Skip to main content

Hampiðjan hf. hefur í dag, fyrir nokkrum mínútum síðan, undirritað samning um kaup á 75,1% hlut í indverska neta- og kaðlaframleiðslufyrirtækinu Kohinoor Ropes Pvt. Ltd.  Eftir er að ganga frá ýmsum formsatriðum fyrir lokauppgjör en talið er að það muni einungis taka nokkrar vikur því ekki er þörf á samþykki samkeppnisyfirvalda, hvorki hér á landi né á Indlandi. Áreiðanleikakönnun, fjárhagslegri, lögfræðilegri og  fyrir UFS (umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (e. ESG) er að mestu lokið.

Kohinoor er einn stærsti framleiðandi neta og kaðla á Indlandi með ársframleiðslu á um 14.300 tonnum af köðlum og netum.  Starfsmenn fyrirtækisins eru rúmlega 700 og starfsstöðvarnar eru þrjár, tvær neta- og kaðlaverksmiðjur í Selu og netaverkstæði í Jalna. Félagið er einnig með skrifstofu í Aurangabad. Starfsemi Kohinoor er í héraðinu Maharashtra og starfsstöðvarnar eru um 375 km austur af Mumbai.   Samgöngur eru góðar því verið er að opna nýjar hraðbrautir til Mumbai frá Selu og Jalna.   Til að gefa frekari tilfinningu fyrir stærð fyrirtækisins þá má nefna að flatarmál verksmiðjubygginga er tæplega 60.000 m2.  Samanborið við starfsemi Hampiðjunnar í Litháen þá eru starfsmenn þar einnig um 700 og flatarmál bygginga um 45.500 m2.  Í heild verða starfsmenn samstæðu Hampiðjunnar um 2.700 eftir kaupin á meirihlutaeignarhlut í Kohinoor.

Velta Kohinoor á árinu 2024 var 26,2 m€ og EBITDA 3,6 m€.  Kaupverðið á 75,1% hlut í  Kohinoor er áætlað um 21,9 m€ en mun taka breytingum miðað við stöðu skulda og stöðu veltufjár í félaginu er kaupin ganga í gegn. EBITDA margfaldarinn í kaupunum miðað við framangreinda EBITDA er 10,86.

Ef markmið um 4,45 m€ EBITDA á rekstarárinu 2025 nást verður greidd viðbótargreiðsla til seljenda að fjárhæð 2,07 m€ og ef markmiði um 5,52 m€ EBITDA verður náð á rekstrarárinu 2026 þá verður einnig greidd viðbótargreiðsla til seljenda að sömu upphæð, 2,07 m€. Heildarkaupverðið, ef allt gengur eftir verður því 26,0 m€. Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé Hampiðjunnar og láni frá Arion banka að fjárhæð 15,0 m€.

Kohinoor hefur verið náinn samstarfsaðili samstæðu Hampiðjunnar um árabil og var samstæða Hampiðjunnar stærsti einstaki viðskiptavinur fyrirtækisins í fyrra enda kemur stór hluti snúinna kaðla sem Hampiðjan notar frá Kohinoor.  Samstarf hefur einnig verið mjög vaxandi í fiskeldistengdum vörum undanfarið, sérstaklega í framleiðslu á fiskeldiskvíum.

Kohinoor var stofnað árið 1984 af Asaram Baheti, sem er nú látinn, en synir hans þrír hafa stýrt fyrirtækinu í sameiningu undanfarna áratugi.  Synir bræðranna eru nú að miklu leyti teknir við rekstrinum og hafa undirgengist að starfa áfram við  félagið næsta áratuginn.  Baheti fjölskyldan er afar samheldin og reksturinn hefur verið farsæll frá upphafi.   Fjölskyldan mun eiga áfram 24,9% hlut í fyrirtækinu, en mikilvægt er fyrir Hampiðjuna að hafa góða meðeigendur sem þekkja fyrirtækið og stafsemina í smæstu smáatriðum, eru hluti af nærsamfélaginu og þekkja alla innviði.  Eignarhlutur Baheti fjölskyldunnar er bundinn í þeirra eigu í að lágmarki 8 ár.

Fyrir Hampiðjuna skapa þessi viðskipti mikla möguleika á hagræðingu í reksti og sókn inn á nýja markaði.   Virðiskeðja Hampiðjunnar, frá plastkornum til fullkomnustu flottrolla  og  fiskeldiskvía, breikkar við kaupin á Kohinoor og rennir enn styrkari stoðum undir reksturinn.

Í hlutafjárútboði Hampiðjunnar sumarið 2023 var boðið út nýtt hlutafé til að greiða niður skuldir norska félagsins Mørenot og til að byggja frekar upp starfsemi Hampiðjunnar í Litháen.  Fyrri hlutinn gekk strax eftir en aukin samkeppni á fiskeldismörkuðum á N-Atlantshafi og hækkandi kostnaður í Litháen varð til þess að aðrir möguleikar, en frekari uppbygging í Litháen, hafa verið til skoðunar.

