Skip to main content

Hampiðjan Ísland ehf. hefur hlotið aðild að Lifting Equipment Engineers Association (LEEA) sem aðalfélagi.

Aðildin markar mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu Hampiðjunnar á sviði lyftibúnaðar, þjónustu og öryggismála. LEEA er alþjóðlegur vettvangur sem setur strangar kröfur um fagleg vinnubrögð, vottaðar lausnir og örugga notkun lyftibúnaðar.

Hampiðjan Ísland leggur áherslu á faglega ráðgjöf og þjónustu fyrir framkvæmdaaðila á borð við verktaka, sveitarfélög og orkufyrirtæki þegar kemur að lyftibúnaði. Í vöruúrvali Hampiðjunnar er vottaður búnaður frá virtum framleiðendum á borð við Gunnebo, Kito Crosby, Blue Line og fleiri. Þá býður fyrirtækið upp á reglubundið eftirlit, yfirferð og vottun á öllum þeim búnaði sem það selur en starfsfólk Hampiðjunnar hefur hlotið sérhæfða þjálfun til að tryggja að allar skoðanir og úttektir standist ströngustu öryggiskröfur.

Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Íslands.

„Aðild að LEEA er mikilvæg viðurkenning á þeirri sérfræðiþekkingu og ströngu kröfum sem við leggjum til grundvallar í allri vinnu okkar með lyftibúnað,“ segir Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Ísland. „Hún staðfestir að við uppfyllum alþjóðlega staðla í öryggis- og gæðamálum.“

Hampiðjan Ísland rekur starfsstöðvar á Ólafsvík, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og í Vestmannaeyjum auk verslunar í höfuðstöðvum fyrirtækisins við Skarfabakka í Reykjavík. Þar er boðið upp á fjölbreyttan búnað til hífinga – allt frá einföldum stroffum til lausna fyrir umfangsmestu verkefni. Á vef Hampiðjunnar og í nýjustu útgáfu af Lyftibúnaðarhandbókinni má finna yfirlit yfir allar vörur og ítarlegar leiðbeiningar um rétta umgengni, eftirlit og notkun sem tryggir bæði öryggi og lengri endingartíma búnaðarins.

Lyftibúnaðarhandbókina má finna hér.