Index: 0

Hampiðjan gengur frá kaupum á tveimur félögum í Skotlandi

20.02.2020

Hampiðjan hefur í dag skrifað undir samkomulag um kaup á 80% hlut í skosku félögunum Jackson Trawl Limited og Jackson Offshore Supply Limited í Peterhead í Skotlandi.

Jackson Trawl er leiðandi í sölu veiðarfæra á Bretlandseyjum og Jackson Offshore selur einkum kaðla, lyftistroffur og járnavöru til olíuiðnaðarins í Skotlandi.  

Seljendur eru bræðurnir Mark og Stephen Buchan og fjölskyldur þeirra en bræðurnir hafa stjórnað fyrirtækjunum undanfarna áratugi af mikilli vandvirkni og röggsemi eftir að faðir þeirra Arthur Buchan dró sig í hlé vegna aldurs. Faðir hans, John Buchan, stofnaði fyrirtækið 1962 og fyrirtækið verður því 58 ára á þessu ári. Þeir bræður munu stýra fyrirtækjunum eftir sem áður.

Töluverð samlegðaráhrif eru af kaupunum fyrir Hampiðjuna og sem munu koma fram á þessu ári og þeim næstu.  Viðskiptavinir beggja félaganna í Skotlandi munu njóta góðs af kaupum Hampiðjunnar því með þeim fá félögin aðgang að tækniþekkingu og vörum Hampiðjunnar í veiðarfærum og sérútbúnum vörum fyrir olíuiðnaðinn.

Öllum skilyrðum kaupsamnings vegna hlutanna hefur verið aflétt og er miðað við að félögin komi inn í samstæðuuppgjör Hampiðjunnar frá 1. janúar 2020.

Kaupverð hlutanna nemur rúmum 9,7 m.EUR og er fjármagnað með láni frá Arion banka hf. að fjárhæð 6,4 m.EUR ásamt handbæru fé Hampiðjunnar hf.

Engin langtímalán eru í félögunum um áramótin en skammtímaskuldir í félögunum nema 1,2 m.EUR. Heildareignir félaganna nema samtals um 8,0 m.EUR og þar af er handbært fé að fjárhæð rúmar 4,3 m.EUR. Áætluð velta félagsins á árinu 2020 er um 7,2 m.EUR og áætluð EBITDA nemur um 1,6 m.EUR.

Með þessum kaupum styrkir Hampiðjan stöðu sína enn frekar við N-Atlantshaf sem er mikilvægasti markaður samstæðunnar.  Innan landhelgi Stóra-Bretlands eru auðug fiskimið þar sem verðmætustu tegundirnar eru makríll, kolmunni og sandsíli en skip frá Evrópubandalaginu hafa veitt meirihluta aflans undanfarin ár.  Það gæti breyst með samningum í kjölfar Brexit en Hampiðjan hefur hins vegar með þessum kaupum tryggt stöðu sína óháð því á hvorn veginn sem þeir samningar fara í framtíðinni.

Nánari upplýsingar veitir:
Hjörtur Erlendsson
Forstjóri Hampiðjunnar
Sími 6643361

Please fill in the below details in order to view the requested content.