HLUTAFJÁRÚTBOÐ 2023
Um hlutafjárútboð Hampiðjunnar hf.
Um hlutafjárútboð Hampiðjunnar hf.
Reykjavík, Ísland, 24. maí 2023 – Hampiðjan („félagið“), leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í þróun, sölu og þjónustu á framúrskarandi veiðarfærum til fiskiskipa, búnaði til fiskeldis og þróun og framleiðslu á ofurköðlum, hefur birt lýsingu vegna almenns útboðs og fyrirhugaðrar skráningar á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.
„Hlutabréf Hampiðjunnar hafa verið skráð á íslenskan hlutabréfamarkað í einni eða annarri mynd í hartnær fjóra áratugi. Það er okkur því mikið ánægjuefni að tilkynna um fyrirhugaða töku til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland, samhliða almennu útboði á nýju hlutafé til að styðja við kaup Hampiðjunnar á norska félaginu Mørenot. Andvirði hlutafjárútboðsins mun nýtast í þeim tilgangi að endurskipuleggja skuldir Mørenot og fjármagna frekari uppbyggingu á framleiðslueiningum Hampiðjunnar til að nýta þau miklu samlegðartækifæri sem felast í kaupunum. Hampiðjunni hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum áratug og hafa tekjur margfaldast á tímabilinu með fyrirtækjakaupum og innri vexti. Hampiðjan er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu, þróun og þjónustu við veiðarfæri, fiskeldi og útsjávariðnað. Með hlutafjáraukningu og kaupum á Mørenot styrkist sú staða umtalsvert og gefur okkur tækifæri til enn frekari vaxtar á helstu mörkuðum félagsins.“
Arion banki hf. hefur umsjón með almenna útboðinu og töku hlutabréfa félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland hf.
Nánari upplýsingar um Hampiðjuna, hlutabréf félagsins og skilmála útboðsins má finna í lýsingu félagsins sem dagsett er 24. maí 2023 auk fjárfestakynningar sem birt hefur verið á www.arionbanki.is/hampidjan.