Merkilegur áfangi var í sögu Fjarðanets í gær en þá var fyrsta skóflustungan tekin að nýju netaverkstæði fyrirtækisins í Neskaupstað.
Það voru þeir Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets, Steindór Björnsson og Jón Bjarnason, sem eru fyrrum verkstjórar hjá Fjarðaneti og Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupstað, sem tóku fyrstu skóflustunguna. Báðir hafa þeir Steindór og Jón starfað um áratugaskeið hjá þessum fyrirtækjum en Jón lét af störfum fyrir nokkrum árum síðan.
Nýja netaverkstæðið verður 2.522 fermetrar að stærð með skrifstofum og starfsmannaaðstöðu. Það verður 85 metra langt og 26 metra breitt og mun það rýma netaverkstæði, gúmmíbátaþjónustu og nóta- og veiðarfærageymslu fyrir alls 26 nætur. Nýja húsið verður byggt á nýrri uppfyllingu austan við loðnubræðslu Síldarvinnslunnar. Framkvæmdir eru að hefjast á vegum Nestaks ehf í Neskaupstað og stefnt er að því að verkinu verði lokið 1. mars á næsta ári.
,,Tilkoma nýja verkstæðisins mun þýða algjöra byltingu í starfsemi Fjarðanets og þjónustumöguleikum fyrirtækisins og Hampiðjunnar á Austurlandi. Verkstæðið mun einnig þýða breytta og mun betri vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn,“ segir Jón Einar. Hann bendir á að skip og veiðarfæri hafi stækkað mikið á síðustu árum og við því þurfi að bregðast með stærra húsnæði og öflugari þjónustu
,,Ein stór breyting verður sú að við munum geta geymt allar nætur og önnur veiðarfæri innanhúss í stað þess að nú eru næturnar geymdar úti. Þegar nýbyggingin verður tekin í notkun þá getum við boðið viðskiptavinum okkar upp á bestu fáanlegu þjónustu,“ segir Jón Einar en hann vekur jafnframt athygli á hagræðinu sem felst í því að hafa alla starfsemina á einni hæð.
,,Gamla verkstæðið var byggt á árunum 1964 og 1965. Það þótti stórt á sínum tíma en það er orðið of lítið miðað við kröfur dagsins í dag. Núna verður öll vinnan á einu gólfi í stað þess að í gamla verkstæðinu fer hún fram á þremur hæðum,“ segir Jón Einar Marteinsson.
Fjarðanet starfrækir alhliða veiðarfæraþjónustu í Neskaupstað, á Ísafirði og Akureyri. Í Neskaupstað og á Ísafirði rekur Fjarðanet skoðunarstöðvar fyrir gúmmíbjörgunarbáta og á Reyðarfirði rekur Fjarðanet þvottastöð fyrir fiskeldispoka.
Fjarðanet er dótturfyrirtæki Hampiðjunnar og til viðbótar við þessi þrjú netaverkstæði starfrækir Hampiðjan tvö netaverkstæði til viðbótar undir eigin nafni í Vestmannaeyjum og Reykjavík.