Hampiðjan Ísland tekur þátt í Iðnaðarsýningunni 2025 sem fer fram í Laugardalshöll dagana 9.-11. október. Þar kemur saman fjölbreyttur hópur fyrirtækja á sviði iðnaðar og bygginga, og er sýningin mikilvægur vettvangur fyrir fagfólk til að kynna sér nýjungar, lausnir og þjónustu.
Á bási Hampiðjunnar verða kynntar helstu vörur og þjónusta fyrirtækisins á sviði lyftibúnaðar. Þar á meðal er vottaður búnaður frá virtum framleiðendum á borð við Gunnebo, Kito Crosby og fleiri, auk stafrænnar merkingarlausnar með RFID flögum frá YOKE. Lausnin gerir notendum kleift að nálgast allar upplýsingar um búnaðinn á einfaldan og öruggan hátt með snjalltækjum.

Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Íslands.
„Við leggjum áherslu á að kynna vottaðar og öruggar lausnir fyrir íslenskan iðnað. Mikilvægt er að allur lyftibúnaður sé í reglulegu eftirliti og í fullkomnu lagi áður en hann er notaður, og við bjóðum fyrirtækjum víðtæka þjónustu í eftirliti, viðhaldi og ráðgjöf,“ segir Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland.
Aðild að LEEA styrkir stöðuna
Nýverið varð Hampiðjan Ísland aðalfélagi í Lifting Equipment Engineers Association (LEEA), alþjóðlegum vettvangi sem setur strangar kröfur um fagleg vinnubrögð, vottaðar lausnir og örugga notkun lyftibúnaðar. Aðildin markar mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins á þessu sviði.
„Aðild að LEEA er mikilvæg viðurkenning á þeirri sérfræðiþekkingu og ströngu kröfum sem við leggjum til grundvallar í allri vinnu okkar með lyftibúnað. Hún staðfestir að við uppfyllum alþjóðlega staðla í öryggis- og gæðamálum,“ segir Jón Oddur.
Víðtæk þjónusta um land allt
Hampiðjan Ísland leggur áherslu á faglega ráðgjöf og þjónustu fyrir sveitarfélög, verktaka og orkufyrirtæki. Fyrirtækið rekur starfsstöðvar á Ólafsvík, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað og í Vestmannaeyjum auk verslunar í höfuðstöðvum sínum við Skarfabakka í Reykjavík. Þar er boðið upp á fjölbreyttan búnað til hífinga – allt frá einföldum stroffum til lausna fyrir umfangsmestu verkefni.
Lyftibúnaðarhandbók Hampiðjunnar, sem gefin er út reglulega, verður einnig aðgengileg á básnum. Í henni má finna yfirlit yfir allar helstu vörur fyrirtækisins, leiðbeiningar um notkun og umsjón búnaðarins, auk upplýsinga um vefsölu sem tryggir aðgengilega þjónustu hvar sem er á landinu.