Skip to main content

Undanfarin ár hefur verið unnið að því að þróa frekar DynIce Warp togtaugarnar með því  að bæta inn rafmagnsleiðurum í nýja gerð sem fá þá nafnið  DynIce Power Warp.   Í miðju ofurtogtaugarinnar er skermaður samása (co-axial)  leiðari sem getur flutt merki eða rafmagn og utan um hann eru síðan 6-8 rafmagnsleiðarar.  Tilgangurinn er að koma rafmagni og merki frá skipinu niður í stjórnbox í toghleranum og sem getur nýst til að stýra honum meðan á togi stendur.

 
Þróunarverkefnið nýtur styrks frá Tækniþróunar sjóði og að sögn Jóns Atla Magnússonar, vöruþróunar- stjóra Hampiðjunnar, eru miklar vonir bundnar við að þessi nýja tækni geri það kleift að leiða raforku niður í veiðarfærin.  Samhliða þróunarvinnunni hefur verið sótt um einkaleyfi fyrir þessari nýju hönnun á togtaugunum og umsóknarferlið er komið vel á veg.
 
Líkur er á að með þessari framþróun muni opnast nýtt svið í veiðarfæratækni sem muni umbylta öllu í stjórnun togveiðarfæra í framtíðinni.  Framleiðendur toghlera hafa verið að vinna að hönnun stýranlegra hlera undanfarin ár og kostir DynIce Power Warp munu nýtast að fullu við þá framþróun.
 
Það er rúmur áratugur síðan Hampiðjan markaðssetti DynIce Warp togtaugar sem komu í stað hefðbundinna togvíra og þær eru nú í notkun á um 150-160 togskipum víða um heim.  Meðal eiginleika  Dyneema ofurþráða, sem notaðir eru í taugarnar, er umtalsvert meiri léttleiki því efnið er léttara en vatn og flýtur.  Slitstyrkur er sá sami miðað við þvermál og í hefðbundnum togvírum.

 

Að sögn Jóns Atla geta DynIce Power Warp taugar með kjarna úr rafleiðara einnig nýst á öðrum sviðum.
 
,,Við horfum m.a. til olíu- og gasiðnaðarins. Þar er verið að senda könnunar- og rannsóknaför niður á mikið dýpi með einum stálvír og samhliða því er slakað út kapli til  gagna- og raforkuflutninga. Þetta væri hægt að leysa með einni taug með rafleiðurum.  Stálvírar eru þungir og slitna undan eigin þunga þegar um 6 km dýpt er náð en engin takmörk eru fyrir lengd DynIce Warps og lengstu togtaugarnar eru 12 km langar en dýpsta gjáin í heimshöfunum er rúmlega 11 km.  Endingin er líka góð því DynIce vörurnar ryðga aldrei,“ segir Jón Atli Magnússon.