Rekstrarkostnaður fyrirtækja er almennt hagstæður á Indlandi samanborið við í Evrópu. Má þar meðal annars nefna að verð á hráefnum á Indlandi er töluvert hagstæðara en í Evrópu og raforkuverð er einnig hagstætt auk þess sem Kohinoor framleiðir sjálft rafmagn með sólarsellum sem er hagstætt á þessu svæði vegna stöðugs og sólríks veðurfars.

Sérstaklega hvað varðar byggingarkostnað þá er byggingartími á Indlandi tiltölulega stuttur því það tekur einungis um 8 mánuði að byggja gott verksmiðjuhús frá grunni.   Þannig er fyrirhugað að kaupa land sem er um 120.000 m2 sem samsvarar 12 hekturum og hefja byggingu á um 20.000 m2 húsi fyrir þá starfsemi sem fyrirhugað er að flytja til Indlands frá Evrópu á vormánuðum og koma starfseminni í gang fyrir áramót.  Fjárfestingin þessu tengd er um 6 m€ en á móti kemur sala á öðrum eignum sem losna við þessa tilflutninga og söluvirði þeirra nemur um 3,8 m€ og að auki lækka leigugreiðslur í Litháen í töluvert á næstu árum vegna þessara breytinga.

Þriðjungur af kaðlanotkun Hampiðjusamstæðunnar kemur í dag frá Kohinoor og í því felast tækifæri til að auka þessi viðskipti.  Starfsemi Hampiðjunnar um allan heim mun opna nýjar söluleiðir fyrir vörur Kohinoor og bætir við það vöruúrval sem dótturfyrirtæki Hampiðjunnar bjóða í dag.

Tækifærin sem skapast við þessi viðskipti eru því fjölþætt.   Í stað þess að flytja starfsemi til Litháen í meira mæli, eins og ætlunin var áður, þá verður starfsemin aukin á Indlandi með því að flytja hluta af framleiðslu tengda fiskeldi sem nú er staðsett í Noregi, Póllandi og Litháen til Kohinoor.   Starfsemi Hampidjan Baltic, sem framleiðir sérhæfða kaðla fyrir veiðarfæri og ofurtóg og Vonin Lithuania, sem framleiðir veiðarfæri og fiskeldiskvíar, verður að mestu óbreytt því mikilvægt er að hafa framleiðslu veiðarfæra nálægt mörkuðum við N-Atlantshaf því oft er þörf á stuttum afgreiðslutíma fyrir veiðarfæri og einnig verður að vera til staðar hraðþjónusta fyrir fiskeldið.  Þannig verður framleiðsla á ofurtógi sem framleitt hefur verið af Mørenot í Noregi flutt til Hampiðjan Baltic á næstu vikum, sem skref í að byggja það fyrirtæki enn frekar upp í ofurkaðlaframleiðslu, en þar er nú ein tæknilega fullkomnasta kaðlaverksmiðja heims.

Með kaupunum á Kohinoor opnast möguleikar á að sækja inn á markaði sem ekki hafa verið aðgengilegir vegna fjarlægðar frá Evrópu og hárra framleiðsluverða þar.   Þannig hefur Kohinoor náð athyglisverðum árangri í Chile sem er annað stærsta framleiðslulandið á laxi á eftir Noregi. Sölu þangað er mögulegt að auka enn frekar með samþættingu þekkingar og reynslu Hampiðjunnar og Kohinoor.   Aukið aðgengi verður að fiskeldismörkuðum í Mið-Austurlöndum þar sem dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, Mørenot Aquaculture, hefur einnig unnið að stórum fiskeldisverkefnum undanfarin ár.  Þá eru tækifæri í Asíu og Eyjaálfu þar sem tvö dótturfyrirtæki Hampiðjunnar starfa, Hampidjan New Zealand og Hampidjan Australia.

Möguleikarnir til vaxtar og hagræðingar með kaupunum á Kohinoor eru því miklir og margvíslegir og munu koma fram í rekstri Hampiðjusamstæðunnar að hluta til á þessu ári en að mestu á næsta ári þegar áætlað er að áhrif hagræðingaraðgerðanna komi fram að fullu.

Í hlutafjárútboðinu sumarið 2023 var kynnt að í framhaldi af hlutafjáraukningunni tæki við fimm ára vegferð til að ná fullum tökum á rekstri Mørenot og ná fram þeirri hagræðingu sem í kaupunum fælust.  Breyttar aðstæður í Noregi og Litháen, eins og nefnt var hér að framan, töfðu framganginn síðastliðið ár en með kaupunum á Kohinoor eru stefnan og áætlanirnar orðnar skýrari þannig að markmiðin sem sett voru í hlutafjárútboðinu eru óbreytt.

