Index: 0

Hampiðjan lýkur við kaup á spænsku netaverkstæði

11.07.2018

Í tilkynningu þann 15. júní síðastliðinn tilkynnti Hampiðjan að félagið hefði gengið frá kaupum á 100% eignarhlut í spænska félaginu Tor-Net LP, SL í Las Palmas á Gran Canaria. Kaupverðið nemur 5,85 milljónum evra og eru áhrif kaupanna á EBITDA samstæðunnar áætluð um 1,0 milljón evra á ári þegar fullum samlegðaráhrifum hefur verið náð. Kaupin eru fjármögnuð með láni frá Arion banka hf. að fjárhæð 4,4 milljónir evra ásamt handbæru fé Hampiðjunnar.

Öll skilyrði kaupsamnings vegna hlutanna hafa nú verið uppfyllt og mun Hampiðjan taka yfir rekstur félagsins á næstu dögum.

Engin langtímalán eru í félaginu og einu skuldirnar eru birgjaskuldir til efnisframleiðanda að upphæð 0,64 milljónir evra. Efnahagsreikningurinn var um síðustu áramót 3,72 milljónir evra. Velta félagsins í ár er áætluð um 4,0 milljónir evra. Gert er ráð fyrir að rekstur Tor-Net LP, SL komi inn í samstæðuuppgjör Hampiðjunnar frá 1. júlí 2018.

Eftir kaupin mun Hampiðjan geta veitt útgerðarfélögum á Kanarí og í Afríku mun betri þjónustu en áður með eigin netaverkstæði ásamt annarri vörusölu.

Deloitte var ráðgjafi seljanda í ferlinu.

Nánari upplýsingar veitir:
Hjörtur Erlendsson 
Forstjóri Hampiðjunnar
Sími 6643361

Please fill in the below details in order to view the requested content.