,,Viðhaldslítið alhliða troll, sem er létt í drætti og tekur vel fisk,“ er það fyrsta sem Víði Jónssyni, skipstjóra á frystitogaranum Kleifabergi RE, kemur í hug þegar hann er beðinn að lýsa T90 Hemmertrollinu frá Hermanni H. Guðmundssyni, netagerðarmeistara og rekstrarstjóra Hampiðjunnar á Akureyri og hans mönnum.
Yfirburða árangur
Kleifaberg er einn elsti frystitogari landsins og er árangurinn sem Víðir og áhöfnin á Kleifabergi hafa náð, eftirtektarverður í meira lagi. Áttunda árið í röð stefnir í að ársaflinn verði á milli 10.000 og 12.000 tonn.
Í fljótu bragði væri hægt að ætla að árangurinn lægi í rúmum aflaheimildum og ríflegum þorskkvóta, en Víðir segir svo ekki vera.
,,Okkar aðaltegund er ufsi á heimamiðum. Við höfum litlar þorskheimildir á Íslandsmiðum en veiðum talsverðan þorsk í Barentshafi.
Hemmerinn um borð 2008
T90 Hemmertrollið kom fyrst um borð í Kleifabergið árið 2008.
,,Þetta er 480 möskva troll sem smellpassar okkur og togkraftinum í skipinu. Þar sem þetta er þvernetstroll þá man ég að strákarnir á dekkinu voru ekki sáttir til að byrja með. Þeim fannst allt snúa öfugt og það er ekki skrýtið þegar haft er í huga að möskvarnir snúa í 90° stefnu við það sem menn voru vanir. Menn voru í töluverðan tíma að venjast þessu en áhöfnin er fyrir löngu hætt að kvarta. Viðhaldið er sannast sagna mjög lítið og netavinna á dekki vegna þessa trolls er sama og engin.“
Notum Hemmerinn á allar fisktegundir
Víðir segist vera með tvö troll undirslegin eins og almennt tíðkast en auk Hemmertrollsins notar hann Bacalao 612 troll.
,,Við notum Hemmerinn á allar fisktegundir og trollið situr vel í botni. Það hefur reynst okkur mjög vel á karfaveiðum, ekki síst á karfa á djúpslóð. Það er mun léttara í drætti en Bacalaotrollið og viðhaldið er, sem fyrr segir, nánast ekki neitt.“
Það kemur fram í spjallinu við Víði að hann og áhöfnin hafi prófað sig áfram og ef eitthvað virki vel þá sé engin þörf á að breyta því.
15 ára notkun á Thyborön hlerum
,,Við er búnir að vera með sams konar toghlera í hálfan annan áratug. Þetta eru Thyborön hlerar og mig minnir að hvor um sig sé 3.700 kíló. Aðalatriðið er að við erum búnir að finna það sem virkar fyrir okkur og ég panta bara sömu gerð og síðast ef það þarf að skipta um hlera. Trollin og hlerarnir virðast passa saman og það dugar okkur,“ segir Víðir en hann segist líka vera fastheldinn á grandaralengdina.
Stuttir grandarar og þungir rokkhopperar
,,Við erum sennilega með stystu grandarana í togaraflotanum. 60 faðmar (110 metrar) hafa reynst okkur vel og það er sama á hvaða dýpi er togað. Grandaralengdin er sú sama.
Líkt og aðrir skipstjórnarmenn, sem toga við misjafnar aðstæðum og á mismunandi botni, er Víðir með svokallaða ,,Rockhoppera“ neðan á trollinu.
,,Við erum með þungt undir trollunum og mín reynsla er sú að því þyngri sem ,,Rockhopperarnir“ eru, því betur virka þeir,“ segir Víðir.
T90 þvernetspokinn lofar góðu
En hvað með aðrar nýjungar í veiðarfæratækni,? Hafa þær ratað um borð í Kleifabergið?
,,Við erum að nota 155 mm T90 þvernetspokann með DynIce kvikklínunum frá Hampiðjunni og hann lofar mjög góðu. Við höfum notað þennan poka á ýsuveiðum á grunnslóð hér heima. Niðurstaðan varð sú að við losnuðum við alla smærri ýsuna og fengum bara ýsu sem hentaði vel til vinnslu. Við höfum eins verið með þennan 155 mm poka á þorskveiðum í Barentshafi. Árangurinn þar er einnig mjög góður. Smærri fiskurinn skilst frá og eftir stendur stór og góður fiskur.“
Misstór höl
Víðir segir það misjafnt hve stór höl séu tekin en allt miðist við vinnslugetuna um borð.
,,Við getum unnið um 50 tonn af karfa upp úr sjó á sólarhring en vinnslugetan er eitthvað meiri í ufsa. Það er því lagi að fá stöku sinnum stór ufsahöl en þó ekki meira en svo að áhöfnin hafi undan ì fiskvinnslunni við aflann,“ segir Víðir Jónsson.