Sölutekjur voru kr. 7,6 milljarðar og jukust um 6% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður (EBIT), án söluhagnaðar eigna, var kr. 1 milljarður og jókst um 18% frá fyrra ári.
Lykilstærðir (fjárhæðir í evrum og samanburðartölur fyrra árs í sviga):
Rekstrartekjur jukust um 6% og voru 45,2 milljónir (42,4 milljónir).
EBITDA af reglulegri starfsemi, var 7,8 milljónir (6,9 milljónir).
Hlutdeild í hagnaði HB Granda var 1,4 milljónir (3,5 milljónir).
Hagnaður ársins var 5,5 milljónir (7,3 milljónir).
Heildareignir voru 81,6 milljónir (79,5 milljónir).
Vaxtaberandi skuldir voru 24,5 milljónir (25,7 milljónir).
Eiginfjárhlutfall var 60% (58%).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 45,2 milljónir og jukust um 6% frá árinu áður. Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 13,5% af rekstrartekjum eða 6,1 milljón en var 12,2% í fyrra eða 5,2 milljónir. Fjármunatekjur ásamt hlutdeild í hagnaði HB Granda að frádregnum fjármagnsgjöldum voru 0,4 milljónir til tekna en voru 1,9 milljónir til tekna á fyrra ári. Hagnaður ársins var 5,5 milljónir en var 7,3 milljónir árið 2011.
Efnahagur
Heildareignir voru 81,6 milljónir í árslok. Eigið fé nam 48,7 milljónum, en af þeirri upphæð eru 5,6 milljónir hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaganna Swan Net Gundry á Írlandi og Fjarðaneta á Íslandi. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 60% af heildareignum samstæðunnar. Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 24,5 milljónum og lækkuðu um 1,2 milljónir frá ársbyrjun.
Jón Guðmann Pétursson, forstjóri:
„Síðasta ár var þriðja árið í röð sem samstæðan nýtur söluaukningar vegna innri vaxtar. Rekstrarhagnaður félagsins hefur á þeim árum tvöfaldast, vaxtaberandi skuldir lækkað um tæplega þriðjung og hlutfall eiginfjár af eignum hækkað úr 48 í 60%.
Afkoma móðurfélagsins, að meðtöldu dótturfélaginu í Litháen var betri á síðasta ári en árið áður en afkoma annarra dótturfélaga var svipuð og á fyrra ári. Almennt var góð eftirspurn eftir veiðarfærum hjá samstæðunni á árinu. Góð söluaukning var á ofurköðlum til olíuleitarskipa og annarra verkefna, mest tengd olíuiðnaði. Hampiðjan er eitt af fáum leiðandi fyrirtækjum í heiminum í þróun ofurkaðla og er í færum til að ná árangri á mörkuðum sem krefjast tæknilegra lausna úr ofurefnum.
Hlutdeild í hagnaði HB Granda minnkaði verulega frá árinu áður vegna raunvirðisrýrnunar hjá því félagi tilkomin vegna hækkunar auðlindagjalds.“