,,Við erum mjög hrifnir af þessum nýju toghlerum og eftir að hafa prófað þá vorum við skipstjórarnir sammála um að við yrðum að halda þeim. Eftir að hafa rætt við útgerðarmennina var ákveðið að kaupa hlerana og þeir fara því ekki annað.“
Þetta segir Valur Pétursson sem er skipstjóri á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK á móti Sigurði Jónssyni.
Toghlerarnir, sem Valur ræðir um, eru af gerðinni Thyborøn – Type 23, en það er ný gerð toghlera fyrir botntrollsskip sem byggir á svokallaðri Bluestream tækni sem hefur verið notuð við hönnun flottrollshlera. Hönnunin hefur nú verið yfirfærð á botntrollshlera, eða „semipelagic“ hlera, sem eru dregnir aðeins ofan við botninn og þurfa því að vera öflugri en hefðbundnir botntrollshlerar, þar sem þeir hafa ekki botnsnertinguna til að hjálpa til við að skvera trollið. Þessir nýju hlerar eru jafnframt mikið léttari í drætti og munar þar töluvert miklu.
Toghlerarnir, sem Þorbjörn hf. keypti, voru fyrst reyndir um borð í Kaldbaki EA sl. haust með frábærum árangri og þaðan fóru þeir til reynslu um borð í Björgvin EA og Drangey SK áður en röðin kom að Hrafni Sveinbjarnarsyni.
Skvera mjög vel
Valur segir að áður en nýju hlerarnir komu til sögunnar hafi verið notaðir Thyborøn – Type 22 flottrollshlerar með lóðum til að þyngja þá.
,,Þessir hlerar virkuðu mjög vel á veiðum en til þess að svo væri þá þurftum við að hengja 1.600 kílóa lóð í hvorn hlera. Lóðin drógust í botni og hlerarnir skveruðu vel. Því er þó ekki að leyna að það gat verið erfitt í brælum að eiga við lóðin. Við erum lausir við þetta basl með nýju hlerunum. Það er auðvelt að koma trolli og hlerum út og hlerarnir eru mjög fljótir að virka. Það er gott að snúa skipinu án þess að hlerarnir hætti að virka og þeir skvera mjög vel. Til marks um bilið milli hlera er það fimm faðmar umfram grandaralengdina og við erum mjög ánægðir með það. Hlerarnir eru minni að flatarmáli en hefðbundnir hlerar og því léttari í drætti. Þetta á ekki síst við um þegar verið er að snúa.“
Miklu minna af togvír úti
Að sögn Vals henta Type 23 hlerarnir botntrollunum, sem notuð eru um borð, mjög vel.
,,Trollin, sem við notum, eru 112 m Hátoppur eða svokallaður Grindjáni, sem Hörður Jónsson hjá Veiðarfæraþjónustunni í Grindavík útfærði fyrir okkur, og svo 89 m Baccalao-troll, og bæði gerðirnar með Advant neti frá Hampiðjunni. Þótt ekki sé komin mikil reynsla á þessa nýju hlera hér um borð þá lofa þeir svo sannarlega góðu. Við höfum verið að veiðum í ákaflega slæmu veðri undanfarnar vikur en það er alltaf jafn létt að koma veiðarfærunum í sjó. Við erum fljótir að kasta og einnig að hífa en það helgast af því hve hlerarnir taka fljótt við sér og byrja að skvera. Þetta sjáum við greinilega á víralengdinni. Við vorum oft úti með um 300 faðma af togvír á 100 faðma botndýpi en núna eru þetta 190 til 240 faðmar af vír eftir straumlagi,“ segir Valur Pétursson enn hann segir aflabrögð hafa verið mjög góð þrátt fyrir leiðinlegt tíðarfar. Það sé sérstaklega ánægjulegt að ýsustofninn virðist vera á góðri uppleið og ýsu sé víða að finna.