,,Sumir töldu það hreina firru að hengja
rándýr veiðarfæri aftan í einhverja spotta“
Í þessum mánuði eru tíu ár liðin frá því að Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Hugin VE 55, tók 2 x 730 metra af 36 mm DynIce togtaugum um borð í skipið og reyndi þær í yfirborðsveiði á makríl og síld. Hampiðjan lagði til togtaugarnar og var Guðmundur Huginn með þær um borð fram á vorið 2007 en þá keypti hann heilan gang af DynIce togtaugum, 2 x 2000 metra langar.
,,Það er vert að að minnast þess að við reyndum togtaugarnar fyrst um borð í Árna Friðrikssyni RE í maímánuði 2006. Við tengdum togtaugarnar við togvíra skipsins til að kanna hvort væri hægt að nota þær án þess að taka áður allan togvírinn af vindunum.
Þetta gekk eftir án þess að taugarnar eða vírinn skemmdust við notkunina,“ segir Guðmundur Gunnarsson, þróunarstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni. Guðmundur segir að það hafi verið að undirlagi Guðmundar Bjarnsonar, skipstjóra á Árna Friðrikssyni, og Hjálmars heitins Vilhjálmssonar fiskifræðings hjá Hafrannsóknastofnun að leyfi fékkst til að prófa taugarnar í vorleiðangri skipsins.“
Léttleikinn og styrkleikinn kom á óvart
Guðmundur Huginn man vel eftir þessum tímamótum.
,,Okkur líkaði strax mjög vel við togtaugarnar og léttleiki þeirra og styrkleiki kom okkur verulega á óvart. Það voru ekki allir sem höfðu trú á togtaugunum og sumir töldu það hreina firru að hengja rándýr veiðarfæri aftan í einhverja spotta og treysta þeim til að slitna ekki og hverfa með verðmætunum í djúpið,“ segir Guðmundur Huginn sem upplýsir að aðeins einu sinni á þessum tíu árum hafi togtaug slitnað hjá Hugin VE.
Guðmundur Huginn Guðmundsson skipstjóri |
,,Endingin á togtaugunum virðist vera einstaklega mikil og við erum t.d. bara einu sinni búnir að skipta um taugar á þessum tíu árum. Það sá ekki á taugunum en við þorðum ekki öðru en að skipta. Um leið fékk ég sömuleiðis 2 mm sverari taugar og við eigum nú taugar sem við getum notað í grandara næstu áratugina. Þetta er einfaldara með vírana. Þeir ryðga og maður sér strax hvenær skipta á þeim út. Líftími víra er líka miklu styttri en togtauganna.“
Togtaugarnar um borð í Hugin VE eru mest notaðar í yfirborðsveiði og Guðmundur Huginn segir ekki óalgengt að um 370 metrar af taugum séu úti á slíkum veiðum.
,,Við höfum líka notað DynIce togtaugarnar á djúpsjávarveiðum þegar verið er að veiða kolmunna og þá eru 1100 til 1650 metrar af taugum í sjó hverju sinni,“ segir Guðmundur Huginn en að sögn hans var það önnur bylting í veiðarfæratækninni að fá DynIce Data höfuðlínukapalinn til að nota með taugunum.
,,Þetta smellpassar saman því floteiginleikinn er sá sami. Við vorum alltaf í bölvuðum vandræðum með vírakapalinn og þá sérstaklega ef beygt var með trollið. Við lentum oft í því á kolmunnaveiðunum að vírakapallinn sökk í beygjum undir taugarnar þannig að hætta var á skemmdum. Þetta er ekki vandamál eftir að við fengum DynIce Data höfuðlínukapalinn. Það sér ekki á honum og endingin virðist vera margföld ef miðað er við vírakapalinn sem endist að hámarki í tvö ár.“
Minni hlerar – meiri olíusparnaður
Að sögn Guðmundar Hugins er öll vinna um borð miklu léttari og hreinlegri eftir að togtaugarnar leystu togvírana af hólmi.
,,Okkur reiknast til að taugarnar séu 22 tonnum léttari en sambærilegt magn af vírum. Þetta hefur mikil áhrif um borð í skipum þar sem spilin eru staðsett ofarlega og aftarlega á skipinu. Við fundum það hjá okkur að skipið gengur hraðar en mestu áhrifin eru fyrir mjórri skip en okkar, sem er 14 metra breið. Þau verða stöðugri við það að þyngdarpunkturinn færist neðar og þau verða hraðskreiðari.
Þá er ótalinn sá kostur að hægt er að nota minni hlera en með sama árangri og þá stærri. Það skilar sér ótvírætt í minni eldsneytiseyðslu því það eru hlerarnir sem skapa mestu mótstöðuna í sjónum,“ segir Guðmundur Huginn Guðmundsson en hann telur að endingartími DynIce togtauganna sé að lágmarki fimm ár og þegar þeim sé skipt út með réttu eða röngu þá eigi menn efni í grandara til eilífðar.