Hjörtur Erlendsson forstjóri:

„Kaupin á meirihlutanum í Kohinoor mun auka samkeppishæfni Hampiðjunnar og auka möguleika okkar á að vera skrefum á undan keppinautum okkar á næstu árum með þeirri hagræðingu sem hægt er ná fram á skömmum tíma.

Það er mikil tilhlökkun að vinna með þessu nýja dótturfélagi í framtíðinni og við væntum mikils af þessu samstarfi á næstu árum.

Hægt er að færa innkaup á þeim vörum sem Kohinoor framleiðir en eru nú keyptar af öðrum framleiðendum og ná þar inn framlegð sem er í virðiskeðjunni til okkar.  Vöruframboð Kohinoor mun auka vöruúrval fyrirtækja Hampiðjunnar víða um heim og með því auka aðgengi Kohinoor að þeim mörkuðum, sem við störfum á nú þegar, þá eykst framleiðslumagn Kohinoor og aukin framlegð skapast einnig í dótturfyrirtækjum Hampiðjunnar.

Tilflutningur á framleiðslu til Indlands mun fela í sér töluverða hagræðingu því framleiðsluumhverfið á Indlandi er afar hagstætt, land til bygginga fæst á hagstæðu verði og byggingakostnaður er brot af því sem er í Litháen svo ekki sé minnst á Ísland.  Hráefniskostnaður er umtalsvert lægri en við eigum að venjast í Evrópu fyrir sömu tegundir af hráefnum.

Mestu munar þó um launakostnaðinn sem skiptir í raun mestu máli fyrir okkur því framleiðsla á efnum í veiðarfæri og fiskeldiskvíar er mannfrek og þá sérstaklega þegar kemur að samsetningu veiðarfæra og fiskeldiskvía. Launakostnaður á Indlandi er umtalsvert lægri en í sambærilegum störfum í Evrópu.

Með þessu samanlögðu getum við náð forskoti á keppinauta okkar og að auki nýtt þessa stöðu til að sækja inn á nýja og framandi markaði sem við höfum ekki selt mikið á fram að þessu.

Það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur í samstæðu Hampiðjunnar og það er mikið kappsmál að nýta þessa stöðu sem best á komandi mánuðum og ná fram hagræðingu í haust og sem mun þá skila sér í meira mæli á næsta ári.“

Nandkishor Baheti framkvæmdastjóri Kohinoor:

„Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að Kohinoor Ropes hefur tekið upp stefnumótandi samstarf við Hampiðjan Group, sem er heimsþekktur leiðtogi í köðlum, netum og veiðarfærum. Þessi fjárfesting mun leiða til verulegrar stækkunar til að auka framleiðslugetu okkar á Indlandi.

Þetta samstarf býður upp á ótrúlegt tækifæri fyrir Kohinoor. Með því að ganga í lið með Hampiðjunni, sem starfar á 78 mismunandi stöðum í 21 landi um allan heim, munum við hagræða starfsemi okkar, njóta góðs af háþróaðri tækni og auka sölu á alþjóðlegum mörkuðum. Sterk framleiðslugeta okkar ásamt víðtækri virðiskeðju Hampiðjunnar mun skapa öflug samlegðaráhrif sem mun auka vöxt okkar og samkeppnishæfni.

Kohinoor hefur alltaf verið í fararbroddi í nýsköpun og þetta samstarf mun styrkja stöðu okkar sem leiðandi á markaði enn frekar. Við hlökkum til að nýta sérþekkingu og alþjóðlegt umfang Hampiðjunnar til að kanna ný tækifæri og ná enn meiri árangri saman.

Saman stöndum við fyrir fyrir spennandi framtíð.“

 

Ráðgjafar Hampiðjunnar á Indlandi eru Deloitte og lögfræðifyrirtækið CAM – Cyril Amarchand Mangaldas ásamt Logos á Íslandi.  Ráðgjafar seljenda eru AVA – Ahuja Valecha & Associates LLP og lögfræðifyrirtækið Khaitan & Co.

Nánari upplýsingar gefur Hjörtur Erlendsson forstjóri í síma 664 3361

Þessar upplýsingar eru birtar í opinberlega samræmi við upplýsingaskyldu Hampiðjunnar hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik nr. 596/2014 (MAR), sbr. lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum. Upplýsingarnar varða ákvörðun um kaup á meirihluta hluta í indverska félaginu Kohinoor sem töldust fela í sér innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. MAR.  Tilkynning þessi er gerð opinber af Emil Viðar Eyþórssyni, fjármálastjóra Hampiðjunnar hf., í samræmi við upplýsingaskyldu félagsins samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055. Upplýsingarnar voru opinberlega birtar kl. 13:15 þann 7. febrúar 2025.