Dótturfyrirtæki Hampiðjunnar meðal sýnenda á DanFish International
Danska sjávarútvegssýningin DanFish International verður haldin í Aalborg Kongres & Kultur Center í Álaborg dagana 9. til 11. október nk. Sýningin er sú 23. í röðinni frá árinu 1974 og hefur Hampiðjan eða dótturfyrirtæki félagsins verið meðal þátttakenda lengst af þeim tíma. Að þessu sinni er dótturfélag Hampiðjunnar í Danmörku, Cosmos Trawl, meðal sýnenda og munu starfsmenn þess fyrirtækis, auk starfsmanna Hampiðjunnar á Íslandi, sjá um að kynna helstu nýjungarnar sem Hampiðjan Group hefur upp á að bjóða.
,,DanFish er mjög góð sýning og kjörinn vettvangur fyrir fyrirtæki sem framleiða tæki og búnað fyrir sjávarútveginn,“ segir Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Cosmos Trawl, en að hans sögn verður mikil áhersla lögð á að kynna kosti DynIce ofurefnana á sviði veiðarfæragerðar að þessu sinni.
,,DynIce togtaugar og DynIce Data höfuðlínukapallinn hafa verið í stöðugri þróun undanfarin ár og viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Við erum búnir að selja DynIce togtaugar af ýmsum stærðum til útgerða meira en 100 fiskiskipa og það er samdóma álit manna að t.a.m. togtaugarnarnar séu mun hagkvæmari kostur en hefðbundnir togvírar. Þær eru mun léttari í drætti en hefðbundnir togvírar og fyrir vikið er olíukostnaður við veiðarnar minni. Umfram allt auðvelda togtaugarnir vinnuna um borð í skipunum, auka öryggi skipverja og síðast en ekki síst þá er ending þeirra fimmföld miðað við endingu togvíra,“ segir Haraldur Árnason.
Þess má geta að sýningarbás Cosmos Trawl á DanFish International sjávarútvegssýningunni í Álaborg er nr. D 871.