Hampiðjan – Ársreikningur 2018
Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
- Rekstrartekjur voru 152,9 m€ (126,9m€).
- EBITDA af reglulegri starfsemi var 20,5 m€ (16,5 m€).
- Hagnaður tímabilsins nam 11,6 m€ (24,8 m€.)
- Heildareignir voru 213,4 m€ (186,9 m€ í lok 2017).
- Vaxtaberandi skuldir voru 73,9 m€ (64 m€ í lok 2017).
- Eiginfjárhlutfall var 51,5% (54,7% í lok 2017).
- Meðalfjöldi starfsmanna á árinu var 1.099 en var 967 árið þar á undan.
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 152,9 m€ og jukust um 21% frá fyrra ári.
Kaup félagsins á dótturfélögunum North Atlantic Marines Supply and Services (NAMSS) og Tor-Net LP juku veltu samstæðunnar um 5,2 m€.
EBITDA félagsins hækkaði um 24,5% á milli ára eða úr 16,5 m€ á árinu 2017 í 20,5 m€ á árinu 2018.
Á árinu 2017 nam innleystur söluhagnaður fjárfestingaeigna og hlutabréfa 16 m€. Var þar um að ræða söluhagnað hlutabréfa í HB Granda að fjárhæð 14,9 m€ og söluhagnaður af hlutabréfum í Thyborøn Skibssmedie A/S að fjárhæð 1,2 m€. Félagið fékk einnig á fyrri hluta ársins 2017 arð af hlutum þess í HB Granda að fjárhæð 0,6 m€. Á árinu 2018 var engin sala á hlutabréfum í eigu félagsins og þar sem hlutabréfaeignin í HB Granda var seld á árinu 2017 var ekki um að ræða neinar arðstekjur frá HB Granda.
Hagnaður ársins var 11,6 m€ en var 24,8 m€ á árinu 2017 og skýrist lækkunin af söluhagnaði fjárfestingaeigna og hlutabréfa að fjárhæð 16,1 m€ og arðgreiðslu að fjárhæð 0,6 m€ frá HB Granda á árinu 2017. Sé leiðrétt fyrir þessum liðum nam hagnaður ársins 2017 um 8,1 m€. Hagnaður af reglulegri starfsemi samstæðunnar er því að aukast um rúm 43% á milli ára.
Efnahagur
Heildareignir voru 213,4 m€ og hafa hækkað úr 186,9 m€ frá árslokum 2017.
Eigið fé nam 110 m€, en af þeirri upphæð eru 11 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 52% af heildareignum samstæðunnar samanborið við 55% í árslok 2017.
Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 73,9 m€ samanborið við 64,0 m€ í ársbyrjun.
Helstu tölur í íslenskum krónum
Miðað við meðalgengi krónunnar gagnvart evru á árinu 2018 þá er velta samstæðunnar um 19,5 milljarðar, EBITDA 2,6 milljarðar og hagnaður 1,5 milljarðar. Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2018 þá eru heildareignir 28,4 milljarðar, skuldir 13,8 milljarðar og eigið fé 14,7 milljarðar.
Aðalfundur
Aðalfundur Hampiðjunnar verður haldinn föstudaginn 5. apríl 2019 í fundarsal félagsins að Skarfagörðum 4 í Reykjavík og hefst fundurinn klukkan 16:00.
Tillaga stjórnar um arðgreiðslu
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2019 vegna rekstrarársins 2018 verði greidd 1 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 490 milljónir ISK. Arðurinn verði greiddur í viku 23. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 5. apríl 2019, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 9. apríl. Arðleysisdagurinn er 8. apríl.
Samþykkt ársreiknings
Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Hampiðjunnar hf. þann 21. mars 2019. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.
Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
“Síðastliðið ár var sérstaklega gott ár fyrir samstæðu Hampiðjunnar og söluaukningin frá árinu á undan, sem einnig var afar gott ár, var 21%. Aukningin er bæði tilkomin vegna innri og ytri vaxtar og þannig skiluðu kaup á fyrirtækjum um 41% söluaukningarinnar en 59% má rekja til innri vaxtar bæði hér á Íslandi og erlendis.
Efnahagsreikningurinn stækkaði um 14% milli ára vegna kaupa á fyrirtækjum og fjárfestingum í framleiðslutækjum. Þrátt fyrir kaup á fyrirtækjum þá náðist að auka veltuhraða birgða milli ára.
Eins og stefnt hefur verið að þá jókst EBITDA milli ára vegna samlegðar í kjölfar kaupa á fyrirtækjum. Það er enn umtalsverða samlegð að sækja innan samstæðunnar og þeir möguleikar verða markvisst nýttir í ár og á næstu árum.
Starfsmannafjöldi Hampiðjunnar jókst umtalsvert á liðnu ári og meðalfjöldi starfsmanna fór úr 967 í 1.099 starfsmenn. Þar af eru 82 starfandi á Íslandi.
Á Íslandi var gengið frá kaupum á eign minnhluta í dótturfélaginu Fjarðaneti og á Hampiðjan því félagið nú að fullu. Í byrjun þessa árs var starfsemi veiðarfæradeildar Hampiðjunnar flutt til Fjarðaneta og nafni félagsins samhliða því breytt í Hampiðjan Ísland. Nýtt netaverkstæði á Neskaupstað hefur verið í byggingu frá síðastliðnu sumri og verður það væntanlega fullbúið nú í sumar. Mikill vélbúnaður verður á verkstæðinu til að auðvelda meðferð veiðarfæra, létta störfin, hraða vinnunni og auka framleiðni.
Erlendis var gengið frá kaupum á tveim fyrirtækjum í veiðarfæragerð. Annað þeirra er North Atlantic Marine Supply and Services (NAMSS) á Nýfundnalandi í Kanada. Um áramótin var NAMSS síðan sameinað Hampiðjunni Canada og eru netaverkstæði Hampiðjunnar þar nú orðin 5 talsins. Hitt fyrirtækið er spænska netaverkstæðið Tor-Net LP í Las Palmas á Kanaríeyjum en það sinnir bæði heimamarkaðnum og uppsjávarskipum á vesturströnd Afríku.
Fyrir utan þessi kaup hefur verið stofnað fyrirtæki á Hjaltlandseyjum, SNG Aqua, til að sinna þjónustu við fiskeldi sem aðallega felst í þvotti á fiskeldiskvíum og viðhaldi þeirra. Fiskeldisþjónusta er mikilvægur og vaxandi þáttur í starfsemi samstæðu Hampiðjunnar.
Í Danmörku var opnað netaverkstæði í Hanstholm undir merkjum Cosmos Trawl sem er dótturfélag Hampiðjunnar og eru netaverkstæðin á Jótlandi því orðin fimm talsins.
Undanfarin tvö ár hefur verið fjárfest myndarlega í auknum vélakosti í Hampidjan Baltic í Litháen en það er stærsta framleiðslueining Hampiðjunnar og þar eru framleidd net og kaðlar fyrir starfsemi samstæðunnar. Á þessu ári lýkur því átaki og verður verksmiðjan afar vel í stakk búin til að sinna þörfum samstæðunnar fyrir efni í veiðarfæri, fiskeldiskvíar, djúpsjávarverkefni og þungalyftur.
Fyrirtækjakaupin samhliða stofnun nýrra starfsstöðva ásamt markvissum vélafjárfestingum undanfarið hafa enn frekar styrkt stöðu Hampiðjunnar sem leiðandi veiðarfæraframleiðanda á heimsvísu.”
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.
Viðurkenndur ráðgjafi
Viðurkenndur ráðgjafi Hampiðjunnar á Nasdaq First North er PwC.