Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey RE, hefur um árabil unnið náið með veiðarfærahönnuðum Hampiðjunnar með það að markmiði að auka skilvirkni togveiðarfæranna. Fyrir vikið hafa Eiríkur og hans menn reynt margs konar troll útfærslur fyrstir manna. Um þetta er fjallað í aprílblaði Hook & Net. mag.hookandnet.com og birtist greinin hér í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi höfundar.
Trollpokar úr T90 netaefni hafa verið í notkun um borð í Akurey um töluvert skeið með góðum árangri. Hugmyndir vöknuðu svo um það haustið 2013 hvort ekki væri hægt að breyta trollpokunum í því skyni að auka hæfni þeirra til að skilja frá óæskilegan afla og þá aðallega smáfisk.
,,Ég ræddi þessi mál við Guðmund Gunnarsson hjá Hampiðjunni og hann spurði mig að því hvort ég hefði áhuga á að reyna T90 trollpoka í 155 mm möskva sem felldir væru á svokallaðar DynIce Quicklines eða ,,kvikklínur“ frá Hampiðjunni. Mér skildist reyndar að þessar ,,kvikklínur,“ sem framleiddar væru með lykkjum, hefðu upphaflega verið ætlaðar fyrir eitthvað allt annað. En svona er Guðmundur. Ef hann sér eitthvað nýtt þá veltir hann alltaf fyrir sér hvernig hægt sé að finna not fyrir það í önnur verkefni,“ segir Eiríkur.
Sú aðferð að fella pokann á ,,kvikklínur“ í stað hins hefðbundna ferlis krefst annars konar nálgunar og nýrrar hugsunar. Með þessu er tryggt að megin átakið er á talsvert styttri línum og fyrir vikið opnast möskvarnir fullkomlega. ,,Við þurftum að huga að ýmsu við þessa breytingu en þetta hefur skilað okkur góðum árangri og við erum hvergi nærri hættir. Við höfum gott svigrúm til að prófa okkur áfram og höfum reyndar reynt fjöldann allan af útfærslum. Tilfinningin er sú að við hver tvö skref fram á við færist maður eitt afturábak og það er ekki slæmur árangur,“ segir Eiríkur.
Upphaflegi T90 155mm pokinn – allt fiskur af góðri stærð
Velgengni T90 trollpokans, sem felldur er á ,, DynIce kvikklínur,“ er umtalsverð. Möskvarnir eru fullopnir á togi og nánast allur undirmálsfiskur syndir óskaddaður úr pokanum. Það þýðir að aflinn, sem berst inn á dekk, hentar nánast allur til vinnslu.
,,Það er mjög auðvelt að vinna með þessa trollpoka. Netaefnið er pantað í fyrirfram ákveðinni stærð með sérstökum DynIce styrktarmöskvum. Það er saumað saman hjá Hampiðjunni og lykkjurnar eru þræddar í gegnum DynIce styrktarmöskvana. Að mínu mati, er þessi nýi trollpoki byltingarkennd nýjung. Hann kostar vissulega meira en hefðbundnir pokar en á móti kemur að hann er nánast viðhaldsfrír. Við erum núna að nota fjögurra byrða 155 mm T90 skálmapoka, sem Hermann Guðmundsson hjá Hampiðjunni á Akureyri hannaði fyrir okkur, í þorskveiðinni og hann virkar jafnvel betur en fyrsti 155mm T90 pokinn,“ segir Eiríkur.
Með tvískiptum skálmapoka minnkar þrýstingur á fisknum um helming í hvorum pokanum fyrir sig. Slæging, flokkun og frágangur aflans gengur mun hraðar fyrir sig hjá áhöfn skipsins og hjá fiskvinnslu HB Granda í landi ríkir mikil ánægja með enn betri gæði aflans.“
Valið á hagkvæmustu möskvastærðinni
Að sögn Eiríks hafa verið gerðar tilraunir með að nota 110 mm T90 möskva á karfaveiðum því það sé mat margra að núverandi lágmarksstærð riðils í 135 mm karfapoka, valdi því að of mikið af vinnsluhæfum karfa sleppi í gegnum netið.
,,Þennan fisk sér maður fljóta dauðan í burtu. Fisk sem við erum búnir að verja tíma og olíu í að veiða. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur vilji smáan riðil til að eiga hægar um vik að veiða smáfisk. Vinnslan vill hann ekki frekar en sölufyrirtækin. Viðhorf manna eru að breytast en fyrir okkur skiptir mestu máli að geta valið hagkvæmustu möskvastærðina fyrir hvert verk,“ segir Eiríkur.“