Jónas Þór Friðriksson hefur verið ráðinn sölustjóri neta og tóga hjá Hampiðjunni. Jónas Þór var áður sölustjóri togveiðideildar hjá Ísfelli um 20 ára skeið en feril sinn hóf hann hjá Netagerðinni Ingólfi þar sem hann lærði netagerð og starfaði um 14 ára skeið.
,,Ég er spenntur og ánægður með að vera kominn til starfa hjá Hampiðjunni. Þetta er mjög öflugt fyrirtæki og allt er mun stærra í sniðum en ég hef átt að venjast. Mitt starf, sem starfsmaður móðurfélagsins, felst í því að selja vörur frá hinni gríðarlega öflugu verksmiðju Hampiðjunnar í Litháen (Hampiðjan Baltic) til dótturfélaga og útibúa um allan heim. Ég held að fjöldi félaganna sé 25 eða 26 og starfsstöðvarnar eru 42 talsins,” segir Jónas Þór en hann segist því miður ekki hafa getað verið mikið með vinnufélögunum þennan fyrsta mánuð vegna veirusýkingarinnar.
,,Fyrstu þrjár vikurnar vann ég heima en ég hef nú verið viku á vinnustaðnum. Þegar ég var ráðinn blasti við að mikið yrði um ferðalög en síðustu vikur hafa kennt okkur að meta mikilvægi fjarfundabúnaðar. Það kemur þó ekki í veg fyrir að mannleg samskipti eru alltaf best. Með því að mæta á staðinn er auðveldara að byggja upp gagnkvæmt traust í stað þess að sitja eða standa fyrir framan tölvumyndavél,” segir Jónas Þór Friðriksson.
”Við erum afskaplega ánægð með að Jónas hefur ákveðið að koma til starfa hjá okkur og væntum mikils af samstarfinu í framtíðinni. Hann hefur mikla reynslu í veiðarfæragerð og af sölustjórnun ásamt mjög góðri þekkingu á þeim vörum sem við framleiðum og seljum og þekkir vel hvernig efnin hafa þróast undanfarna áratugi.” segir Hjörtur Erlendsson forstjóri.