Skip to main content

DynIce Data kapallinn sækir stöðugt á í vinsældum á kostnað hefðbundinna stálkapla enda kemur sífellt betur í ljós hvaða kosti hann hefur í notkun.

Kapallinn er í dag notaður í fjölmörgum löndum en um 470.000 m af kaplinum hafa verið seldir víða um heim fram til þessa.

Elsti kapallinn í notkun, sem vitað er um, er nú orðinn um 12 ára gamall og það segir sína sögu um endingartímann en yfirleitt er endingartíminn 5-6 ár samanborið við stálkapla sem endast gjarnan í 1-2 ár. Ein af mörgum ástæðum fyrir löngum líftíma er að DynIce Data ryðgar ekki.

DynIce Data er með koparleiðara í miðju og þéttri koparhlíf utan um til að koma í veg fyrir truflanir á gagnasendingu og styrkur kapalsins byggist á ofurþráðum sem fléttaðir eru utanum koparkjarnann.

Hönnun DynIce Data er einstök og hann er einkaleyfisvarinn.

Kapallinn er mun eðlisléttari en stálvír af sama sverleika og þegar hann er dreginn þá lyftist hann upp og togar upp höfuðlínuna og eykur þannig lóðrétta opnun trollsins. Í beygjum flýgur hann hátt yfir hlerunum og engin hætta er á að hann festist í þeim.

Tveir aðrir mikilvægir kostir eru við DynIce Data. Hann slútir ekki niður fyrir opnun trollsins og fælir því ekki fisk frá trollopinu. Ekki þarf sífellt að klippa af endanum og endurtengja eins og í stálkapli en því fylgir umtalsverður vinnusparnaður. Vegna þessa er hægt að kaupa styttri kapal í byrjun og minnka þannig verðmuninn.

100 skip hafa nú skipt út stálköplum í höfuðlínu í DynIce Data. Hann er í notkun á 15 af 20 íslenskum skipum sem stunda uppsjávarveiði og á skipum frá Færeyjum, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Írlandi, Skotlandi, Shetlandseyjum, Þýskalandi, Argentínu, Síle, Marokkó og Bandaríkjunum, þar sem um 30 skip nýta sér kapalinn, bæði við uppsjávarveiðar og við veiðar með botntrollum.

DynIce Data er vissulega dýrari en stálkapall enda eru efnin sem eru notuð í hann dýr og framleiðsluferlið langt og flókið. Endingartíminn, betra merki frá sónurum, meiri trollopnun, engin fæling fisks frá trollopinu ásamt litlu sem engu viðhaldi vegur verðmuninn margfalt upp á stuttum tíma.

Ef frekari upplýsinga er óskað um DynIce Data þá er best að hafa samband við Hróðmar Inga Sigurðsson og tölvupósturinn hans er hs@hampidjan.is