Gerast áskrifandi

Index: 0

Fjölmenni í ferð Hampiðjunnar í tilraunatankinn í Hirtshals

24.11.2014

Fjölmenni í ferð Hampiðjunnar í tilraunatankinn í Hirtshals

Búist er við því að allt að 70 manns taki þátt í árlegri kynningarferð Hampiðjunnar til Hirtshals í Danmörku þetta árið en líkt og venjulega verður virkni veiðarfæra fyrirtækisins og dótturfélaga kynnt í tilraunatankinum í Nordsjöcenter. Ferðin stendur yfir dagana 3. til 5. desember nk. og búist er við því að erlendir þátttakendur verði um 35 talsins.

Ferðin í tilraunatankinn í Hirtshals hefur verið fastur liður í starfsemi Hampiðjunnar um árabil. Auk kynningar á því hvernig veiðarfærin virka við sem raunverulegastar aðstæður verða haldnir fyrirlestrar um þróun í gerð veiðarfæra og veiðarfæraefna og kynningar á hinum ýmsu framleiðsluvörum sem Hampiðjan og samstarfsaðilar fyrirtækisins bjóða upp á.

,,Að þessu sinni munum við leggja áherslu á að kynna kosti Gloríu flottrollanna okkar, DynIce Quickline lausnina í trollpokunum og síðast en ekki síst notkun flottrollshlera við botntrollsveiðar,“ segir Haraldur Árnason, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni.

Þetta síðast nefnda er einkum athyglisvert fyrir þær sakir að með notkun flottrollshlera á botntrollsveiðum er hægt að draga verulega úr umhverfisspjöllum á þeim botni sem verið er að toga á. Sumir kjósa reyndar að nota þung lóð til að slaka hlerunum niður undir botninn á meðan aðrir hafa losað sig við lóðin og telja sig ekki fiska minna fyrir vikið. Í ferðinni í tilraunatankinn verður m.a. sýnt hvernig trollin virka með eða án lóða.

,,Ég hef ekki tölu á því hve oft Hampiðjan hefur efnt til kynningarferða í tilraunatankinn í Hirtshals en allar þessar ferðir eiga það sammerkt að áhuginn er mikill. Framan af voru það aðallega Íslendingar sem tóku þátt, en nú koma fulltrúar frá útgerðarfélögum um allan heim með í þessar ferðir til að kynna sér þær nýjungar sem við höfum upp á að bjóða. Líkt og venjulega þá munum við samhliða skoðunarferðinni bjóða upp á vandaða fyrirlestra, sem tengjast veiðarfærum og veiðarfæratækni.

Auk Hampiðjunnar mun talsmaður Furuno, sem er eitt öflugasta fyrirtæki heims á sviði fiskleitartækni, vera með fyrirlestur um nýjunar á því sviði frá fyrirtækinu, segir Haraldur Árnason.


Tankbod islenska 2014.pdf

Please fill in the below details in order to view the requested content.