SIÐAREGLUR HAMPIÐJUNNAR
Tilgangur siðareglna er stuðla að heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust viðskiptavina og almennings á Hampiðjunni og dótturfélögum.
Tilgangur siðareglna er stuðla að heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust viðskiptavina og almennings á Hampiðjunni og dótturfélögum.
Siðareglurnar gilda um allt starfsfólk Hampiðjunnar hf og dótturfélaga (hér eftir: Hampiðjan). Reglurnar eiga að stuðla að heiðarlegri og siðferðilega réttri hegðun Hampiðjunnar og starfsfólks hennar.
Hampiðjan ætlast til þess að allir hlutaðeigandi aðilar kynni sér reglurnar og vinni eftir þeim. Þar sem siðareglurnar taka ef til vill ekki á öllum vafasömum aðstæðum sem upp kunna að koma er ætlast til þess að starfsfólk sýni góða dómgreind, leiti ráðgjafar og tilkynni tafarlaust áhyggjur af hugsanlegum brotum á siðareglunum eins og lýst er í kafla 3 Eftirfylgni.
Við förum eftir lögum og reglum sem gilda um starfsemina á starfsstöðvum okkar og þeim stefnum og reglum sem Hampiðjan hefur sett sér. Við tökum ekki þátt í neins konar peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka og förum eftir öllum gildandi lögum sem banna slíkt. Starfsfólk skal gera þær ráðstafanir sem mögulegar eru til að greina og koma í veg fyrir hvers kyns ólöglegar greiðslur og afstýra því að Hampiðjan, eða einhver af dótturfélögum hennar, taki þátt í viðskiptum sem aðrir nýta til peningaþvættis.
Þar sem munur er á gildandi lögum, reglugerðum og siðareglum okkar og undirliggjandi stefnum, skulu ströngustu reglurnar gilda.
Hjá Hampiðjunni virðum við grundvallarmannréttindi sem kveðið er á um í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Hampiðjan skal virða alþjóðlega viðurkennd mannréttindi sem eru meðal annars lögfest í alþjóðasáttmálanum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966, alþjóðasáttmálanum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 og kjarnasáttmála ILO um grundvallarreglur og réttindi í starfi. Ennfremur leggjum við áherslu á góð samskipti við þau samfélög þar sem við störfum. Nánari upplýsingar er að finna í Mannréttindastefnu Hampiðjunnar.
Hampiðjan skapar öruggt vinnuumhverfi sem styður við almenna velferð starfsfólks og veitir öllum jöfn tækifæri.
Áreitni, einelti, mismunun, eða önnur hegðun sem má túlka sem ógnandi eða niðurlægjandi, er ekki liðin hjá Hampiðjunni.
Við vinnum að því að draga úr áhrifum starfseminnar og athafna viðskiptavina okkar á umhverfi og náttúru, t.d. með betri nýtingu auðlinda, endurvinnslu og minna kolefnisfótspori. Sjá nánar í Umhverfisstefnu Hampiðjunnar.
Við líðum ekki spillingu eða mútur og eigum eingöngu viðskipti við birgja eða viðskiptavini sem Hampiðjan treystir. Allar gjafir og boð eiga að vera hóflegar og í samræmi við hefðbundna viðskiptahætti og ætið skal tilkynna þær til næsta yfirmanns. Allt starfsfólk Hampiðjunnar skal fara eftir öllum gildandi lögum og reglum um mútur og spillingu.
Starfsfólki ber að fara vel með eigur og fjármuni Hampiðjunnar og nota hvorutveggja einungis í þágu fyrirtækisins. Allt starfsfólk skal gæta þess að persónulegir hagsmunir stangist ekki á við starfsskyldur og trúnað gagnvart Hampiðjunni. Upplýsa skal næsta yfirmann um önnur störf eða fjárhagslega hagsmuni sem geta leitt til hagsmunaárekstra. Ef vafi leikur á um slíkt, eða hætta er á að óhlutdrægni skerðist, ber að leita ráða hjá yfirmanni.
Við fylgjum góðum viðskiptaháttum sem einkennast af fagmennsku, heiðarleika og sanngirni. Við gerum ekki samninga eða óformlegar samþykktir við keppinauta eða aðra markaðsaðila, né tökum þátt í háttsemi sem brýtur gegn heilbrigðri samkeppni. Við tryggjum trúnað um viðskiptaleyndarmál, samkeppnisnæmar upplýsingar og aðrar trúnaðarupplýsingar um Hampiðjuna og viðskiptafélaga sem við fáum vitneskju um í starfi okkar fyrir Hampiðjuna.
Við fylgjum gildandi lögum og reglum um verðbréfaviðskipti og kaupum eða seljum aldrei verðbréf á grundvelli innherjaupplýsinga. Við veitum öðrum ekki ráð um slík viðskipti og miðlum ekki innherjaupplýsingum til óviðkomandi aðila.
Hjá Hampiðjunni virðum við allar gildandi þvingunar- og refsiaðgerðir, bæði þær sem gilda á landsvísu og á alþjóðavettvangi.
Hampiðjan tryggir öllu starfsfólki öruggt vinnuumhverfi og lítur svo á að ábyrgðin á heilsu og öryggi sé sameiginleg. Heilbrigt starfsfólk er forsenda ábyrgrar og stöðugrar frammistöðu í störfum. Fyrirtækið fylgir gildandi lögum og kröfum um heilsu, öryggi og umhverfi (HSE) og tryggir heilnæmar og öruggar aðstæður á vinnustað með viðeigandi áhættugreiningum, fyrirbyggjandi aðgerðum og eftirliti.
Starfsfólk Hampiðjunnar sem verður vart við möguleg brot á siðareglum, öðrum tengdum stefnum eða gildandi lögum og reglum skal tilkynna það tafarlaust. Starfsmenn sem brjóta gegn siðareglunum, þar með talið þeir sem láta hjá líða að tilkynna brot, geta átt yfir höfði sér agaviðurlög, þ.m.t. starfslok.
Spurningar eða áhyggjur sem varða siðferðilega eða löglega háttsemi skulu að jafnaði tilkynnt næsta yfirmanni, þegar það á við. Einnig getur starfsmaður tilkynnt brot, eða grun um brot, í samræmi við verklag Hampiðjunnar Group um tilkynningar (whistleblowing) og meðferð frávika.
Hampiðjan leggur áherslu á að enginn sem í góðri trú tilkynnir brot skuli sæta refsiaðgerðum af hálfu fyrirtækisins eða annars starfsfólks.