Gerast áskrifandi

Index: 0

Framkvæmdir við stækkun netaverkstæðis að hefjast í Eyjum

17.08.2016

Útibú Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum var opnað í mars sl. og  verslun með útgerðarvörur hafin á staðnum í byrjun apríl. Þar er hægt að fá allar helstu rekstrarvörur vegna veiðarfæra og hífibúnaðar auk hlífðarfatnaðar og flotgalla svo nokkur dæmi séu nefnd.

“Þá er stefnt  að því að stækkun á húsnæði netaverkstæðisins geti hafist eftir tvær til þrjár vikur. Það hefur dregist vegna sumarleyfa,“ segir Ingi Freyr Ágústsson, útibússtjóri Hampiðjunnar í Vestmannaeyjum.

,,Kynningarstarfið hér hefur gengið að óskum, þannig að við lítum björtum augum á framtíðina hér í Eyjum. Við erum búnir að setja upp nýja gerð af botntrolli  sem reynd verður fljótlega um borð í Frá VE. Einnig höfum við sett upp nokkra flottrollsbelgi og úthafskarfapoka fyrir netaverkstæði Hampiðjunnar í Reykjavík. Annars bíðum við spenntir eftir því að húsnæðið verði stækkað og aðstaðan verði eins og best verður á kosið,“ segir Ingi Freyr.

Núverandi hús er 20 metra langt og 18 metra breitt og er því 360 fermetrar að grunnfleti. Húsið verður lengt um 40 metra til norðurs og verður eftir þær framkvæmdir því 1.080 fermetrar að grunnfleti. Í því verður flottrollsbraut og nótabraut auk aðstöðu fyrir togtaugar og togvíra.

,,Allar húseiningar koma tilbúnar frá verksmiðju í Danmörku. Það fyrirtæki er sérhæft á þessu sviði og hefur m.a. nýlega sett upp tvö stálgrindahús fyrir dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Danmörku,“ segir Ingi Freyr Ágústsson en þess má geta að búist er við því að sex til sjö manns muni starfa hjá Hampiðjunni í Vestmannaeyjum eftir að nýbyggingin verður tekin í notkun en starfsmenn nú eru þrír talsins.

Please fill in the below details in order to view the requested content.