Ísfisktogarinn Viðey RE kom til hafnar í Reykjavík sl. miðvikudag með 180 tonna afla eftir fimm daga á veiðum á Vestfjarðamiðum. Þetta var fyrsti eiginlegi túr togarans eftir að þriðju togvindunni var bætt við en það gerir skipverjum kleift að toga með tveimur trollum samtímis. ,,Við vorum áður með Jagger 88,8 LW botntrollið frá Hampiðjunni sem hefur reynst okkur afskaplega vel bæði hvað varðar veiðni og það er lítil sem engin ánetjun né viðhald á því í notkun. Við minnkuðum nýju trollin niður í 61,6 Jagger en þau smellpassa inn í hið nýja tveggja trolla kerfi skipsins og eru tiltölulega létt í drætti miðað við stærra trollið sem við vorum með.”
Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á Viðey, segir að lítil reynsla sé komin á tveggja trolla veiðarnar enda hafi skipið bara farið í nokkurs konar stillingartúr með tæknimönnum á SV-mið fyrir Vestfjarðatúrinn.
,,Trollin hafa reynst vel og heilt yfir finnst mér að þessi breyting lofi svo sannarlega góðu. Það sem ég er ánægðastur með, er að nýja togspilið og grandaravindurnar smellpassa í skipið. Þá er það mikill kostur að nýju vindurnar koma frá Naust Marine eins og vindukerfið sem fyrir var. Það þýðir að ef spurningar vakna þá er auðvelt að fá skjót og góð svör.”
Að sögn Ella er breytingin á Viðey sambærileg við breytinguna sem gerð var á Akurey AK um mitt þetta ár. Hann viti ekki betur en að áhöfnin á Akurey sé mjög ánægð með það hvernig til tókst.
,,Við erum með Thyborøn toghlera, gerð 14. Þeir eru 8 fermetrar að flatarmáli og vega 3,8 tonn hvor fyrir sig. Tæknimenn reiknuðu svo út hve miðlóðið á milli trollanna þyrfti að vera þungt og það er fimm tonn að þyngd. Það mælast að jafnaði um 220 til 250 metrar á milli hlera og lengd grandara er 2 x 46 metrar og við ákveðnar aðstæður bætum við þriðju lengdinni við upp í 138 metra. Höfuðlínuhæðin er fjórir til sex metrar en hún, líkt og bilið milli hlera, ræðst mikið af straumum og hvar er verið að toga,” segir Elli skipstjóri en honum líst vel á Jaggertrollin.