Skip to main content

Ný og glæsileg verslun Hampiðjunnar og Voot var opnuð nú í vikunni. Verslunin er í sama húsi og höfuðstöðvar félagsins að Skarfabakka 4 við Sundahöfn. Verslunarstjórinn, Ólafur Benónýsson, segir að á boðstólum verði allt til útgerðar- og verktakavinnu og að lagt sé upp með að allir sjómenn, útgerðarmenn og verktakar geti komið í verslunina og fundið það sem þá vanhagar um.

,,Við verðum með allar helstu rekstrarvörur og það á ekki að skipta máli hvort viðkomandi er á handfæraveiðum eða á stærri fiskiskipum. Okkar draumur er að endurskapa þá stemningu sem ríkti í Ellingsenversluninni í gamla daga og margir muna eftir. Hér geta viðskiptavinir okkar komið og skoðað úrvalið og fengið það sem þá vanhagar um, sest niður yfir kaffibolla og rætt málin,” segir Ólafur en þess má geta að verslunarrýmið er rúmir 100 fermetrar.

Meðal þess sem sérstök áhersla verður lögð á í versluninni, er sala á mjög fjölbreyttum lyftibúnaði fyrir sjávarútveg, byggingariðnað, verktaka, flutningsaðila og stóriðnað og svo mætti lengi telja. Einnig verður gott úrval af línu -og handfæravörum fyrir smábátasjómenn og margvíslegur sjóvinnufatnaður frá Mar Wear ásamt fjölbreyttu úrvali af hreinsiefnum, hreinlætisvörum, pappírsvörum og margt fleira.

,,Það er mikil samkeppni á þessum markaði en menn eru farnir að þekkja gæðin sem fylgja   sjóvinnufatnaði frá Mar Wear. Þeir þurfa ekki að vera sjómenn til þess. Hingað eiga allir að koma ef þá vantar vandaðan og öruggan sjóvinnufatnað á sanngjörnu verði,” segir Ólafur.


Allt á einum stað
Þorsteinn Finnbogason, markaðsstjóri Voot, segir að fram að þessu hafi Voot verið á heildsölumarkaði en með opnun verslunarinnar sé verið að leggja meiri áherslu á smásölumarkaðinn.

,,Við erum með fimm sölumenn og öll viðskipti hafa að mestu leyti farið í gegnum þá. Einn þeirra er Fannar Geir Ásgeirsson sem staðsettur er á Akureyri og mun hann sjá um markaðs- og sölustarfsemina á norður-og austurlandi í framtíðinni. Starfseminni hefur verið stjórnað frá Skarfabakkanum þar sem Voot hefur aðsetur í Hampiðjuhúsinu. Samstarfið hefur reynst báðum aðilum vel og hefur opnað nýja möguleika fyrir félögin bæði hérlendis sem og erlendis. Með opnun verslunarinnar er samstarfið treyst enn frekar,” segir Þorsteinn.

Í máli Þorsteins kemur fram að Voot veiti alhliða þjónustu, ekki bara við sjávarútveginn heldur allan almennan iðnað.

,,Við erum að framleiða okkar eigin vörur, s.s. fatnað, hreinlætisvörur og margar gerðir af einnota vörum. Við viljum ná betur til einyrkja og smábátasjómanna sem eru hópar sem við horfum sérstaklega til. Okkur hefur vantað verslun til að ná betur til þeirra og gera okkar vörur aðgengilegri fyrir þá. Þessir aðilar eru nú hjartanlega velkomnir til okkar og geta treyst því að fá allar útgerðarvörur, traustan og öruggan vinnufatnað, hágæða hreinlætisvörur og aðrar rekstrarvörur á einum og sama staðnum,” segir Þorsteinn Finnbogason markaðsstjóri Voot.