erum í nánu samstarfi við Stjörnu-Odda og Hafró og frumgerð svokallaðs Fiskvala er tilbúin en þar eru teknar myndir af fiskinum og myndgreining notuð til að ákvarða tegund og stærð.  Það mun þó taka einhver ár að þróa þessa tækni áfram og gera hana þannig úr garði að hægt verði að velja fiskinn sem á að fanga.”   


Fimmtíu ára farsæll starfsferill
Guðmundur Gunnarsson fyrrum þróunarstjóri Hampiðjunnar fékk verðlaun fyrir framúrskarandi ævistarf sitt í sjávarútvegi. Hann starfaði í upphafi langs og farsæls ferils hjá Hampiðjunni sem almennur veiðarfæramaður á netastofu, varð síðan sölustjóri fyrirtækisins og hönnuður veiðibúnaðar. Hann fór nýverið á eftirlaun. Guðmundur verður ávallt þekktur sem „guðfaðir Gloríu” flottrollsins sem hleypt var af stokkunum í lok 9. áratugarins. Gloría var þróuð í samstarfi við hóp skipstjóra til veiða á úthafskarfa suðvestur af Íslandsströndum. Flottrollið naut mikillar velgengni og markaði tímamót í sögu Hampiðjunnar. Hugmyndirnar að baki upphaflegri hönnun Gloríu hafa verið aðlagaðar og betrumbættar allar götur síðan, klæðskerasniðnar að þörfum og kröfum ótal mismunandi útgerða um heim allan.   

„Það er mikill heiður fyrir mig að fá þessa viðurkenningu fyrir ævistarfið úr hendi Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóra Íslensku sjávarútvegssýningarinnar,” segir Guðmundur. „Ég hef varið svo til öllum mínum starfsferli í þágu veiðibúnaðar, þar á meðal fimmtíu árum hjá Hampiðjunni í Reykjavík. Ég uppgötvaði fljótt að sem hluti af framleiðsluteymi Hampiðjunnar gæfist mér tækifæri til að vera skapandi í þróun, prófunum og endurbótum á veiðibúnaði. Það starf fór fram í nánu samstarfi við hóp skipstjóra, skipverja og útgerðarmanna, bæði á Íslandi og vítt og breitt um heiminn.

Það þarf vart að taka fram að hinir frábæru samstarfsmenn mínir hjá Hampiðjunni í öll þessi ár eiga drjúgan og verðskuldaðan skerf í þessari viðurkenningu sem mér er veitt. Mig langar að nota tækifærið til að þakka öllu því fólki fyrir samstarfið og senda þeim bestu kveðjur.”  


Alhliða gæði
Færeyska fyrirtækið Vónin, sem útvegar búnað fyrir fiskveiðar og fiskeldi, fékk verðlaun fyrir að vera besti alhliða birgirinn. Fyrirtækið er í fararbroddi nýsköpunar á mörgum sviðum og spannar starfsemi þess yfir allt Norður-Atlantshafssvæðið.

Vónin hefur á seinustu árum víkkað út starfsemi sína í þróun og framleiðslu toghlera, sem gerir fyrirtækinu kleift að vera alhliða birgir á sviði togveiðarfæra fyrir uppsjávarfisk, hvítfisk og rækju. Storm toghlerarnir og Tornado toghlerarnir frá fyrirtækinu hafa reynst í hópi þeirra bestu á markaðinum í dag, og Twister toghlerinn, sem nýkominn er á markaðinn, er hannaður til að innleiða helstu tækninýjungar í fiskveiðum nútímans.
 
Fiskeldisdeild Vónarinnar veitir laxeldi öfluga þjónustu, sem byggist á þeirri víðtæku reynslu sem fyrirtækið hefur öðlast samhliða þróun laxeldis í Færeyjum á seinustu áratugum. Fyrirtækið býður upp á eldiskvíar, fastsetningarkerfi og fjölmargt fleira sem það selur í Færeyjum og flytur út til annarra markaðssvæða í auknum mæli.
Nýlega efldi Vónin starfsemi sína með því að stofna þjónustufyrirtæki á Isle of Skye, sem hefur miðlæga stöðu í vaxandi fiskeldisiðnaði á vesturströnd Skotlands. Þar hefur búnaður fyrirtækisins staðið sig með eindæmum vel og nýtur mikillar eftirspurnar.