Gerast áskrifandi

Index: 0

Fiskuðum lítið minna en tveggja trolla skipin

26.04.2022

Blængur NK var nýlega að veiðum í norsku lögsögunni í Barentshafi og vakti það athygli margra að afli Blængs í eitt troll var lítið minni en togaranna sem toguðu með tveimur trollum samtímis. Alls var Blængur með 1.175 tonn af fiski upp úr sjó að verðmæti 635 milljónir króna (cif) eftir túrinn og er það hald manna að þetta sé einn verðmætasti afli sem íslenskur bolfisktogari hefur komið með að landi.

Trollið, sem um ræðir, er af gerðinni H-Toppur 127, og að sögn Hermanns Guðmundssonar, rekstrarstjóra og netagerðarmeistara hjá Hampiðjunni á Akureyri virðist nýja trollið virka mjög vel.

,,H-Toppur er botntroll sem ætlað er til veiða á öllum botnlægum fisktegundum við Íslandsstrendur sem nýttar eru. Höfuðlínuhæðin er mest 6,1 metri og Rockhopperinn er 40,8 metra langur. Það eru um 100 metrar niður að poka,” segir Hermann en hann upplýsir að hugsunin á bak við hönnunina hafi verið að skapa alhliða veiðarfæri sem bæði tæki á lengd og breidd. Miðað við umsagnir áhafnarinnar á Blængi virðist það hafa tekist.

Skipstjóri í veiðiferðinni í Barentshafi var Sigurður Hörður Kristjánsson og hann segir að áhöfnin og H-Toppurinn hafi náð vel að halda í við tveggja trolla skipin. Áberandi sé að það sé minna af þorski í norsku lögsögunni en undanfarin ár en hins vegar séu tegundir eins og gullkarfi, ýsa og rækja á uppleið.

,,Við erum gríðarlega ánægðir með trollið og samskiptin við Hermann og hans fólk. Það er ekki nóg að selja troll. Eftirfylgnin hjá Hermanni er einstök og það kunnum við vel að meta,” segir Sigurður Hörður Kristjánsson.

Bjarni Ólafur Hjálmarsson er skipstjóri á Blængi á móti Sigurði Herði og hann segir nýja trollið eftir teikningu Hermanns Guðmundssonar vera sömu gerðar og trollið sem Blængur hefur verið með í ein tvö til þrjú ár.

,,Við höfum verið með H-Topp 127 og reyndar líka H-Topp 115. Trollið hefur reynst okkur ákaflega vel. Við erum yfirleitt með höfuðlínuna í 3,5 faðma hæð og 90 til 100 faðma á milli hlera,” segir Bjarni en til glöggvunar er hver faðmur 1,82 metrar. Bjarni segir trollið alltaf með ,,rockhopperum” en með því móti er minni hætta á að trollið rifni. Notaðir eru 11 fermetra Sparrow toghlerar og vegur hvor um sig 5,2 tonn.

Please fill in the below details in order to view the requested content.