Skip to main content
Financial

Hampiðjan hf. – Kaup á 73,381% eignarhlut í Von P/f

By 15/03/2016No Comments

Hampiðjan hefur gengið frá kaupum á 73,381% eignarhlut í færeyska fyrirtækinu P/f Von. Seljandi er félagið Sp/f Kerið í Klaksvík í Færeyjum.  Hampiðjan hefur að auki gert tilboð í 21% hlut til viðbótar. 

Von er móðurfélag þriggja meginfélaga;  P/f Vónin í Færeyjum, Vonin Refa A/S í Noregi og UAB Vonin Lithuania. 

Vónin  hefur um árabil stundað framleiðslu og þróun á veiðarfærum og fiskeldisbúnaði fyrir færeyska markaðinn og starfrækir fjórar starfsstöðvar í Færeyjum; Þórshöfn, Norðskála, Fuglafirði og Klaksvík.  Þá á Vónin þrjú dótturfyrirtæki sem starfa við veiðarfæragerð á Grænlandi, Nýfundnalandi og Danmörku ásamt lítilli söluskrifstofu á Íslandi. Vónin á grænlenska fyrirtækið Qualut Vónin sem rekur síðan fjögur netaverkstæði á Grænlandi; í Nuuk, Sisimiut, Aasiaat og Ilulissat. Þá á Vónin Kanadíska fyrirtækið, Vónin Canada, sem starfrækir netaverkstæði í Port-de-Grave á Nýfundnalandi. Í Danmörku er Vónin Strandby sem rekur tvö netaverkstæði, annað í Skagen og hitt í Strandby. 

Vonin Refa er norskt félag sem rekur fjórar starfsstöðvar í Tromsö, Finnsnes, Svolvær og Alta.  Meginframleiðsla Vonin Refa er tengd fiskeldi en veiðarfæraframleiðsla er einnig töluverður hluti af starfseminni.

Vonin Lithuania er tiltölulega nýstofnað félag í Litháen, en þar fer fram framleiðsla á fiskeldiskvíum og trollhlutum fyrir hin fyrirtækin í samstæðunni.

Starfsstöðvar Von eru því alls 17 við N-Atlantshaf og starfsmenn eru samtals 305.

Velta Von samstæðunnar á síðasta ári var 59,3 milljónir evra, EBITDA 6,9 milljónir evra. Hagnaður eftir skatta var 3,1 milljónir evra. Í íslenskum krónum er veltan 8.691 milljónir, EBITDA 1.013 milljónir og hagnaður 454 milljónir. Heildareignir Von samstæðunnar voru 55,7 milljónir evra og voru skuldir samstæðunnar 30,7 milljónir evra. Í íslenskum krónum eru heildareignir samstæðunnar 7.898 milljónir og skuldir samstæðunnar 4.374 milljónir.

Til samanburðar má nefna að velta Hampiðjusamstæðunnar á síðasta ári var einnig um 59 milljónir evra þannig að félögin eru jafn stór veltulega séð og munu þessi kaup því væntanlega tvöfalda veltu Hampiðjunnar.

Eftir kaupin mun Hampiðjan vera með starfsemi í 12 löndum og starfsstöðvarnar verða alls 35 talsins. Fyrir utan að styrkja þjónustunet Hampiðjunnar umtalsvert þá bætist við úrval af veiðarfærum og ekki síst mikil þekking og reynsla í gerð fiskeldiskvía sem henta erfiðum aðstæðum á norðurslóðum. Fram að þessu hefur Hampiðjan lítið sinnt fiskeldi enda hefur heimamarkaðurinn fyrir slíkan búnað verið takmarkaður fram að þessu.

Fyrirsjánleg samlegðaráhrif eru mikil og töluverðir hagræðingarmöguleikar eru til staðar ásamt stuðningi samstæðufélaganna við starfsemi hvers annars.

Fyrirvari eru gerður varðandi samþykki samkeppnisyfirvalda vegna kaupanna. Auk þess mun kaupandi framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu og dótturfélögum þess. Stefnt er að endanlegum frágangi og uppgjöri í síðasta lagi þann 22. apríl næstkomandi. Fram að þeim tíma mun félagið leitast við að ná samningum um kaup á eftirstandandi hlutum. Í kjölfarið verður upplýst um endanlegt kaupverð hlutanna.

Nánari upplýsingar veitir:
Hjörtur Erlendsson,
forstjóri Hampiðjunnar,
sími 664 3361