Gerast áskrifandi

Index: 0

Flottrollsveiðar með DynIce Data höfuðlínukapli

9.12.2021

Útgerðir um 110 fiskiskipa vítt og breitt um heiminn hafa fest kaup á DynIce Data höfuðlínukaplinum frá árinu 2015. Það ár voru gerðar umtalsverðar breytingar á hönnun koparskermsins utan um koparvírinn í innsta kjarna kapalsins en að öðru leyti hafa breytingar verið tengdar framleiðsluferlinu og fullkomnun þess.  Í upphafi var stefnt að því að líftími kapalsins yrði 5 ár og því markmiði er nú náð og gott betur en það. Líftíminn gæti raunar reynst mun lengri en þau 5 ár sem eru nú staðfest og það kemur í ljós á næstu árum hver endingartíminn er í raun.      

Mikil söluaukning hefur orðið að undanförnu til útgerða bandarískra skipa, sem veiða aðallega alaskaufsa í flottroll, en segja má að allar flottrollsveiðar kalli á lausnir eins og DynIce Data höfuðlínukapalinn.  Þar eru almennt notaðir tveir kaplar og annar þeirra notaður fyrir myndavél á mótum poka og belgs til að fylgjast með því hvaða fisktegund er að veiðast.


Einar Bjargmundsson, sölustjóri Hampiðjunnar á Íslandi, segist mjög ánægður með viðbrögðin við DynIce Data höfuðlínukaplinum.

,,Í samtölum mínum við íslenska skipstjórnarmenn hefur komið fram að menn hafa náð allt að 10-15 metra meiri höfuðlínuhæð sem jafngildir stærri veiðifleti sem nemur 1.400 til 2.100 fermetrum með DynIce Data höfuðlínukaplinum en þeir náðu áður með vírkapli enda svífur kapallinn yfir vegna þess hversu léttur hann er og togar upp en dregur ekki niður höfuðlínuna eins og stálvírinn. Það munar um minna. Við höfum verið að selja mönnum 3.000 metra langa höfuðlínukapla en skipstjórarnir telja að 2.500 metrar gætu reynst nóg. Ástæðan er sú að þegar þeir notuðu vírana urðu menn reglulega að taka allt að 10-15 faðma af endunum vegna þess að þeir ryðguðu. Tógið ryðgar ekki og það gerir gæfumuninn,” segir Einar Bjargmundsson.


Kostirnir eru ótvíræðir
Einn þeirra íslensku skipstjóra sem verið hafa með DynIce Data höfuðlínukapalinn er Eyjólfur Guðjónsson á Ísleifi VE en hann segir að hann og Magnús Jónasson, félagi hans og hinn skipstjórinn á Ísleifi, gætu ekki verið ánægðari með höfuðlínukapalinn.


,,Þetta er algjör snilld. Við höfum verið með DynIce Data frá því 2015. Allar upplýsingar frá höfuðlínustykkinu og öðrum nemum skila sér á skjá í brúnni. Við fáum allar upplýsingar um innkomu í trollið á tölvumynd og sjáum nákvæma hæð á höfuðlínunni hverju sinni,” segir Eyjólfur en hann segir kosti DynIce Data höfuðlínukapalsins þar með ekki upp talda.

,,Léttleikinn, styrkurinn og endingin eru e.t.v. helstu kostirnir þegar öllu er á botninn hvolft. Þetta er auðvitað tóg í stað vírs og það er því miklu léttara í drætti sem sparar umtalsvert af olíu. Styrkurinn er ótrúlegur og hann gefur vírunum ekkert eftir, öðru nær. Þá er endingin eftir, hún er allt að því þreföld miðað við vírinn. Það er a.m.k. okkar reynsla. DynIce kapallinn ryðgar ekki en það gerir vírinn. Ég veit að DynIce Data höfuðlínukapallinn er eitthvað dýrari en hefðbundnir kaplar en okkar reynsla er að sú upphæð er mjög fljót að sparast,” segir Eyjólfur Guðjónsson.

Sjö íslensk skip komin með DynIce Data höfuðlínukapalinn
Búið er að selja DynIce Data höfuðlínukapalinn til útgerða tíu uppsjávarveiðiskipa á Íslandi, í Færeyjum og Noregi. Íslensku skipin eru Huginn VE og Ísleifur VE frá Vestmannaeyjum, Norðfjarðarskipin Börkur NK og Beitir NK, Vilhelm Þorsteinsson EA frá Akureyri og Venus NS og Víkingur AK frá Brimi en heimahafnir þeirra eru annars vegar Vopnafjörður og hins vegar Akranes. Færeysku skipin Finnur Friði og Tróndur í Gøtu eru bæði með DynIce Data höfuðlínukapla sem og norska skipið Harvest.

Please fill in the below details in order to view the requested content.