Gerður hefur verið samstarfssamningur á milli Hampiðjunnar og Bláa hersins um hreinsun á rusli í fjörum landsins. Samkvæmt samningnum styrkir Hampiðjan Bláa herinn um 2,4 milljónir króna árlega með mánaðarlegum greiðslum. Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, fagnar samkomulaginu og segir aðkomu Hampiðjunnar tryggja að Blái herinn geti áfram starfað af fullum krafti.
Blái herinn er 25 ára um þessar mundir en áður starfaði Tómas sem kafari um 37 ára skeið.
,,Ég vissi því vel um þá ómynd sem blasti við manni neðansjávar og ég var óþreytandi við að benda mönnum á að fjörur landsins væru að fyllast af ýmiss konar úrgangi, ekki síst plastúrgangi. Eftir að ég hætti að vinna sem kafari blöskraði mér ástandið og hét því að helga líf mitt og krafta baráttunni gegn þessum ófögnuði,” segir Tómas en hann kveður samstarfið við Hampiðjuna hafa hafist á samtölum við Hjört Erlendsson forstjóra sem hafi tekið honum mjög vel.
,,Það varð úr að hópur frá Hampiðjunni fór í hreinsunarferð í Selvoginn, í september í fyrra og tíndi þar upp rúmlega tvö tonn af plasti á til þess að gera skömmum tíma.”
Tómas segist vera mjög ánægður með að hafa fengið Hampiðjuna sem samstarfsaðila. Toyota hefur styrkt verkefnið frá upphafi en Tómas segir enga launung á því að til þess að fullkomna draumateymi Bláa hersins þá þurfi öflugt sjávarútvegsfyrirtæki að bætast í hópinn.
,,Hampiðjan er gríðarlega öflugt fyrirtæki sem er með starfsemi víðs vegar um heiminn. Ég heyri það á forstjóranum að hann er áhugasamur um að sú fyrirmynd, sem við höfum byggt upp hér heima, verði að einhverju leyti flutt utan til annarra starfsstöðva Hampiðjunnar. Því fagna ég þótt við verðum fyrst og síðast að tryggja að strandlengja Íslands verði sú hreinasta og plastminnsta sem fyrirfinnst á byggðu bóli.”
Reykjanes hefur fram að þessu verið helsta skotmark Bláa hersins og Tómas segir að fyrir því séu ýmsar ástæður.
,,Ég er úr Keflavík, bý í Sandgerði og strendurnar hér voru lengst af þaktar rusli. Það var því ærið verkefni að berjast við þessa ómynd hér á heimaslóðum. Við höfum þó farið víðar og Borgarfjörðurinn, Snæfellsnes og Eyjafjörðurinn koma upp í hugann. Mér finnst að það hafi orðið ákveðin hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu og hún hefur sem betur fer náð til sjómanna og útgerðarmanna. Ég vakta reglulega tíu fjörur hér á nesinu og í seinni tíð hef ég orðið var við miklu minna drasl en áður. Það er eins og að fólk, sem gengur fram á plastbrúsa eða annað rusl, taki það með sér. Þetta vekur mér von um betri tíma og unga kynslóðin, ekki síst börnin, sem vita að hafið tekur ekki endalaust við,” segir Tómas J. Knútsson.
Næsta stóra hreinsunarátak Bláa hersins er í undirbúningi. Tómasi þykir ekki ólíklegt að það muni tengjast Degi hafsins en hafa verði samráð við Almannavarnir og sóttvarnalækni um nánari útfærslu.