Skip to main content

Lykilstærðir 

Allar fjárhæðir í evrum og leiðréttar samanburðartölur í sviga.

  • Rekstrartekjur ársfjórðungsins voru 92,9 m€ (75,0 m€)
  • EBITDA af reglulegri starfsemi á ársfjórðungnum var 8,8 m€ (9,0 m€)
  • Hagnaður ársfjórðungsins nam 1,0 m€ (1,1 m€.)
  • Rekstrartekjur fyrstu 9 mánuðina voru 277,6 m€ (233,2 m€).
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 33,0 m€ (28,7 m€).
  • EBITDA leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði vegna kaupa á Kohinoor nam 33,5 m€.
  • Hagnaður af áframhaldandi starfsemi tímabilsins nam 8,5 m€ (9,2 m€).
  • Heildareignir voru 541,3 m€ (509,5 m€ í lok 2024).
  • Vaxtaberandi skuldir voru 206,6 m€ (178,6 m€ í lok 2024).
  • Handbært fé var 24,8 m€ (41,4 m€ í lok 2024).
  • Eiginfjárhlutfall var 49,8% (53,6% í lok 2024).

Rekstur

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 277,6 m€ og hækkuðu um 19,1% frá fyrstu níu mánuðum fyrra árs.

EBITDA félagsins hækkaði um 15,1% á milli tímabila eða úr 28,7 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 í 33,0 m€ á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Sé EBITDA leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði í tengslum við kaup félagsins á 75,1% í indverska félaginu Kohinoor þá nemur EBITDA fyrstu níu mánaða ársins 33,5 m€ eða aukning um 16,9%.

Gengistap á tímabilinu nam 2,1 m€ samanborið við gengishagnað að fjárhæð 0,6 m€ á sama tímabili í fyrra. Ástæðan er einkum langtímakröfur innan samstæðunnar í USD. EUR hefur styrkst um 13,4% fá áramótum til loka september gagnvart USD. Einnig hefur EUR styrkst á móti öðrum gjaldmiðlum innan samstæðunnar og má þar t.d. nefna INR en EUR hefur styrkst um 15,9% á móti INR frá því að Kohinoor kom inn í samstæðuna.

Hagnaður af áframhaldandi starfsemi eftir skatta nemur 8,5 m€ en var 9,2 m€ á sama tímabili í fyrra. Sé leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði vegna kaupa á Kohinoor þá nemur hagnaður árshelmingsins af áframhaldandi starfsemi í kringum 8,9 m€.

Eins og komið hefur fram í tilkynningum frá félaginu þá er félagið að vinna að endurskipulagningu á framleiðslustarfsemi sinni. Á öðrum ársfjórðungi var hafist handa við að loka stórum hluta af starfseminni í Danmörku og í Póllandi og flytja framleiðslu til annarra framleiðslueininga félagsins innan samstæðunnar, einkum til Indlands. Því ferli lauk að mestu á 3 ársfjórðungi. Félagið fer því með starfsemi þessara félaga sem aflagða starfsemi í samræmi við reikningsskilareglur. Felur það í sér að allur rekstur félaganna er sýndur í sér línu í rekstrarreikningi félagsins undir liðnum aflögð starfsemi eftir skatta. Einnig þarf að leiðrétta samanburðartölur síðasta árs í samræmi við þessa flokkun. Á tímabilinu er gjaldfærður kostnaður vegna lokunar að fjárhæð 2,3 m€ eftir áhrif skatta, en þar er einkum um að ræða einskiptiskostnað eins og uppgreiðsla á leigusamningum á húsnæði, uppsagnartími starfsmanna, niðurfærsla á birgðum sem ekki er hægt að nota annars staðar og niðurfærsla á öðrum eignum. Á sama tímabili í fyrra skiluðu þessi félög um 16 þúsund € í hagnað eftir áhrif skatta.

Hagnaður tímabilsins nemur því 6,2 m€ en var 9,3 m€ á sama tímabili ársins 2024. Sé leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði þá nemur hagnaður tímabilsins um 6,6 m€.

Efnahagur

Heildareignir voru 541,3 m€ og hafa hækkað úr 509,5 m€ í árslok 2024.

