,,Ég á aðeins til eitt orð yfir þessa menn, Snorra og Hermann. Þeir eru snillingar eins og sést best á hönnun og þróun þessa fjögurra byrða DynIce kvikklínu þvernetspokans. Tilkoma hans breytir öllu varðandi innfjarðarrækjuveiðarnar hér í Ísafjarðardjúpi. Það er vonum seinna að sett er reglugerð, sem skyldar notkun þessa poka á rækjuveiðum. Einkum í ljósi þess að rækjuvinnslan Kampi, sem kaupir innfjarðarækjuna, hefur fyrir löngu mælst til þess að allir viðskiptabátar fyrirtækisins noti þennan poka.“
Þetta segir Haraldur Konráðsson, skipstjóri á Val ÍS, af því tilefni að þann 4. nóvember sl. gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð þar sem útgerðir skipa á úthafs- og innfjarðarækjuveiðum eru skyldaðar til að nota umræddan trollpoka. Þó er áfram heimilt við veiðar á úthafsrækju að nota net á legg í a.m.k. 8 öftustu metrum vörpunnar í stað þvernetspoka.
Haraldur hefur komið að þróun pokans í góðri samvinnu við starfsmenn Hampiðjunnar á Ísafirði. Þar stýrir Snorri Sigurhjartarson málum en trollpokinn er hannaður af Hermanni H. Guðmundssyni sem er starfsmaður Hampiðjunnar á Akureyri.
Að sögn Haraldar eru sennilega liðin fjögur eða fimm ár síðan Snorri hafði samband við hann og spurði hvort hann væri til í að reyna nýja gerð af trollpoka og taka þátt í þróun hans á innfjarðarækjuveiðunum.
Á þeim tíma var hvorki hefbundni pokinn né leggpokinn að skilja nægilega vel út smárækju og fiskiseiði og það horfði til vandræða með áframhaldandi veiðar ef ekki tækist að finna lausn á vandanum.
,,Ég var meira en til í það. Nýjungin fólst í því að prufa fjögurra byrða þvernetspoka þar sem netinu er snúið um 90 gráður og það fellt á fjórar DynIce kvikklínur. Við það formast pokinn í sjónum og möskvarnir opnast vel í slöku pokanetinu sem auðveldar smárækjunni og fiskseiðum að synda út í gegnum netmöskvana. Það leið því ekki á löngu þar til pokinn var farinn að svínvirka efir smá aðlögun og stillingar.
Það er mikið í húfi fyrir okkur sjómenn og eins fyrir útgerðarmenn því vinnslan greiðir aðeins fyrir nýtanlegt hráefni og það sem er umfram kemur að fullu til kvóta þótt ekkert væri greitt fyrir. Nú skilst þetta allt lifandi út og við fáum greitt fyrir þann afla sem við komum með að landi,“ segir Haraldur.
Það má því leiða líkum að því að rækjubátarnir fái fjórðu vertíðina borgaða á þrem vertíðum miðað við hvernig þetta var áður en þvernetspokinn kom til.
Það er því óhætt að segja að veiðarnar séu mjög vistvænar og sjálfbærar með notkun á þvernetspokanum. Það kemur okkur að góðum notum seinna þegar smárækjan verður fullvaxin og nýtanleg í veiðinni.
Að sögn Haraldar lýsa fiskifræðingar ástandinu í Ísafjarðardjúpi nú sem þokkalegu en nýliðun rækju mætti vera betri. Haraldur segir kvóta Vals ÍS vera 197 tonn.
,,Kvótinn var gefinn út og veiðar máttu hefjast fyrir skömmu. Nú megum við stunda veiðarnar allt árið og sú ákvörðun hefur verið tekin að við byrjum ekki á rækju fyrr en eftir áramótin.“
Haraldur segir að hönnun og þróun fjögurra byrða þvernetspokans sé gott dæmi um það hvernig veiðarfæraframleiðendur, eins og t.d. starfsmenn Hampiðjunnar á Ísafirði og sjómenn geti unnið saman.
,, Þeir eru vaknir og sofnir í að leysa úr okkar vanda og stundum tekst það jafn vel og fjögurra byrða DynIce kvikklínu þvernetspokinn sannar,“ segir Haraldur Konráðsson.