Index: 0

Niðurstaða aðalfundar Hampiðjunnar sem haldinn var 8. apríl sl.

11.04.2011

Á aðalfundi Hampiðjunnar hf. sem haldinn var 8. apríl, var skýrsla stjórnar og ársreikningur fyrir árið 2010 samþykkt samhljóða.

Sjálfkjörið var í félagsstjórn. Formaður félagsstjórnar:

Bragi Hannesson

Meðstjórnendur:

Árni Vilhjálmsson

Jón Guðmann Pétursson

Kristján Loftsson

Sigurgeir Guðmannsson

Eftirfarandi tillögur stjórnar Hampiðjunnar voru samþykktar: 

1.       Tillaga um greiðslu arðs.

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. haldinn 8. apríl 2011 samþykkir að greiddur verði arður til hluthafa að upphæð kr. 74.488.958, sem er 1,3% af eigin fé Hampiðjunnar hf. í árslok. Arðurinn verði greiddur í viku 18. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 8. apríl, þ.e. viðskipti sem fara fram á þeim degi koma fram í hlutaskrá félagsins á arðsréttindadeginum 13. apríl. Arðleysisdagurinn er 11. apríl.    

2.       Tillaga um þóknanir fyrir liðið starfsár.

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. samþykkir að þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið ár verði kr. 700.000, formaður fái þrefaldan hlut.

3.       Tillaga um endurskoðunarfélag.

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. kýs PricewaterhouseCoopers hf. endurskoðunarfélag félagsins. 

4.       Tillaga um heimild til kaupa á eigin hlutabréfum.

Aðalfundur Hampiðjunnar hf. haldinn 8. apríl 2011 veitir stjórn félagsins heimild til að kaupa eigin hluti í félaginu. Heimild þessi stendur í 18 mánuði og takmarkist við að samanlögð kaup fari ekki yfir 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Kaupverð hluta skal vera hæst 15% yfir síðasta þekktu söluverði á First North markaðinum áður en kaup eru gerð.

5.       Tillaga um breytingar á samþykktum.

8.gr.

Hluthafafundur er lögmætur, ef til hans hefur verið boðað á þann hátt, sem samþykktir þessar og lög mæla fyrir um.

Til hluthafafundar skal félagsstjórnin boða með auglýsingu í útbreiddum fjölmiðlum. Skal fundur boðaður með minnst viku fyrirvara en lengst fjögurra vikna fyrirvara, aðalfund skal þó boða með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal greina málefni þau, sem taka á til meðferðar á hluthafafundi. 

9.gr.

Aðalfund skal halda fyrir lok júnímánaðar ár hvert. Hluthafafund skal halda, þegar félagsstjórn telur þess þörf. Þá skal boða til hluthafafundar innan tveggja vikna, ef endurskoðandi eða hluthafar, sem ráða yfir minnst 1/20 hlutafjárins, krefjast þess skriflega og greina frá fundarefni.

10.gr.

Sérhver hluthafi á rétt á því að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á hluthafafundi, ef hann gerir skriflega kröfu um það til félagsstjórnar með það miklum fyrirvara, að unnt sé að taka málið á dagskrá fundarins.

Viku fyrir hluthafafund, en tveimur vikum fyrir aðalfund, hið skemmsta skal dagskrá, endanlegar tillögur, svo og ársreikningur, skýrsla stjórnar og skýrsla endurskoðanda, sé um aðalfund að ræða, lögð fram hluthöfum til sýnis á skrifstofu félagsins.

15.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum. Formanni, sem hluthafafundur kýs sérstaklega, og fjórum meðstjórnendum. Skulu þeir kosnir til setu í stjórn fram að næsta aðalfundi.

Tilkynna skal skriflega, skemmst fimm dögum fyrir hluthafafund, þar sem kjósa á félagsstjórn, um framboð til stjórnar og stjórnarformanns.

Í tilkynningu um framboð skal gefa, auk nafns frambjóðanda, kennitölu og heimilisfangs, upplýsingar um aðalstarf, önnur stjórnarstörf, menntun, reynslu og hlutafjáreign í félaginu. Þá skal einnig upplýsa um hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins, sem og hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í félaginu.

Starfsmenn, stjórnendur og hluthafar samkeppnisaðila, og félaga sem eru tengd samkeppnisaðila, sbr. lög um ársreikninga, mega ekki setjast í stjórn félagsins. Sama á við um einstaklinga sem eru nákomnir fyrrgreindum aðilum.

Félagsstjórn skal fara yfir framboðstilkynningar og úrskurðar um það hvort aðili uppfylli skilyrði til framboðs og hæfi. Við úrlausn um skilyrði og hæfi til stjórnarsetu getur stjórnin krafið frambjóðanda um frekari upplýsingar og gögn, hvort sem er til að bæta úr göllum á framboði eða til skýringa á hæfi. Niðurstaða um gildi framboðs skal liggja fyrir eigi síðar en tveimur dögum fyrir hluthafafund.

Unnt er að skjóta niðurstöðu félagsstjórnar um að hafna framboði, vegna formgalla eða vegna vanhæfis, til hluthafafundar sem fer með endanlegt úrskurðarvald um gildi framboðs.

Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar hlutafélags skulu lagðar fram hluthöfum til sýnis á skrifstofu félagsins eigi síðar en tveimur dögum fyrir hluthafafund.

Please fill in the below details in order to view the requested content.