Gerast áskrifandi

Index: 0

Byrjar í nýja starfinu að hætti sjómanna

9.03.2020

Einar Pétur Bjargmundsson var nýlega ráðinn sölustjóri veiðarfæra hjá Hampiðjan Ísland við hlið Kristins Gestssonar skipstjóra og Magnúsar Guðlaugssonar veiðarfærameistara.  
Einar er menntaður vélstjóri og hóf  störf fyrir um 30 árum hjá Haraldi Böðvarssyni hf. sem síðan sameinaðist Granda hf. undir nafninu HB Grandi hf. og varð síðar Brim hf. Hann hefur verið rekstrarstjóri veiðarfæra undanfarna áratugi og þekkir því afar vel til bæði botn- og flottrolla.


"Eftir langt og farsælt starf hjá sama fyrirtækinu langaði mig að breyta til og gera eitthvað nýtt en þó tengt því sem ég hef verið að gera undanfarna áratugi. Hjá Hampiðjunni mun starf mitt felast í því að halda við þeim tengslum sem ég hef aflað mér í samskiptum við bæði botntrolls- og uppsjávarflotann hér við land þar sem allir þekkja alla. Núna verð ég hinum megin borðsins ef svo má segja og hlakka til að takast á við krefjandi, tilbreytingarríkt og skemmtilegt markaðs- og sölustarf hér í Hampiðjunni," segir Einar.


"Margir vina minna meðal skipstjóranna báðu mig fyrir alla muni að byrja ekki í nýja starfinu á mánudeginum 2. mars, heldur næsta dag,  á þriðjudeginum eins og venjan hefur verið á fiskiskipum hér til sjós um áratuga skeið. Ég hlýtti þeirra leiðsögn algerlega út í ystu æstar og vona að það gefi mér gott brautargengi í nýja starfinu hjá Hampiðjunni."


"Það er okkur mikið ánægjuefni að fá Einar til liðs við okkur enda þekkir hann veiðarfæramarkaðinn vel eftir áratuga reynslu á því sviði og ekki spillir það fyrir að hann er með eindæmum hress og skemmtilegur.  Hann mun eflaust falla vel inn í hóp reyndra og vandaðra starfsmanna Hampiðjunnar og hjálpa okkur að þjónusta viðskiptamenn okkar á sem bestan máta," segir Jón Oddur Davíðsson framkvæmdastjóri Hampiðjan Ísland.

Please fill in the below details in order to view the requested content.