Eigið fé nam 269,7 m€, en af þeirri upphæð eru 14,2 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 49,8% af heildareignum samstæðunnar en var 53,6% í árslok 2024.

Töluverður neikvæður þýðingarmunur af eigin fé dótturfélaga var á tímabilinu. Skýrist hann af þróun gjaldmiðla sem dótturfélögin gera upp í gagnvart evrunni. Á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæður þýðingarmunur að fjárhæð 5,8 m€ færður í gegnum heildarafkomu félagsins. Þýðingarmunur af hlutdeild félagsins í Kohinoor vegur þar þyngst en hann var neikvæður um 2,9 m€ en EUR styrktist um 15,9% gagnvart INR frá því að félagið var tekið inn í Hampiðjuna.

Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 206,6 m€ samanborið við 178,6 m€ í árslok 2024.

Viðskiptaskuldir og aðrar skammtímaskuldir í lok tímabilsins nema 53,1 m€ en námu 46,7 m€ í árslok 2024.

Samandregni árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.

Í dag verður haldin fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

“Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur veltan aukist umtalsvert frá fyrra ári eða úr 233,2 m€ í 277,6 m€ eða um 19.1%. Ef litið er eingöngu á þriðja ársfjórðung þá hefur veltan aukist úr 75,0 m€ í 92,9 m€ eða um 23,9%.

Þessi veltuaukning er að miklu leyti tilkomin vegna tveggja félaga sem bættust í samstæðuna í fyrra og í ár. Fiizk Protection kom inn frá byrjun september í fyrra en indverska félagið Kohinoor telst með frá byrjun febrúar í ár.

Ef einungis er litið til þeirra félaga sem voru í samstæðunni fyrir kaupin á Fiizk og Kohinoor þá hefur sala þeirra aukist á árinu frá fyrra ári um 7%.

Þriðji ársfjórðungur einkenndist af almennt meiri þrýstingi á verð og einnig aukinni verðsamkeppni á sumum mörkuðum, einkum í Færeyjum og á Grænlandi. Framlegðin sem nam 26,9% á 3ja ársfjórðungi 2024 varð 25,1% á sama ársfjórðungi í ár og munar þar um 1,8% sem er þá um 1,7 m€ hlutfallsleg lækkun sem hefur áhrif á uppgjör ársfjórðungsins.

Fjáreignatekjur lækka milli fjórðunganna og þessi breyting er mun meiri ef litið er til fyrstu níu mánaðanna því það fé sem var í ávöxtun var nýtt til að greiða fyrir Kohinoor.

EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins var 33,0 m€ samanborið við 28,7 m€ á síðasta ári. Hlutfallið 2024 var 12,3% en er í ár 11,9%. Þessar tölur eru þó ekki fyllilega sambærilegar því á fyrri hluta þessa árs kemur inn einskiptiskostnaður vegna kaupanna á Kohinoor sem nemur um 0,5 m€. Aðlöguð EBITDA er því 33,5 m€ sem samsvarar 12,1%.

EBITDA 3ja ársfjórðungs var tæpar 8,8 m€ eða 9,5% samanborið við tæpar 9,0 m€ á sama ársfjórðungi í fyrra eða 12,0%. Stærsti áhrifaþátturinn á þessari útkomu er verðþrýstingurinn á fjórðungnum.

Rekstrarhagnaður fyrstu 9 mánuðina er tæp 21,0 m€ á móti rúmum 18,0 m€ í fyrra en minni fjáreignatekjur 1,6 m€, meiri gengismunur 2,7m€ ásamt aflagðri starfsemi 2,3 m€ snýr þeirri mynd alveg við og hagnaður ársins er tæpar 6,2 m€ samanborið við tæpar 9,3 m€ árið áður.

Hagnaður 3ja ársfjórðungs nam rúmri 1,0 m€ á móti 1,1 m€ síðasta ár.

