Gerast áskrifandi

Index: 0

Endurhönnuðu dragnæturnar eru algjör snilld

11.08.2020

,,Mér finnast þessar voðir vera algjör snilld og ekki spillir fyrir að það er búinn að vera mokafli í allt sumar,” segir Stefán Egilsson, skipstjóri á Agli ÍS frá Þingeyri.  Hann er einn þeirra útgerðarmanna vestfirskra dragnótabáta sem eru hæst ánægðir með dragnæturnar sem Snorri Sigurhjartarson veiðarfærameistari og rekstrarstjóri Hampiðjunnar á Ísafirði hefur endurhannað með sínum mönnum.

Snorri hefur sérhannað dragnótapoka til að veiða og velja út stærsta fiskinn,  þremur kílóum eða þyngri til að hámarka verðmæti aflans. Þetta hefur tekist mjög vel og valhæfni pokans er mjög góð svo fremi sem veiðin sé ekki of mikil hverju sinni.


Að sögn Stefáns er hann með tvær nýjar voðir frá Hampiðjunni og eru báðar með hopperum. Ekki er vanþörf á þeim því þótt botnlag sé gott á sjálfum bleyðunum, sem veitt er á, eru þær bæði litlar og þröngar. Allt um kring er svo harður botn sem farið getur illa með veiðarfærin.

,,Þessar voðir eru alltaf  klárar. Við höfum verið að veiðum jafnt inni á fjörðum og svo á grunnmiðum hér úti af Vestfjörðum og aflinn í allt sumar hefur verið ævintýri líkastur. Það hefur verið mokveiði og ég man ekki eftir betri aflabrögðum. Egill er ekki stór bátur og við höfum reynt að takmarka aflann við fiskkörin um borð. Það hefur gengið misvel en yfirleitt höfum við verið með 14 til 25 tonn eftir daginn. Uppistaða aflans er þorskur og við höfum verið með þorsk frá tveimur kílóum og upp í átta og allt þar á milli,” segir Stefán.

,,Hafa reynst frábærlega”

Annar skipstjóri, sem ekki er síður ánægður með voðirnar frá Hampiðjunni, er Einar Guðmundsson, skipstjóri á Ásdísi ÍS frá Bolungarvík.


,,Snorri er búinn að setja upp þrjár voðir fyrir okkur og þær hafa reynst frábærlega. Voðirnar eru 420 möskva en við vorum áður með 560 möskva voð. Mér finnst nýja gerðin mun léttari í drætti en sú gamla og allt er mun þægilegra. Bleyðurnar eru ekki stórar en þessi nýja voð smellpassar þeim aðstæðum sem við búum við,” segir Einar en hann segist mest sækja á svæðið út af Aðalvík á sunnanverðum Hornströndum. Þangað er um 22 mílna sigling frá Bolungarvík.

,,Það hefur verið mokafli í allt sumar. Minnsti aflinn var þrjú tonn en við höfum líka komist upp í 40 tonn eftir daginn. Algengur afli er 20 til 30 tonn eftir daginn og þetta er mest þorskur yfir fjórum kílóum. Meðafli er ýsa, koli og steinbítur,” segir Einar.  

Að hans sögn er Ásdís gerð út árið um kring. Rækjuveiðar byrja í janúar, kolaveiði hefst á vorin og svo taka við hefðbundnar dragnótaveiðar sem standa fram í janúar. Svo til allur bolfiskur og flatfiskur er seldur á fiskmarkaði.

Dragnótamyndin er birt með leyfi Seafish

Please fill in the below details in order to view the requested content.