Arctic Fish hefur fjárfest í nýjum eldisbúnaði frá dótturfélögum Hampiðjunnar, Mørenot Aquaculture og Fiizk Protection í Noregi, fyrir fiskeldi sitt á Vestfjörðum.
Félagið hefur keypt 34 fiskeldispoka úr HDPE-efni frá Mørenot, en það efni er stífara og sterkara efni en áður var notað. Net úr HDPE (High Density PolyEthylene), er nuddþolið með sléttu og sleipu yfirborði sem auðveldar þvott neðansjávar.
Fiskeldispokarnir eru án ásætuvarna , sem gerir þá umhverfisvænni og auðveldari í þrifum neðansjávar. Þeir eru jafnframt hannaðir með auknum styrkingum til að þola meira álag sem minnkar líkur á skemmdum á netinu.

Fiskeldispokarnir voru framleiddir hjá Kohinoor, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar á Indlandi.
Fiskeldispokarnir voru framleiddir hjá Kohinoor, dótturfyrirtæki Hampiðjunnar á Indlandi, en það stendur mjög framarlega í framleiðslu á fiskeldispokum úr HDPE. Vegna stífleika netsins er ekki hægt að nota saumavélar við vinnuna og eru þeir því að fullu handunnir. Fiskeldispokarnir hafa allir verið afhentir og eru komnir í notkun í sjó.
Til að auka varnir gegn laxalús hefur Arctic Fish jafnframt keypt lúsapils fyrir allt að 40 fiskeldispoka frá Fiizk Protection. Lúsapils eru sett efst utan um fiskeldispokana og mynda hindrun sem dregur úr aðgangi laxalúsar og annarra sníkjudýra að eldisfiskinum. Artic Fish hefur áður notað lúsapils með góðum árangri og styrkir nú enn frekar forvarnir gegn lúsasmiti.
Arctic Fish nýtir fullkomna og sérhæfða þjónustustöð Hampiðjunnar á Ísafirði til viðhalds og þrifa á fiskeldispokunum og öðrum búnaði. Þar starfa um 20 manns og þjónustustöðin er vel tækjum búin, meðal annars með vatnshreinsistöð, 60 m3 þvottavél sem er sérhæfð til þvottar á fiskeldispokum og netaverkstæði til viðgerða á þeim.
Kaupin á fiskeldispokunum og lúsapilsunum eru hluti af 1,3 milljarða króna fjárfestingu Arctic Fish í nýjum búnaði sem felur einnig í sér ný fóðurkerfi og aðra tækni sem eykur sjálfbærni, bætir velferð fisksins, dregur úr umhverfisáhrifum og bætir öryggi starfsfólks.