Fiskveiðikvótinn í Barentshafinu hefur verið skorinn duglega niður undanfarin ár og þorskkvótinn 2025 er orðinn 33% minni miðað við árið 2023 og makrílkvótinn hefur einnig minnkað um 29% miðað við sömu ár. Á árinu 2026 má búast við frekari kvótaniðurskurði í botnfisktegundum í Noregi og öllum uppsjávartegundum á N-Atlantshafi nema síld. Búist er við að þorskkvóti verði aukinn aftur árið 2027 þar sem miðað er við að hrygningarstofnar séu að stækka.

Rússnesk skip sem veiða í Barentshafi hafa landað afla í Noregi sem fer inn á markaði í Evrópu. Þessi skip hafa tekið veiðarfæri og búnað þegar þau hafa komið til hafnar. Fyrr í ár var sett sölubann á tvö rússnesk fyrirtæki, Murman Seafood og Norebo og þeim meinað að landa í Noregi.

Nú í október herti ESB á viðskiptaþvingunum og bannaði sölu á öllum vörum úr stáli til rússneskra skipa sem koma til hafnar í Noregi og er með því tekið fyrir sölu á togvír, toghlerum, keðjum og ýmiss konar lásum og krókum.

Þessi kvótaniðurskurður ásamt auknum viðskiptaþvingunum hefur lagst þungt á þau félög samstæðunnar sem starfa í N-Noregi en það eru Vonin Refa og Mørenot Fishery. Í báðum félögum hefur verið gripið til sparnaðaraðgerða til að mæta þeirri stöðu og áfram verður haldið á þeirri braut næstu mánuði.

Eins og komið hefur fram þá er sífellt unnið að hagræðingaraðgerðum og hluti af þeim var að hætta starfsemi í Poldan í Póllandi ásamt móðurfélagi þess Mørenot Denmark og flytja meginhluta þeirrar starfsemi til Indlands ásamt því að flytja framleiðslu á köðlum og netum í Hildre í Noregi til Hampidjan Baltic í Litháen. Verið er að klára sölu á báðum byggingum og er búist við að það klárist á fjórða ársfjórðungi. Ekki er þó búist við að söluverðið sé mikið yfir bókfærðu verði því stærri byggingin í Póllandi var endurmetin fyrir nokkrum árum og áður en Hampiðjan eignaðist fyrirtækið.

Sala til fiskeldis hefur gengið vel að undanförnu og söluhorfurnar eru góðar. Sá árangur byggir að mestu leyti á starfseminni á Indlandi því nú eru allar fiskeldisnætur sem eru úr stífu HDPE (High Density PolyEthylene) framleiddar hjá Kohinoor. Framleiðsla á þeim er afar vinnuaflsfrek og hagstæð vinnulaun hjá Kohinoor hafa leitt til góðrar samkeppnishæfni sem er studd af mikilli fag- og markaðsþekkingu á þessum markaði í N-Atlantshafi ásamt tryggu gæðaeftirliti.

Flutningur framleiðslu á fiskeldisnótum úr mjúku nyloni til Kohinoor er hafinn og verið er að byggja upp efnislager af neti á Indlandi til að dekka yfir þann tíma sem tekur að taka niður vefstóla sem eru notaðir til framleiðslu á hnútalausu neti, flytja þá og setja upp að nýju. Það ferli tekur um 3 mánuði að jafnaði og til að framleiðsla haldi óhindrað áfram þá er net framleitt í Litháen, sent til Indlands en þangað eru komnar fyrstu saumavélarnar sem voru áður staðsettar í pólska fyrirtækinu Poldan sem lokað var í endaðan ágúst. Í lok þessa mánaðar verða tveir af fjórum vefstólum sem enn eru í Hildre í Noregi teknir niður til flutninga til Kohinoor. Framleiðsla á hnútalausu neti hjá Kohinoor getur því hafist í byrjun mars. Þá verða þeir tveir vefstólar sem eru eftir í Noregi fluttir og snemma næsta sumar fimmti vefstóllinn sem er nú í Hampidjan Baltic í Litháen.

Nú er unnið að endurskipulagningu og samþættingu þeirrar starfsemi sem snýr að fiskeldismörkuðum en sá hluti telur um tæpan þriðjung af heildarveltu Hampiðjunnar. Nánari upplýsingar um breytingarnar verða kynntar í byrjun desember.

