Gerast áskrifandi

Index: 0

DynIce Data splæsið svínvirkar!

18.09.2014

DynIce Data splæsið svínvirkar!

,,Ég var einn af þeim fyrstu til að nota DynIce data höfuðlínukapalinn. Fyrst byrjaði ég með 1.000 metra kapal en við lentum í ákveðnu slysi og kapallinn fór í sundur í miðjunni. Hampiðjumenn hafa nú þróað samsetningarsplæs fyrir DynIce Data og það endaði með því að við gerðum heiðursmannasamkomulag um að Hampiðjan myndi ,,splæsa“ 400 metrum af DynIce data við útendann á nýjustu útgáfu af 1.900 metra kapli frá þeim, sem ég var þá kominn með.Þetta hafði aldrei verið gert áður og menn voru óvissir með útkomuna.

Til að gera langa sögu stutta þá er reynslan sannarlega góð frá því í byrjun júlí sl. og ég get fullyrt að þessi aðferð svínvirkar.“

Þetta segir Sturla Einarsson, skipstjóri á grænlenska uppsjávarveiðiskipinu Tasilaq en það hét áður Guðmundur og bar einkennisstafina VE 29. Sturla er nú með skipið á veiðum á norsk-íslenskri síld í grænlenskri lögsögu norður af Melrakkasléttu.

,,Það lóðar á síld á mjög mörgum stöðum en vandinn er sá að síldin er dreifð og virðist ekki hafa þétt sig í æti. Við erum enn, sem komið er, bara með litla makríltrollið okkar en ég er sannfærður um að það væri hægt að fá mjög góðan afla með stóru Gloríu þantrolli sem dregið væri af tveimur skipum,“ segir Sturla en þess má geta að allur aflinn er unninn um borð og nemur afkastagetan í flakafrystingu á síld um 135 tonnum á sólarhring. Það þýðir að skipið þarf að veiða sem svarar u.þ.b. 270 tonnum af síld á sólarhring.

Misstu trollið niður

Ekki er hægt að skilja við Sturlu án þess að geta óhapps sem varð á makrílveiðum Tasilaq og Tuneq, sem áður nefndist Þorsteinn ÞH, fyrr í sumar.
,,Svo illa vildi til að fótreipið slitnaði mín megin og við misstum trollið og höfuðlínukapalinn niður í djúpið. Ég er ekki frá því að mönnum hafi verið brugðið á dekkinu þegar kapallinn húrraðist út af kapalvindunni með tilheyrandi látum. En allt fór þó vel að lokum. Við náðum upp endanum okkar megin og björguðum hvort tveggja trollinu og kaplinum,“ segir Sturla en hann segist ekki í vafa um að kostir DynIce togtauga og höfuðlínukapalsins séu það sem menn horfa til í náinni framtíð.

,,Ég hef mikinn áhuga á fá  DynIce togtaugar um borð í þetta skip. Við erum enn að nota togvíra og maður sér slakann á þeim, þegar þeir sökkva undan eigin þunga, á leiðinni í toghleranana. DynIce Data höfuðlínukapallinn er hins vegar alltaf beintengdur ef svo má að orði komast. Sama árangri myndum við ná fram með togtaugunum í stað víra,“ segir Sturla Einarsson.

Please fill in the below details in order to view the requested content.