Gerast áskrifandi

Index: 0

Góður gangur á DanFish sjávarútvegssýningunni í Álaborg

19.10.2015

Góður gangur á DanFish sjávarútvegssýningunni í Álaborg
,,Ég er mjög ánægður með sýninguna, hún er sú besta að mínu mati fram að þessu. Það er áætlað að um 14.000 gestir hafi sótt sýninguna í ár og þar af var um fjórðungurinn erlendis frá. Framleiðsluvörur okkar vöktu mikla athygli og þá ekki síst DynIce togtaugarnar og höfuðlínukapallinn sem og Gloríu Helix flottrollin og Cosmos rækjutrollin.  Margar góðar pantanir voru undirskrifaðar og mikill áhugi var fyrir vörum okkar.

Þetta segir Haraldur Árnason, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni og framkvæmdastjóri Cosmos Trawl í Danmörku. Sýningin, sem hann vitnar til er DanFish International  sem haldin var í Álaborg í Danmörku í síðustu viku. Dótturfyrirtæki Hampiðjunnar í Danmörku, Cosmos Trawl og Nordsøtrawl, voru þar með sameiginlegan sýningarbás þar sem framleiðsluvörur og þjónusta fyrirtækjanna og Hampiðjunnar voru kynntar.

,,Á síðasta degi sýningarinnar var farin  kynnisferð með íslenska og rússneska útgerðarmenn og skipstjóra í tilraunatankinn í Hirtshals.   Við sýndum  þar  virkni Gloríu Wide Body flottrolla, sem ætluð eru til veiða á alaskaufsa, og Gloríu 4-Wide flottrollanna sem hönnuð eru til makrílveiða. Einnig var kynnt til sögunnar nýtt Gloríu Helix kolmunnatroll sem tekið verður í notkun á næstu vikum.“

Eitt af því sem vakti sérstaka athygli á sýningarbásnum var átaksvindan (Tension Winch) sem Cosmos Trawl hefur verið með í notkun allt þetta ár á athafnasvæði sínu við höfnina í Hirtshals.  Þetta er gert til að auka enn við þjónustu  okkar í Danmörku, en svona spil eru ekki algeng í dag og er staðsetningin þess í Hirtshals mjög góð fyrir fiskveiðiflotann í Norðursjónum. Við höfum  fengið mikið af svona innröðunar verkefnum  undanfarna mánuði frá  viðskiptavinum okkar á Norðurlöndunum.

Please fill in the below details in order to view the requested content.