Gerast áskrifandi

Index: 0

Búist við fjölmenni í ferð Hampiðjunnar til Hirtshals

20.11.2013

Búist við fjölmenni í ferð Hampiðjunnar til Hirtshals

Dagana 4. til 6. desember nk. mun Hampiðjan standa fyrir hinni árlegu kynningu sinni á veiðarfærum fyrirtækisins í tilraunatanknum í Nordsjöcenter í Hirtshals í Danmörku. Ferðin í tilraunatankinn í Hirtshals hefur verið fastur liður í starfsemi Hampiðjunnar um árabil. Auk kynningar á því hvernig veiðarfærin virka við sem raunverulegastar aðstæður verða haldnir fyrirlestrar um þróun í gerð veiðarfæra og -efna og kynningar á hinum ýmsu framleiðsluvörum sem Hampiðjan og samstarfsaðilar fyrirtækisins bjóða upp á. 
,,Skráð þátttaka nú um miðjan nóvember var kominn vel á fjórða tuginn og að þessu sinni verða gestirnir frá hinum ýmsu heimshornum,“ segir Haraldur Árnason, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni. 
,,Fulltrúar íslenskra útgerða verða að vanda fjölmennir en auk þess fáum við gesti frá Færeyjum, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Spáni, Hollandi, Bandaríkjunum, Rússlandi og Suður-Ameríkuríkjum. Enn er að bætast við hópinn en margir skipstjórnar- og útgerðarmenn taka oft ákvarðanir með stuttum fyrirvara hvað varðar þátttöku sína. Ræðst það m.a. af því hvenær skipin eru í landi og menn eiga heimangengt. Oftast er það svo að að nokkuð stór hópur skráir sig til þátttöku síðustu dagana áður en ferðin er farin.“

Nýtt Gloríu breiðtoll og ný loðnunót

Að sögn Haraldar verður dagskráin fjölbreytt að þessu sinni. 
,,Meðal nýjunga má nefna nýtt ,,Gloríu 1760m Super Wide“ breiðtroll sem sérstaklega er ætlað til veiða á makríl. Þessi nýja útfærsla er búin að vera á teikniborðinu í nokkurn tíma og verður í hlutföllum einn á hæð á móti fjórum á breidd. Í dag eru þessi troll í hlutföllunum einn á móti þremur. Núverandi troll ná 45 metra hæð og 160 metra milli vængenda en nýja útfærslan verður með 215 m milli vængenda en svipaða hæð og fyrr og með því er vonast til að hægt sé að draga verulega úr aukaafla, s.s. síld, með makrílnum. 
Sömuleiðis munum við sýna loðnunót í tankinum sem er afar sjaldgæft. Umrædd nót vakti mikla athygli í fyrra enda hefur hún reynst afar vel og bíða margir spenntir eftir að sjá virkni hennar í tanknum. Einnig verða kynntar nýjungar í trollpokum og botntrollum við þetta tækifæri. Starfsmenn DSM frá Hollandi, sem er framleiðandi Dyneema þráða , verða með fyrirlestra yfir nýjungar í þróun slíkra efna. DynIce togtaugar eru búnar til úr Dyneema þráðum og hafa þær náð miklum vinsældum víða um heim. Loks má nefna að fulltrúi toghleraframleiðandans Thyboron í Danmörku verður með fyrirlestur um notkun flottrollshlera við botntroll en sú aðferð er að ryðja sér til rúms víðs vegar í Evrópu og Ameríku,“ segir Haraldur Árnason.
Þátttakendurnir frá Íslandi munu fljúga utan þann 3. desember en brottför heim verður þann 7. desember. Nánari upplýsingar  um ferðina og ferðatilhögun er að finna á meðfylgjandi tengli: Tankbod islenska 2013.pdf

Please fill in the below details in order to view the requested content.