Skip to main content

Hampiðjan er meðal stærstu sýnenda á Iceland Fishing Expo/Sjávarútvegur 2025, sem nú fer fram í Laugardalshöll. Fjöldi sýningargesta hefur þegar lagt leið sína að básum fyrirtækisins og þar ríkir lífleg og góð stemning.

Flow Gear.

Helstu nýjungar í ár eru Flow Gear hálfhringshopparar sem koma í stað hefðbundinna rockhopper á botntrollum. Straumlínulagað form hálfhringslengjunnar dregur úr mótstöðu í vatni og á sjávarbotni, sem minnkar álag og dregur úr orkunotkun við veiðar.  Einnig er Helix Robus kaðallinn kynntur en hann er ný útgáfa af hinum vinsæla Helix kaðli með Robus ofurkjarna. Kjarninn í hefðbundnum Helix kaðli er nylon en með nýjum Robus ofutógskjarna úr 12-þráða fléttuðu HMPE (High-Modulus Polyethylene) reipi má ná sama styrk í mun grennri Helix kaðli og þar með minnka togviðnám trollsins og auka toghraða.

Ásamt þessum áherslum eru einnig kynntar nýjustu gerðir Thyborøn-trollhlera, sem tryggja stöðugri og skilvirkari togveiði og fjölbreytt úrval af útgerðarvörum  – vinnufatnaður, stígvél, hreinsibúnaður og sérhæfð olíu- og smurefni fyrir matvælaframleiðslu – svo fátt eitt sé nefnt.

Gestir virða fyrir sér módel af nýrri hönnun á fiskeldiskvíum.

Gestir á sýningunni geta einnig kynnt sér nýja hönnum á þremur gerðum af fiskeldiskvíum sem hlutu bæði verðlaun og mikla athygli á AquaNor-sýningunni í Noregi síðastliðið sumar.

MarWall – hálflokuð kví með gegndræpum hliðum sem ná 18 metra niður. Lausnin dregur úr útbreiðslu laxalúsar, bætir súrefnismettun og stuðlar þannig að betri velferð og hraðari vexti fisksins.

MarDeep – niðursökkvanleg kví sem hægt er að halda 20–25 metrum undir yfirborði þar sem straumar og hitastig eru jafnari og hvorki laxalús né eitraðir þörungar valda vandkvæðum.

BioSeize – safnkerfi sem nýtir keilulaga net undir kvínni og vakúmdrifna dælutrekt til að safna úrgangi og óétnu fóðri sem fellur niður. Safnefnið er endurnýtt til áburðarframleiðslu, sem dregur úr mengun og skilar verðmætum hráefnum.