Guðmundur Gunnarsson, þróunarstjóri veiðarfæra Hampiðjunnar, lét nýlega af störfum hjá fyrirtækinu eftir rúmlega 50 ára farsælt starf á sviði veiðarfæragerðar og þróunar ýmiss konar togveiðarfæra en eflaust er hann þekktastur fyrir að hafa hannað Gloríu flottrollið sem var mikil nýjung á sínum tíma og umbylti flottrollsveiðum Íslendinga. Guðmund er því óþarft að kynna fyrir skipstjórnarmönnum togveiðiskipa enda er hann löngu orðinn nánast þjóðsaga í lifandi lífi. En heyrum betur hvernig Guðmundur lýsir starfsferli sínum.
,,Upphafið má rekja til þess að ég fór á námssamning í netagerð 1. mars 1965 hjá Netagerð Eggerts Theódórssonar í Alliance húsinu í Reykjavík. Sveinsprófi lauk ég síðan1968. Ég hóf svo störf hjá Hampiðjunni 11. maí 1970.“
Guðmundur segir að Hampiðjan hafi þá verið í nokkrum sambyggðum húsum í Stakkholti, hinu elsta frá 1934. Samtals störfuðu þá um 200 manns hjá fyrirtækinu.
Í dag eru höfuðstöðvar Hampiðjunnar við Skarfagarða í Reykjavík og þar eru skrifstofur, veiðarfæraverkstæði og lager. Hampiðjan Ísland var stofnað nýlega til að sjá um heimamarkaðinn sem er um 15% af heildarveltu samstæðu Hampiðjunnar. Starfsemi og sala erlendis stendur því undir 85% af tekjum rekstrarins. Starfsmenn fyrirtækisins hér á landi og hjá dótturfyrirtækjunum, sem eru nú 28 talsins í 15 löndum, eru nú vel yfir 1.100 talsins.
Guðmundur byrjaði sem almennur netagerðarmaður á netastofunni við vélhnýtingu, strekkingu og fixingu á varastykkjum í botntroll. Samhliða því veitti hann skipstjórnarmönnum og netaverkstæðum, sem þá voru fjölmörg á Íslandi, tæknilega veiðarfæraráðgjöf. Hann tók svo við sem sölustjóri Hampiðjunnar 1983 og gengdi því starfi allt til ársins 2001. Þá snéri hann sér alfarið að þróun veiðarfæra og starfaði sem þróunarstjóri þeirra allt til starfsloka á þessu ári.
Guðmundur segir ekki hægt að bera saman stöðuna sem var þegar hann byrjaði 1970 við tímann í dag. Þróunin á öllum sviðum hafi verið ævintýri líkust.
,,Það má taka veiðarfærin sem dæmi. Gamla Granton togaratrollið, sem flest allir togarar notuðu lengi vel, var 55 til 60 metrar í strekktu ummáli. Stærstu trollin í dag eru Gloríu flottrollin sem eru 3.072 metrar að ummáli.
Tímamót hjá Hampiðjunni og í veiðarfæragerð
Þegar Guðmundur er beðinn að rifja upp mikilvæg tímamót frá löngum ferli hefur hann þetta að segja.
,,Skuttogaravæðingin um og upp úr 1970 kemur strax upp í hugann. Einnig kvótalögin frá 1983, úthafsrækjuveiðarnar sem hófust um 1980 og úthafskarfaævintýrið frá árinu1989 og þegar ný kynslóð nóta- og togveiðiskipa byrjaði að koma í kringum 2000.
„Það var nánast enginn trollneta útflutningur þegar ég byrjaði í Hampiðjunni en hann tók að aukast að ráði upp úr 1974-1975. Þá hófst fyrst útflutningur til Færeyja og Danmerkur og síðar til Kanada árið 1977.“
Mikil framför varð þegar gufustrekking trollneta varð að veruleika 1976 því áður var lítil hnútafesta í netinu vandamál því það dróst til og aflagaðist. Þetta gerði net Hampiðjunnar þau bestu sem völ var á á þessum tíma og söluaukingin var mikil árin þar á eftir.
Neðansjávarathuganir okkar á botntrollum í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun og Netagerð Vestfjarða byrjuðu árið 1986. Þær athuganir leiddu til mikilla framfara í botntrollum því þá var hægt að sjá hvernig trollin hegðuðu sér í drætti. Hönnunin varð mun betri og netaslit minnkaði mikið þegar hægt var að jafna átökin á netastykkin og fjarlægja strengi og slaka.
„Með þessu náðum við afar góðum árangri í veiðarfæraþróun. Sem dæmi má nefna að veiðarfæranotkun frá síðutogaratímanum fram til dagsins í dag hefur minnkað um 90% og að sama skapi hefur afkastageta botntrollsins aukist um 60 til 70%, samhliða öflugri togskipum og framförum í siglingatækni, tilkomu veiðarfæranema og annarrar veiðarfæratækni. Þetta hefur skilað miklum ávinningi í umhverfismálum og bættri umgengni um sjávarauðlindina.
Við höfum alltaf haft það að markmiði að auka kjörhæfni veiðarfæranna og eitt stærsta skerfið í því var þegar við þróuðum DynIce kvikklínurnar og T90 netin. Þetta tvennt saman hefur skilað jafnari fiskgæðum og opnunin á möskvanum hleypir út undirmálsfiski til uppvaxtar í framtíðinni.
Gloríu úthafskarfatrollið var hannað og þróað 1989 og Helix þantæknin, DynIce kaðlar og ofurnet varð hluti af þeim nokkrum árum seinna. Með því fékkst fjórfalt stærri veiðiflötur með sama togviðnámi en afkastagetan margfaldaðist, með tilheyrandi orkusparnaði við veiðar. Það gekk nokkuð vel hjá Hampiðjunni að komast inn í uppsjávarveiðar með Gloríu flottrollið og koma því á framfæri víða um heim með góðum árangri.
,,Að eiga þess kost að starfa í Hampiðjunni og fá tækifæri til að kynnast því hvernig efni til veiðarfæra verða til og kynnast tækninni og þekkingunni sem liggur þar að baki var dýrmætt fyrir mig. Ákaflega eftirminnilegt var að fara til útlanda sem ungur maður og kynnast veiðarfæraheiminum um víða veröld. Hjá Hampiðjunni fékk ég tækifæri til að rannsaka, þróa og hanna togveiðarfæri til botn- og flottrollsveiða. Ég fékk líka að taka þátt í því úti á sjó að koma veiðarfærunum í notkun og gera þau að þeim afburðaveiðarfærum sem Hampiðjan framleiðir í dag. Þátttaka í sýningum og ferðir í tilraunatanka hafa alltaf haft mikið að segja í því að efla mann sjálfan og kynnast viðskiptavinum og samstarfsmönnum sem eru margir hverjir mínír bestu vinir í dag.“
Með hve mörgum forstjórum hefur þú starfað á þessum rúmlega 50 árum?
,,Þeir eru sex talsins. Hannes Pálsson var forstjóri þegar ég réð mig til starfa. Síðan tók Magnús Gústafsson við. Hinir eru Gunnar Svavarsson, Hjörleifur Jakobsson, Jón Guðmann Pétursson og Hjörtur Erlendsson, núverandi forstjóri. Allt mjög hæfileikaríkir og færir stjórnendur. Það sést trúlega best á því í hvaða stöðu Hampiðjan er í dag,“ segir Guðmundur Gunnarsson.