Lykilstærðir
Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.
Rekstrartekjur voru 165,2 m€ (166,2 m€).
EBITDA af reglulegri starfsemi var 20,1 m€ (21,3 m€).
Hagnaður tímabilsins nam 8,2 m€ (7,9 m€.)
Heildareignir voru 499,3 m€ (490,0 m€ í lok 2023).
Vaxtaberandi skuldir voru 171,5 m€ (168,0 m€ í lok 2023).
Handbært fé var 48,8 m€ (53,0 m€ í lok 2023).
Eiginfjárhlutfall var 54,0% (55,2% í lok 2023).
Rekstur
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 165,2 m€ og lækkuðu um 0,6% frá fyrstu sex mánuðum fyrra árs.
EBITDA félagsins lækkaði um 5,8% á milli tímabila eða úr 21,3 m€ á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 í 20,1 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Hagnaður tímabilsins var 8,2 m€ en var 7,9 m€ fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2023.
Efnahagur
Heildareignir voru 499,3 m€ og hafa hækkað úr 490,0 m€ í árslok 2023.
Eigið fé nam 269,6 m€, en af þeirri upphæð eru 12,6 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.
Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 54,0% af heildareignum samstæðunnar en var 55,2% í árslok 2023.
Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímbils 171,5 m€ samanborið við 168,0 m€ í ársbyrjun.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.
Í dag verður haldinn fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi
Hjörtur Erlendsson, forstjóri:
„Eftir ágætan fyrsta ársfjórðung kom fram sölutregða á öðrum ársfjórðungi í mörgum löndum sem við störfum í við N-Atlantshaf og það var einungis á Íslandi og í Skotlandi sem sala jókst að einhverju marki á þessum fjórðungi. Annar ársfjórðungur ársins varð því undir væntingum og salan um 6,2% lægri miðað við sama ársfjórðung síðasta árs og EBITDA ársfjórðungsins var 13,6% miðað við 14,3% á sama tímabili í fyrra.
Ef litið er á fyrri hluta ársins þá er salan 0,6% lægri og EBITDA hlutfallið 12,2% á móti 12,8% á sama tímabili i fyrra.
Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var rúmlega 5,4 m€ samanborið við 5,7 m€ á sama tímabili í fyrra og hagnaður fyrri hluta ársins er nú tæpar 8,2 m€ á móti tæpum 7,9 m€ í fyrra. Hagnaðaraukningin skýrist aðallega af lægri fjármagnskostnaði og lægri afskriftum á þessu tímabili en í fyrra.
Erfitt er að benda á eina ákveðna ástæðu þeirrar sölutregðu sem gildir fyrir N-Atlantshafið aðra en þá að kostnaður er almennt hækkandi og vaxtabyrði fyrirtækja þyngri. Hinsvegar eru aðrar ástæður samdráttar skýrari hjá fyrirtækjum okkar í Færeyjum og Noregi.
Í Færeyjum varð verkfall sem lamaði alveg starfsemi Vonin í fullar fjórar vikur, frá miðjum maí til miðs júní. Það hafði töluverð áhrif á rekstur fyrirtækisins og afhendingar á vörum og veiðarfærum, bæði í Færeyjum og Grænlandi, ásamt því að viðgerðir og viðhald á veiðarfærum lá niðri þessar vikur. Búist er við að um þriðjungur af veltunni, sem annars hefði verið meðan á verkfallinu stóð, hafi tapast en að aðrar sölur hafi frestast og muni skila sér fram á haustið.
Í Noregi lagði norska hafrannsóknarstofnunin til að þorskkvótinn í Barentshafi fyrir 2025 yrði minnkaður um 31% í kjölfar 20% minnkunar sem var í ár. Ákvörðun stjórnvalda um kvótaskerðingu næsta árs verður væntanlega tekin í desember en greinilegt er að þessar tillögur fiskifræðinga eru farnar að hafa áhrif á innkaup útgerðarfyrirtækja á veiðarfærum og viðhaldi þeirra eftir góðan fyrsta ársfjórðung. Þeir árgangar sem koma inn í veiðina 2026 og árin þar á eftir í Barentshafi virðast hinsvegar vera sterkari og vonir standa til að ekki þurfi að skera áfram niður á næstu árum en frekar bæta við.
