Gerast áskrifandi

Index: 0

Gleðilegt að komast í tankinn á ný eftir langvinnt hlé

14.12.2022

Eftir tveggja ára hlé vegna Covid var aftur mögulegt að fara í hina árlegu ferð Hampiðjunnar í í tilraunatankinn í Hirtshals núna um síðustu mánaðarmót.

Til að halda áfram vöruþróun í trollum meðan á faraldrinum stóð var engu að síður farið í tilraunatankana í Hirsthals og St. Johns en þá með örfáum þátttakendum. Afraksturinn af þeim ferðum var meðal annars til skoðunar í tankinum og núna með stórum og góðum hópi þátttakenda.

 

Flestir komu frá Íslandi, en einnig komu hópar frá Nýja-Sjálandi, Bandaríkjunum og Chile. Að ferðinni stóðu auk Hampiðjunnar, Simberg sem er umboðsaðili Simrad á Íslandi, og Thyborøn Trawldoors í Danmörku.

Tækifærið var einnig notað til að heimsækja Karstensens skipasmíðastöðina í Skagen og það er reyndar orðinn fastur liður í tankferðunum því þar eru alltaf áhugaverð smíðaverkefni í gangi.

Þar var einmitt verið að leggja lokahönd á vinnu við nýju Ísafoldina en henni var síðan siglt til heimahafnarinnar í Hirtshals tveim dögum síðar.

  

Þannig lýsir Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Ísland, velheppnaðri ferð með viðskiptavini í tilraunatankinn í Norðursjávar- miðstöðinni í Hirtshals í Danmörku á dögunum. Sambærilegar ferðir hafa verið farnar á vegum Hampiðjunnar um áratuga skeið enda eru þær besti möguleiki skipstjórnarmanna og annarra til að sjá hvernig veiðarfærin virka í sjónum við raunverulegar aðstæður og hvernig þau bregðast við ákveðnum breytingum.

Meðal botntrollanna, sem voru skoðuð í tankinum voru H-toppur, Gulltoppur og Jagger en þetta eru þau botntroll sem eru í notkun hér á heimamiðum af viðskiptavinum okkar. 

Í flottrollum var lögð áhersla á loðnu-, kolmunna-, síldar- og makríltrollin. Í þessari ferð gafst okkur tækifæri að sýna nýja útfærslu af loðnutrolli og belg.  Einnig voru sýnd nýju kolmunnatrollin okkar, Gloría 2304 og 2432, sem komu í endurbættri útgáfu á markað fyrir tveimur árum, en þau hafa gert það gott undanfarið. Makríltrollið Gloría 1760, vekur alltaf athygli enda er það notað af mörgum uppsjávarskipum sem stunda makrílveiðar. 

 

Að sögn Jóns Odds voru Thyborøn og Simrad með vandaðar og ýtarlegar kynningar á sínum vörum samhliða heimsókninni í tankinn enda margt spennandi gerst á undanförnum tveim árum í þeirra vöruþróun.

„Thyborøn kynnti nýja vörulínu sína á sviði toghlera en þar mátti sjá nýja T26 semi pelagic hlerann fyrir botntroll en áhugaverðast var að sjá stýranlega T32 hlerann. Þessi hleri er einkaleyfisvarinn og byggist einkaleyfið á annari aðferð en þeir stýranlegu hlerar sem eru í boði núna og er að auki mun sterkbyggðari. Úr brúnni er hægt að stilla dýpið á hleranum eða hæð yfir botni, fjarlægð á milli þeirra í rauntíma og stilla flatarmál hlerans

Einnig var farið yfir þá möguleika sem Simrad TV80 bíður upp á og Simrad FM90i fjölgeislasónar sem m.a. býður uppá myndir í hærri upplausn en áður hefur sést. Hjá Simrad er mikil þróun í gangi og spennandi nýungar að líta dagsins ljós.

DynIce Data kapalinn var nú hægt að sýna í fyrsta skipti í tankinum í Hirtshals og hvernig hann hegðar sér í drætti samanborið við stálkapal. Þótt toghraðinn í tankinum sé mun minni en í raunveruleikanum, eða einungis 1,8 hnútar, þá fór ekki á milli mála hversu stórkostlegur munur er á þessum tveim gerðum.   Stálkapallinn lá fastur við tankbotninn meðan DynIce Data lyfti sér strax upp og sveif yfir í miðjum tankinum. Það fór ekki á milli mála að þessi samanburður vakti mikla athygli og greinilegt var að einhverjir ákváðu, eftir að hafa séð muninn, að skipta yfir í DynIce Data.

Þessi ferð var sérstaklega ánægjuleg því langt er síðan svona ferð hefur verið farin og gleði, léttleiki og áhugasemi þátttakenda var augljós. Þessar ferðir eru okkur Hampiðjumönnum mikilvægar því að þarna fáum við frábært tækifæri til að kynnast notendum veiðarfæra okkar betur og fá frá þeim upplýsingar varðandi notkun á veiðarfærinu ásamt því að fá skoðun þeirra á því sem við erum að kynna. Fyrir skipstjórnarmenn og útgerðarmenn er þetta einstaklega gott tækifæri til að hitta vini og félaga og kynnast betur starfsfélögum og einnig að kynnast nýjum sem er öllum mjög mikilvægt. 

Lagt var af stað í ferðina á þriðjudegi og var því hægt að nýta miðvikudag og fimmtudag í tankinum ásamt fyrri hluta föstudagsins. Um helmingur hópsins fór heim á leið á föstudeginum eða laugardeginum en margir völdu að dvelja yfir helgina í Kaupmannahöfn ásamt mökum sem komu út til að njóta þeirrar einstöku jólastemningar sem ríkir í borginni vikurnar fyrir jólahátíðina.  Dagskrá ferðarinnar lauk síðan með jólakvöldverði í boði Hampiðjunnar á laugardagskvöldið þar sem snædd var dönsk jólaönd með öllu tilheyrandi,“ sagði Jón Oddur glaður í bragði og er greinilega farið að hlakka til næstu ferðar að ári.

Please fill in the below details in order to view the requested content.