Dótturfyrirtæki Hampiðjunnar, Mørenot Fishery, hefur hannað, sótt um einkaleyfi fyrir og sett á markað nýstárlega lausn fyrir veiðar með botntrollum sem hönnuð er til að hámarka veiðigetu á sama tíma og umhverfisáhrif eru lágmörkuð.
Um er að ræða nýja gerð af hopparalengju, Flow Gear, sem byggð er upp af hálfhringjum úr plasti í stað stórra gúmmihringja. Straumlínulagað form hálfhringslengjunnar dregur úr mótstöðu í vatni og á sjávarbotni, sem minnkar álag og dregur úr orkunotkun. Plasthálfhringurinn er sveigjanlegur og fjaðrar undan álagi og höggum og beyglast ekki og skemmist eins og ef stál væri notað í stað plastsins. Að auki bætir nýja hopparalengjan bæði opnun og stöðugleika trollsins í drætti. Prófanir hafa einnig sýnt að þegar vatn flæðir yfir hálfhringlaga hönnunina eykst vatnshraðinn í átt að miðju trollsins, sem leiðir fiskinn betur inn í trollið og gefur meiri veiði.
Lengjan er umhverfisvæn því snertiflöturinn er úr stáli og minna er um slit en á rockhoppergúmmíinu. Hún hefur minni áhrif á hafsbotninn sem er mikilvægt framfaraskref í samanburði við hefðbundinn búnað. Með minni togmótsstöðu sparast olía og veiði á hverja togstund eykst sem lækkar kolefnissporið umtalsvert. Búist er við að þessi búnaður, sem nú er í einkaleyfisferli, muni bylta botnvörpuveiðum bæði fyrir útgerðaraðila og umhverfið.
Helstu kostir:
• Allt að 40-50% aukin veiðigeta
• Hönnuð með yfirburða straumlínulögun
• Léttari í drætti
• Auðveldara að fara yfir hindranir á sjávarbotni
• Minni áhrif á sjávarbotn
• Minni mótstaða og eldsneytisnotkun
Fyrstu tilraunaútgáfur af lengjunni hafa verið prófaðar og þær prófanir leiddu í ljós ýmislegt sem betur mátti fara og sú reynsla er nú nýtt til að betrumbæta hönnunina ásamt því að stækka hálfhringina umtalsvert þannig að lengjan henti betur fyrir veiðar á Íslandsmiðum.
„Þessi nýja tækni er mikilvægur áfangi í þróun umhverfisvænna lausna fyrir sjávarútveginn. Með Flow Gear hopparalengjunni erum við ekki aðeins að bæta veiðinýtni heldur einnig að draga verulega úr áhrifum á hafsbotninn og minnka kolefnissporið. Þetta er skref í rétta átt fyrir framtíðina og fyrir útgerðaraðila sem vilja auka hagkvæmni með ábyrgum hætti,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.