Gerast áskrifandi

Index: 0

Allur fiskur lifandi úr trollinu.

28.01.2019

,,Við fengum þessa nýju fjögurra byrða skálmapoka í fyrrahaust. Reynslan af notkun þeirra er mjög góð. Við notuðum skálmapoka hér áður fyrr en það var fyrst árið 2013 að við fengum nýjan trollpoka með T90 neti og DynIce kvikklínum. Þeir voru fjögurra byrða og skiluðu umtalsvert betra hráefni en menn voru vanir að fá. Þessir nýju skálmapokar skila  enn betra hráefni  og það er allra hagur.“
Þetta segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, sem er einn hinna nýju og glæsilegu togara HB Granda.

Skálmapokarnir frá Hampiðjunni eru með T90 neti, möskvastærð 155 mm og eru þeir felldir á svokallaðar DynIce kvikklínur.  Pokarnir eru fjögurra byrða, sem er nýjung, og er hönnuður þeirra Hermann H Guðmundsson, netagerðarmeistari og rekstrarstjóri Hampiðjunnar á Akureyri. Pokinn er tvískiptur og lítur út eins og buxnaskálmar.

Markmiðið með hönnun pokans er að auka gæði aflans og það næst fram með því að möskvarnir opnast mun betur en menn eiga almennt að venjast. Fyrir vikið minnkar þrýstingur á fiskinn í pokanum og gæði hráefnisins aukast að sama skapi.
Eiríkur Jónsson féllst fúslega á að miðla af reynslu sinni og segja frá notkun skálmapokanna um borð í Akurey.


,,Við notuðum  lengi vel skálmapoka hér áður fyrr og yfirleitt virkuðu þeir mjög vel. Maður gat þó lent í vandræðum ef hölin voru of stór. Þá gerðu pokarnir meira ógagn en gagn. Í dag ætti hins vegar ekkert að koma á óvart. Veiðarfæratækninni hefur fleygt svo mikið fram og aflanemar og pokasjár gefa oftast mjög góða mynd af innkomunni í trollið. Með tilkomu T90 netsins frá Hampiðjunni og hinum svokölluðu DynIce kvikklínum varð hins vegar byltingarkennd breyting á trollpokunum. Pokinn opnaðist mun betur en við vorum vanir og smár fiskur skildist lifandi út og gæðamunurinn var ótvíræður í samanburði við hefðbundna tveggja byrða pokann. Með fjögurra byrða T90 neti og DynIce kvikklínum í skálmapokunum er munurinn enn meiri, að mínu mati. Í hæfilega stórum  hölum er allur fiskur lifandi þegar hann kemur um borð og það skiptir gríðarlegu máli hvað gæðin varðar,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks hafa Akureyjarmenn, sem flestir voru áður í áhöfn Sturlaugs H. Böðvarssonar AK, átt mjög gott samstarf við Hampiðjuna og Hermann Guðmundsson netagerðarmeistara og hefur sú eina breyting verið gerð á skálmapokum Akureyjar að búið er að lengja þá úr 16,5 metrum í 20,0 metra en það er sú lengd sem við erum vanir að nota.
,,Trollin sem við notum, eru einnig hönnuð af Hermanni. Þau eru af gerðinni Hemmer 470 og það er T90 net í öllu trollinu. Þessi troll sem og skálmapokarnir hafa reynst okkur ákaflega vel og ég heyri ekki annað en að mikill áhugi sé á að færa sig yfir í notkun á fjögurra byrða skálmapokum,“ segir Eiríkur Jónsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.