Í fiskeldisþjónustunni, sem er skilgreind sem hreinsun og viðgerðir á fiskeldiskvíum, í Noregi og á Spáni var staðan álíka og undanfarin ár en hinsvegar hefur sala á nýjum fiskeldisnetum verið treg og það sama á við um sölu á flothringjum fyrir fiskeldiskvíar. Á fyrri helmingi síðasta árs var unnið að umfangsmikilli framleiðslu og uppsetningu á fiskeldiskvíum við strendur Marokkó en viðlíka verkefni er ekki í gangi núna og því er samanburðurinn árinu í ár óhagstæður.
Á vegum dótturfélagsins Vonin er áfram unnið að uppbyggingu á fullkominni þjónustumiðstöð fyrir fiskeldi á eyjunni Skye í Skotlandi sem kemur til viðbótar við þjónustustöð okkar á eynni Hebridges sem er vestur af Skotlandi. Einnig hefur verið lokið við byggingu á aðstöðu fyrir þurrkun og íburð í fiskeldiskvíar í Færeyjum. Sú aðstaða ætti að geta fullnægt þörf á slíkri þjónustu í Færeyjum og er stöðin nú þegar komin í notkun.
Í Danmörku er verið að leggja lokahönd á byggingu á glæsilegu nýju 4.800 m² netaverkstæði í Skagen sem er ein stærsta uppsjávarhöfn í Evrópu. Starfsemi er þegar hafin á nýja netaverkstæðinu en það verður formlega opnað núna í fyrstu viku september.
Nú í byrjun ágúst var gengið frá kaupum á fyrirtækinu Fiizk Protection AS en það fyrirtæki framleiðir og selur lúsapils fyrir fiskeldiskvíar og hefur um 80% markaðshlutdeild í Noregi. Lúsapils er tjald sem er sett utanum fiskeldiskvíar og það varnar því að lúsalirfur berist inn í fiskeldiskvíarnar og setjist á laxinn og ver einnig þær fyrir eitruðum þörungum og marglyttum. Velta fyrirtækisins var um 8,4 m€ í fyrra og EBITDA um 1,6 m€. Reksturinn verður tekinn yfir frá og með byrjun september þegar kaupin eru að fullu gengin í gegn. Með kaupum á þessu fyrirtæki vinnst tvennt, lúsapils bætast við vöruframboð þeirra fyrirtækja sem sinna fiskeldinu og markaðsvæði Fiizk Protection stækkar í samræmi við það.
Nú um mánaðarmótin verður Voot, sem er dótturfyrirtæki Hampiðjunnar og í 68% eigu okkar, skipt upp í sölu á beitu fyrir línuveiðar og rekstrarvörur. Rekstrarvöruhlutinn færist til Hampiðjan Ísland og leggst þar við rekstrarvörudeildina sem er þar fyrir.
Einnig er fyrirhugað að sameina rekstur Morenot Ísland við Hampiðjan Ísland frá og með byrjun október og hlýst af þessum tveim breytingum töluverð hagræðing hér á Íslandi.
Áfram er unnið að endurskipulagningu á starfsemi Mørenot félaganna í Noregi og dótturfyrirtækja þeirra. Mikið hefur verið gert nú þegar til að einfalda reksturinn og hagræða en engu síður er mikið verk eftir óunnið og það mun taka nokkur ár að fullklára verkið eins og áður hefur komið fram. Endurskipuleggja þarf framleiðslueiningar innan félaganna, flytja þær til og sameina öðrum framleiðslueiningum Hampiðjunnar. Sérstaklega er verið að skoða framtíðarskipulag á framleiðslu fiskeldiskvía en í dag fer framleiðslan fram á tveim stöðum í Litháen og að auki í Póllandi og á Spáni.
Fyrirliggjandi eru því töluverðir hagræðingarmöguleikar innan samstæðunnar á næstu árum sem verður spennandi verkefni að vinna úr.“
Fjárhagsdagatal
Uppgjör 3F 2024 – 21. nóvember 2024
Ársuppgjör fyrir árið 2024 – 6. mars 2025
Nánari upplýsingar
Frekari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361.
Hampidjan – Lykiltolur 30. juni 2024
Hampidjan hf. samandreginn arshlutareikningur samstaedu 30. juni 2024