Gerast áskrifandi

Index: 0

Allt að fimm sinnum lengri endingartími DynIce togtauga en á stálvír á Finni Fríða FD 86

21.04.2021

„Við höfum verið afskaplega ánægðir með DynIce togtaugarnar frá Hampiðjunni alveg frá því við tókum þær fyrst í notkun árið 2007. Togtaugarnar hafa reynst afar vel við uppsjávarveiðarnar í  gegnum árin og  haft að meðaltali 7 ára endingartíma sem er  hreint afbragð miðað við 1½ árs endingartíma á stálvír í sama sverleika og slitþoli. Við erum enn með eldri taugarnar undir og ætlum að hífa og raða nýju togtaugunum inn á sterkbyggðar og traustar Brattvaag togvindurnar sem þola vel þau átök sem myndast við að nota togtaugarnar, eftir að kolmunnaveiðinni lýkur á komandi sumarmánuðum,” segir Andri Hansen skipstjóri á Finni Fríða sem nýlega keypti þriðja settið af 2 x 2300 m af  38 mm togtaugum frá Hampiðjunni.


Skipið er í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins VARÐIN í Götu  í Færeyjum.
“Togtaugarnar hafa alveg staðið undir því sem við sögðum við Hampiðjuna þegar við byrjuðum með þær í upphafi að þær liggja í beinni línu í hlerana og styggja því ekki torfuna áður en hlerarnir og trollið koma að henni en aftur á móti liggja stálvírar  í bugt niður og upp í hlerana og það er ástæðan fyrir því að lóðningarnar skila sér betur í  trollið með togtaugunum. Í makrílveiðinni uppi í  yfirborði er mjög  auðvelt að vinna flottrollið upp á hafflötinn að sumri til þegar makríllinn er á 40 til 50 metra dýpi frá yfirborði.
Við náum að slaka út mun meira af togtaugum en ef værum með stálvíra og náum með því mjög góðri opnun lárétt í trollið. Þá kemur það oft fyrir að togtaugarnar eru alveg upp úr sjónum þegar hlerarnir eru mjög ofarlega í sjónum eða uppi í yfirborðinu. Það er vegna þess að togtaugarnar eru um það bil fjörutíu sinnum léttari í  sjó en stálvírinn. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að það er sama og ekkert viðhald á togblökkum og togrúllum skipsins vegna léttleika togtauganna,” segir Andri Hansen.

“Að sama skapi höfum við þurft að vera með 200 til 400 m lengri togtaugar en víraskipin þegar við fiskum á miklu dýpi eins og til  dæmis við kolmunnaveiðarnar niður á 600 metra dýpi. Þá höfum við einnig verið með 1000 til 1500 kg þyngri lóð en víraskipin til að ná eðlilegri opnum á trollopið á þessu mikla dýpi.


Hvað varðar samanburð á að nota DynIce togtaugar eða stálvír á toginu í sama sverleika að þá er greinilegt að það er léttara að toga með togtaugunum heldur en með stálvírum og þar af leiðandi lægri olíu- kostnaður á klst. við veiðarnar.  Ég held að það sé óhætt að segja að það hafi marg borgað sig í hagkvæmari rekstri að fjárfesta í DynIce togtaugum fyrir útgerðina á sínum tíma,” segir Andri Hansen skipstjóri á Finni Fríða að lokum.

Please fill in the below details in order to view the requested content.