Á Indlandi hefur verið gengið endanlega frá samningum um kaup á byggingarlandi á iðnaðarsvæðinu Auric sem er aðeins austan við borgina Aurangabad. Landið er 120.000 m2 og þar má byggja um 76.000 m2. Allar teikningar fyrir fyrsta áfangann sem er 28.000 m2 eru tilbúnar og útboðsferlið er hafið og því lýkur væntanlega nú í lok nóvember.

Umsóknir um byggingarleyfi og umhverfistengt starfsleyfi hafa verið lagðar inn og búist er við að byggingarleyfið berist innan 2-3 vikna. Mun lengri tíma tekur að fá leyfi umhverfisyfirvalda og er áætlað að það liggi fyrir í endaðan febrúar. Þá er hægt að hefja byggingarframkvæmdir og byggingartíminn á fyrsta verksmiðjuhúsinu er áætlaður um 6-7 mánuðir og byggingin ætti því að vera tilbúin til notkunar í byrjun september.

Í Færeyjum er að verða breyting á framkvæmdastjórn Vónin því Hjalmar Petersen, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu í 30 ár frá árinu 1996 og sem framkvæmdastjóri frá 2001 hefur ákveðið að hætta störfum hjá félaginu.

Hjálmar á mikla virðingu og þakklæti skilið fyrir framlag sitt til uppbyggingar Vónin á síðustu þremur áratugum. Á þessum tíma hefur hann byggt upp fyrirtækið í að vera leiðandi í þróun og framleiðslu veiðarfæra og búnaðar og jafnframt gert Vónin að stórum og mikilvægum aðila í fiskeldisbúnaði og þjónustu. Þessu hefur hann náð samhliða því að tryggja trausta rekstrarafkomu og viðhalda sterkri fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Við stjórnartaumunum tekur Daníel Hákunsson Dam en hann hefur verið fjármálastjóri Vónin frá ársbyrjun 2021 og er því öllum hnútum kunnugur. Daníel er 35 ára Færeyingur, giftur þriggja barna faðir og menntaður sem viðskiptafræðingur frá Álaborgarháskóla þar sem hann lauk einnig meistaragráðu í stjórnun. Hann starfaði eftir námið í Danmörku við rekstrar- og fjárhagseftirlit þar til að þau hjónin fluttu aftur til Færeyja haustið 2020.

Hjálmar mun starfa hjá félaginu fram til loka apríl á næsta ári, áfram sem framkvæmdastjóri til loka febrúar en þá mun Daníel taka formlega við starfinu. Næstu tvo mánuði þar á eftir mun Hjálmar vera Daníel til halds og trausts ásamt því að ljúka uppbyggingu fiskeldisþjónustustöðvarinnar í Kyleakin á eynni Skye í Skotlandi.

Þegar aukið hlutafé var boðið út sumarið 2023 þá var gert ráð fyrir að það tæki um 5 ár að ná fullri samþættingu, klára nauðsynlega uppbyggingu og afkastaaukningu í Litháen og að fullri rekstrarhagkvæmni væri náð á rekstrarárinu 2027.

Á þeim rúmu tveim árum sem eru liðin frá útboðinu hefur margt breyst í rekstrarumhverfinu og fyrirætlanir um uppbyggingu í Litháen breyttust alveg þegar tækifæri gafst til að kaupa Kohinoor á Indlandi. Sú breyting er reyndar afar jákvæð í ljósi mun hagstæðara rekstrarumhverfis á Indlandi en í Litháen þar sem bæði rekstrarkostnaður og launakostnaður eykst hröðum skrefum.

Það má búast við að þessi breyting á fyrirætlunum hafi lengt aðeins á tímalínunni og að umbreytingarferlið og að ná fjárhagslegum markmiðum muni taka einu ári meira en upphaflega var gert ráð fyrir.

Þegar árangurinn af öllum þeim breytingum sem unnið er að skilar sér á næstu árum þá verður rekstur samstæðu Hampiðjunnar öflugri og hagkvæmari en áður. Samkeppnishæfnin verður mikil og góð með grunnframleiðslu á Indlandi og netaverkstæði og fiskeldisþjónustustöðvar um allan heim.“

Viðhengi