Hampiðjan hlaut Íslensku sjávarútvegsverðlaunin fyrir bestu nýju vöruna sem kynnt var á Íslensku sjávarútvegssýningunni/IceFish 2024 í Fífunni í Kópavogi. Það var ný höfuðlínukapalsvinda sem er sérhönnuð fyrir ljósleiðarakapalinn DynIce Optical Data og hefur verið í þróun síðustu misserin. Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar tók við verðlaununum við hátíðlega athöfn á sýningunni að viðstöddum matvælaráðherra og fjölda gesta en verðlaunin eru haldin í samstarfi við matvælaráðuneytið og Kópavogsbæ.
Verðlaunaathöfnin hófst með því að 40 ára afmæli IceFish var fagnað og sérstök viðurkenning veitt öllum tryggustu sýnendum IceFish frá upphafi en Hampiðjan er þeirra á meðal.
Vindan er mikil völundarsmíð og hún er hönnuð í samstarfi við Erik van der Woude, hollenskan sérfræðing í dráttarspilum sem Hampiðjan hefur unnið með áður í djúpsjávarverkefnum. Vindan var svo smíðuð af fyrirtækinu Naust Marine á Spáni sem vandaði mikið til verksins. Á vindunni er tromla með dráttarspili sem heldur við kapalinn svo átakið inn á hana er ætíð jafnt, eða um 800 kg. Það kemur í veg fyrir að kapallinn grafist niður í lögin fyrir neðan og klemmist og ljósleiðarinn brotni. Einnig er á henni armur sem raðar ljósleiðarakaplinum inn á tromluna af mikilli nákvæmni.
Ljósleiðarakapalsvindan er hönnuð fyrir fiskveiðar en nýtist einnig í öðrum geirum þar sem flytja þarf mikið gagnamagn af miklu dýpi í stjórnstöðvar ofansjávar. Þessi búnaður mun gegna stóru hlutverki í fiskveiðum framtíðarinnar því þegar upplýsingar frá veiðarfærum og upp í brú eru nær ótakmarkaðar má stýra veiðum mun betur.
Mynd frá verðlaunaafhendingu: Fiskifréttir/Eva Björk.